Lætur af störfum í leikhúsinu


Siglfirðingurinn Guðrún Stefánsdóttir hefur látið af störfum í miðasölu Borgarleikhússins, vegna aldurs, að því er Vísir greinir frá. Guðrún er fædd 1949, eiginkona Theodórs Júlíussonar leikara og dóttir Stefáns Guðmundssonar bifreiðastjóra og Huldu Stefánsdóttur. Frændgarður hennar á Siglufirði er stór.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri og fyrrverandi leihússtjóri skrifar eftirfarandi á Facebook af þessu tilefni: „Sumt fólk er einfaldlega magnaðara en annað. Vinkona mín, Guðrún Stefáns, er þannig manneskja. Þó hinir mögnuðu töfrar leikhússins gerist á sviðinu og í loftinu á milli áhorfenda og leikara, þá hófst upplifunin fyrr hjá gestum Borgarleikhússins. Guðrún rak miðasölu leikhússins af ótrúlegum myndugleik og gleði. Hún var með alla þræði í hendi sér, vissi allt og passaði upp á allt. Það var algerlega ótrúlegt að upplifa hvernig Guðrún tók á móti þúsundum gesta leikhússins með nafni, breiðu brosi og hlýju og mundi hvaða sæti þeir áttu – í fúlustu alvöru! Guðrún lifði með leikhúsinu, elskaði það og enginn gladdist meira þegar röð var út úr dyrum í miðasölunni og heilu sýningarnar fylltust. Þá brosti Guðrún allan hringinn og sagði „Þetta er svo frábært, Maggi!“ Ég hugsaði oft að hjá henni hafi Síldarævintýrinu aldrei lokið. Guðrún var svo sannarlega hjartað í leikhúsinu okkar. Ég vona að hún fái nú að slaka svolítið á og njóta lífsins eftir allar tunnurnar og fullu áhorfendasalina sem hún hefur skilað af sér.“

Ljósmyndin hér fyrir neðan var tekin fyrir nokkrum dögum þegar Guðrún og Theodór héldu upp á 50 ára brúðkaupsafmæli sitt.
Forsíðumynd: Ernir Eyjólfsson / Fréttablaðið. Birt með leyfi.
Önnur mynd: Af Facebook.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is