Leikið í loðnuþró


Siglfirðingurinn Oddur Guðmundur Jóhannsson (f. 1954), sonur Jóhanns Jóhannssonar frá Siglunesi og Soffíu Pálsdóttur úr Héðinsfirði, tók mikið af myndum á sínum yngri árum. Þær eru ómetanleg heimild um bæinn, m.a. á árunum eftir að síldin hvarf. Oddur slasaðist alvarlega árið 1994 og býr nú á Sambýlinu á Siglufirði.

Már Jóhannsson, bróðir Odds, hefur verið iðinn við að miðla myndum úr þessu safni á Facebook. Tvær þessara mynda hafa fengið nokkra athygli síðustu daga, enda mjög sérstakar. Þar sést handboltaleikur stúlkna í gamalli síldarþró eða loðnuþró. Nú er komið í ljós að myndirnar voru teknar í ágúst 1979 þegar unglingar frá Eiði í Færeyjum, vinabæ Siglufjarðar, komu í heimsókn. Strákarnir kepptu í knattspyrnu en stelpurnar í handbolta og einmitt í þrónni. Myndirnar eru frá öðrum tveggja leikja, en KS-stelpur unnu þá báða. Kristján L. Möller segir á Facebook að hann kannist við spengilega dómarann og að Ægir Jónsson, faðir núverandi sóknarprests, hafi smíðað mörkin í áhaldahúsi bæjarins.

Í athugasemdum á Facebook hafa stúlkurnar verið nafngreindar: Berglind Gylfadóttir, Guðrún Jóhannsdóttir (í markinu), Kolbrún Gunnarsdóttir, Linda Sigurðardóttir, Mundína Valdís Bjarnadóttir, Ólína Þórey Guðjónsdóttir og Særún Jóhannsdóttir. Þær munu hafa verið á aldrinum frá 14 til 20 ára þegar myndirnar voru teknar. Sóley Ólafsdóttir lék einnig báða þessa leiki gegn Færeyingum, hún er sú ljóshærða fyrir miðju á efri myndinni og stendur fyrir framan vörnina á þeirri neðri.

Á Facebook hefur komið fram að knattspyrnuæfingar hafi einnig verið stundaðar í þrónni og jafnvel haldnir tónleikar þar. Í gömlum blöðum má sjá að í tengslum við hátíðahöldin 17. júní 1974, á þrjátíu ára afmæli lýðveldisins, hafi verið haldið badmintonmót í þrónni og fullyrt var að það hafi verið fyrsta utanhússbadmintonmótið hér á landi.

Staðkunnugir menn segja að umrædd þró hafi tilheyrt síldarverksmiðjunni SRN sem byggð var 1935, en N stendur fyrir Nýja verksmiðjan, (hinar voru SRP, verksmiðja dr. Paul, SR30, stundum nefnd Miðríkið, og SR46).

lodnuthro_02

Myndir: Oddur Guðmundur Jóhannsson.
Texti: Jónas Ragnarsson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]