Lærimeistarar funda á Siglufirði


Líkt og á síldarárunum ríkir nú aftur stórhugur og orkuára í loftinu á Siglufirði. Það var því auðvelt val fyrir skipuleggjendur námskeiðs fyrir lærimeistara fyrir sérnám i heimilislækningum að velja þar námskeiðinu stað.

„Það hefur verið skortur á heimilislæknum undanfarin ár og stjórnendur heilsugæslunnar hafa því lagt á það áherslu að efla kennslu til sérnáms í heimilislækningum hér á landi. Það má segja að vel hafi til tekist þar en nú eru um 40 unglæknar í slíku sérnámi,“ sagði Valþór Stefánsson yfirlæknir á HSN í Fjallabyggð, einn þátttakenda og skipuleggjenda, aðspurður um málið. „Ný reglugerð um sérfræðimenntun í læknisfræði hér á landi kveður nú á um ákveðnar gæðakröfur, meðal annars að heilsugæslustöðvar séu í stakk búnar að veita unglæknum tiltekna starfsþjálfun og að læknar sem annast leiðsögn sérnámslækna öðlist réttindi til kennslunnar. Reglugerðin er að vissu leyti stefnumarkandi og það mun væntanlega taka nokkur ár fyrir heilsugæsluna að aðlagast auknum kröfum,“ sagði Valþór.

Dagana 26.-28. maí tóku um 40 lærimeistarar í heimilislækningum þátt í slíku námskeiði á Siglufirði, því fyrsta sem er haldið eftir að nýja reglugerðin tók gildi. Jafnframt gafst hópnum tækifæri á að kynna sér sögu síldaráranna á Siglufirði, umfangsmiklum lyfjafræðilegum rannsóknum á efnum unnum úr rækjuskel á vegum Genís og að skoða Siglufjarðahluta Heilbrigðisstofnunar Norðurlands auk margs annars.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is