Leðurblökur á Siglufirði


Þrjár leðurblökur komu til Siglufjarðar með dönsku skipi seinnipart fimmtudags í síðustu viku en uppgötvuðust ekki þar fyrr en að morgni daginn eftir, þegar uppskipun hófst. Skipið var að koma frá Belgíu með efni í Hafnarbryggjuna, en til stendur að stækka hana og laga á næstunni. Tvær leðurblakanna náðust en sú þriðja flaug út á haf. Ekkert hefur til hennar spurst síðan.

Í viðtali við Ævar Petersen dýrafræðing í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að til loka ársins 2012 hafi einungis fundist hér á landi 38 leðurblökur, sem vitað er um, og þar af hafi ekki verið hægt að greina 18 þeirra.

Undirritaður giskar þó á trítilblökur (Pistrellus nathusii) í þessu tilfelli. Nánar verður fjallað um málið þegar endanleg greining liggur fyrir.

Leðurblökurnar voru sendar síðdegis á föstudag með flugi frá Akureyri til Reykjavíkur, þar sem starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands tók við þeim.

Danska skipið við Óskarsbryggju á föstudag.

Önnur leðurblakanna hangandi í sjónvarpskapli.

Umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is