Kveikt á jólatrénu á Ráðhústorgi


Í dag kl. 17.00 var kveikt á jólatrénu á Ráðhústorgi og var fjöldi manns
þar saman kominn. Það var kalt í veðri og örlítil snjókoma og hvort
tveggja setti viðeigandi blæ á athöfnina, sem var hin ánægjulegasta.
Karítas Skarphéðinsdóttir Neff bauð fólk velkomið og síðan ávarpaði
Ingvar Erlingsson, forseti bæjarstjórnar, heimafólk og gesti. Að því
loknu tók við söngur barna, þá aðeins meira af töluðu orði, og að
endingu flutti Karlakór Sigurfjarðar nokkur jólalög.  

Jólasveinar gengu um og deildu út sælgæti til yngstu kynslóðarinnar meðan á þessu öllu stóð og glöddu þar með lítil hjörtu og þakklát.

Hér koma nokkrar myndir.

Fjöldi manns kom saman á Ráðhústorgi kl. 17.00 í dag.

Karítas Skarphéðinsdóttir Neff ávarpar söfnuðinn.

Ingvar Erlingsson flutti stutt ávarp.

Það var kalt í veðri og dálítil snjókoma, eins og vera ber.

Börnin tóku lagið.

Og þau fengu það virðingarhlutverk að kveikja á þessu fallega jólatré, sem er eyfirskt að uppruna.

Svo var meira sungið.

Jólasveinar voru auðvitað mættir með eitthvað gott að maula handa smáfólkinu.

Karlakórinn á sviðinu.

Hann söng nokkur jólalög.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is