Landsbjörg fagnar 90 ára afmæli


Slysavarnafélagið Landsbjörg er 90 ára í dag. Slysavarnafélag Íslands var stofnað 29. janúar 1918 en stofnun þess markaði upphaf skipulags björgunar- og slysavarnastarfs á Íslandi. Hinn 2. október 1999 sameinuðust Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg – landssamband björgunarsveita, í ein slysavarna- og björgunarsamtök, Slysavarnafélagið Landsbjörg.

Afmælinu hefur verið fagnað hvarvetna, allar einingar innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar verið með afmælisveislur á sínum heimaslóðum. Björgunarsveitin Strákar og Slysavarnadeildin Vörn buðu t.d. styrktaraðilum og gömlum félögum til kaffisamsætis í Þormóðsbúð í kvöld og þökkuðu fyrir stuðninginn á liðnum árum. Veislurnar hófust allar á sama tíma, klukkan 20.00. Hálftíma síðar var streymt frá hátíðarstjórnarfundi félagsins og hægt var að fylgjast með honum á Netinu. Klukkan 21.00 var svo hvítum sólum skotið á loft um allt land.

Einnig kynntu Strákar starfsemina og sýndu tæki og tól.

Þessari hvítu sól var skotið á loft á Siglufirði kl. 21.00 í kvöld.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is