Líf og fjör við höfnina


Siglufjörður var sú höfn á landinu þar sem mestu var landað af þorski á síðasta fiskveiðiári, eða alls 20.513 tonnum. Höfuðborgin var sjónarmun á eftir með 20.509 tonn og í þriðja sæti var Grindavík með tæplega 19 þúsund tonn af lönduðum þorski, en hins vegar er verulegur hluti af þorski sem landað er á Siglufirði keyrður suður til vinnslu í Grindavík. Fiskveiðiárið 2015/16 komu 21.588 tonn af þorski á land í Reykjavík, tæplega 1400 meira en á Siglufirði. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Ennfremur segir þar:

„Eins og síðustu ár hefur verið líf og fjör við höfnina á Siglufirði í haust, miklu landað þar af fiski og tíðin verið hagstæð til sjósóknar. Öflugir aðkomubátar gera þaðan út frá september og fram í nóvember, en fiskurinn er þó aðeins að litlu leyti unninn á Siglufirði. Flutningabílar eru mættir á staðinn kvöldið fyrir löndun bátanna og er algengt að bílstjórar leggi sig í bílunum yfir nóttina. Þeir eru svo tilbúnir að keyra fiskinn til vinnslu í Grindavík, á Snæfellsnesi og annars staðar um leið og fiskinum hefur verið landað…

Steingrímur Óli Hákonarson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Siglufjarðar, segir að mikið hafi verið að gera í haust og aðeins þrír dagar séu óbókaðir hjá löndunargenginu það sem eftir er af nóvember. Auk báta frá Þorbirninum þjónusta þeir meðal annars báta frá Hellissandi, Rifi, Stykkishólmi og báta frá Stakkavík í Grindavík. Flutningabílar frá Jóni og Margeiri, Ragnari og Ásgeiri, sem keyra á Snæfellsnesið, Flytjanda og fleiri fyrirtækjum eru fastagestir í bænum.

Sextán manns starfa við löndun og á markaðnum þá daga þegar landað er úr tveimur skipum, að sögn Steingríms. Harður kjarni heimamanna standi vaktina, en í hópnum sé einn Pólverji. Hann hafi reyndar flutt heim til Póllands í fyrra, en komið aftur til Siglufjarðar fyrir nokkrum vikum til að taka þátt í törninni í haust, enda geti tekjurnar verið góðar.

Steingrímur segir að bátarnir hafi fyrst reynt fyrir sér úti fyrir Norðurlandi í lok ágúst, en þá hafi verið mikið æti í fiskinum, meðal annars loðna og síld, og þeir því farið austur fyrir land í nokkra daga.
Flest stærri línuskipin hafa verið fyrir Norðurlandi í haust og má nefna að bátar Vísis hafa landað á Sauðárkróki, eftir að hafa undanfarin ár landað á Dalvík, Siglufirði og Skagaströnd.“

Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar á Hafnarbryggjunni í gær, þegar verið var að landa úr Sturlu GK 12.

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Ágúst Ingi Jónsson, Morgunblaðinu / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is