Leysingar valda usla


Eins og víðar á Íslandi voru leysingar í Siglufirði í nótt og dag í kjölfar hlýinda, auk þess sem úrkoma, þótt ekki væri hún mikil, bætti ekki úr skák. Sumstaðar flæddi upp um brunna og niðurföll og færði götur á kaf að einhverju leyti, ekkert þó í líkingu við það sem var síðast. Loka þurfti samt Túngötunni að stórum hluta þegar verst lét. Íbúar þar segja að ástandið hafi versnað að mun eftir að allar lagnir voru endurnýjaðar þar og telja að eitthvað sé bogið við það sem sett var þá í jörð á mótum Túngötu og Þormóðsgötu, því þar safnast vatn ítrekað við þessar aðstæður og flæðir í allar áttir. Aðrir hlutar Eyrarinnar sluppu að mestu í þetta sinn.

Á sama tíma var slökkviliðið kallað út til aðstoðar að Dvalarheimili aldraðra í Skálarhlíð, því þar flæddi vatn um ganga á 1. hæð og niður á jarðhæð. Ekki er vitað hvað olli þessu, en grunur leikur á að vatnið hafi komið að utan. Bæjarstarfsmenn munu skoða þetta betur á morgun.

 

Myndir og texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]