Kveikt á jólatrénu


Í dag kl. 18.00 voru ljósin kveikt á jólatrénu á Ráðhússtorginu á Siglufirði. Fjöldi manns var þar saman kominn og jólasveinar tóku lagið. Að þessu sinni er tréð skreytt hjörtum, þar sem öðrum megin er rauður litur en hinum megin ljósmynd af andlitum þeirra um 150 barna og fullorðinna sem sótt hafa barnastarf Siglufjarðarkirkju það sem af er vetri, og flest þeirra hvern einasta sunnudag.

Anna Hulda Júlíusdóttir, sem veitt hefur starfinu forstöðu undanfarið, flutti ávarp og sagði:

Kæru vinir.
Á aðventu og jólum eru ýmsir góðir og fagrir siðir, venjur og hefðir sem við fylgjum ár eftir ár og berum þannig áfram til næstu kynslóðar. Eitt af því er þessi stund, þar sem að við komum saman hér í hjarta bæjarins til þess að tendra ljósin á jólatrénu. Þessi dýrlegi árstími væri æði snautlegur á að horfa, ef ekki væru marglit ljósin til að gefa honum það yfirbragð sem nú má hvarvetna líta. Á aðventu undirbúum við hug okkar og hjarta fyrir hátíð ljóss og friðar. Við minnumst þeirra ástvina sem farnir eru á undan okkur frá þessu jarðneska lífi til hins eilífa. Við hugum að leiðum þeirra, t.d. með því að tendra ljós og minnumst þess tíma er við áttum saman. Hvert og eitt okkar fer í gegnum þessar vikur á sinn hátt – á meðan söknuður og sorg fyllir einhver hjörtu þá eru önnur hjörtu á sama tíma full af gleði og eftirvæntingu. Menningarlíf og verslun blómstrar á þessum árstíma og skapast hefur sú hefð hér á landi að gera vel við sig í mat og drykk. Undanfarnar vikur hefur kirkjuskólinn í Siglufjarðarkirkju verið vel sóttur líkt og undanfarin ár. Eitt af þeim verkefnum sem við höfum unnið þar er að útbúa hjörtu með myndum af þeim sem sótt hafa starfið. Og á eftir verður þetta yndislega jólatré okkar úr Kjarnaskógi við Akureyri skreytt með þessum fallegu hjörtum. Hugurinn á bak við þetta verkefni er sá, að börnin okkar og við öll erum hjarta bæjarins og það er í okkar höndum í hvernig samfélagi við búum. Hvers konar samfélag og samvinna fyrir jólin gefur okkur tækifæri til samtals og fræðslu, t.d. föndur, jólabakstur, tiltekt, skreytingar eða annað. Vinnum að því að gera jólin okkar innihaldsrík og björt. Gleymum ekki að hlúa að fólkinu í kringum okkur, gleymum ekki að hlúa að því sem virkilega nærir hjarta og sál. Brosum hvert til annars, gefum klapp á bakið og veitum faðmlag þeim sem þurfa. Og með þeim orðum óska ég ykkur gleðilegrar aðventu og jóla.

jolatre_radhusstorgi_2016

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is