Kvennareið í blíðskaparveðri


Í dag fóru 13 konur í hestamannafélaginu Glæsi á Siglufirði í kvennareið í blíðskaparveðri og með góða skapið í farteskinu. Lagt var af stað frá hesthúsabyggð kl. 17.00 og farinn reiðvegurinn inn í Hólsdal og að stíflunni. Þar var áð um stund, slappað af og vorið teygað í sig, og svo haldið til baka. Þegar á leiðarenda var komið, um kvöldmatarleytið, tók á móti þeim ilmur af grilluðu lambakjöti, sem karlpeningurinn hafði töfrað fram í millitíðinni.

Þetta hefur verið siður kvennanna í nokkur ár, með einhverjum hléum þó á milli, en nú stefna þær á að hittast árlega héðan í frá og endurtaka leikinn, enda mun þetta hafa heppnast einstaklega vel.

Hér má sjá hópinn fríða sem tók þátt í kvennareiðinni í dag.

Farinn var reiðvegurinn inn í Hólsdal og að stíflunni og til baka.

Nú á að gera þetta að árlegum viðburði.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is