Kveðið úr kirkjuturninum

Margir hafa veitt athygli undarlegum söng sem hljómað hefur að undanförnu úr kirkjuturninum á Siglufirði – á hádegi og síðdegis. Skal nú upplýst að þarna var um „listrænan gjörning“ að ræða sem koma átti forsvarsmönnum og gestum Þjóðlagahátíðar á óvart. Ónefndur heimamaður kvað þar gamla stemmu um ellina, þegar fátt er annað eftir en yndið af því að yrkja vísur.

Þessi gjörningur var sem sagt ætlaður Þjóðlagahátíðinni en mæltist svo vel fyrir meðal margra bæjarbúa að ákveðið var að leyfa honum að hljóma um sinn.

Nú hefur verið skipt um stef sem óma úr turninum, sjö mismunandi lög og enn eru þau kveðin af ónefndum félögum Kvæðamannafélagsins Rímu í Fjallabyggð, eitt lag í senn klukkan 15.15 og 18.15 – til 1. september.

Það er von þeirra sem fyrir þessari tilraun standa að bæjarbúar taki henni vel – enda hvar á þessi gamla tónlistarhefð betur við en í bæ sr. Bjarna Þorsteinssonar, þess mikla þjóðlagasafnara?

Mynd: Sigurður Ægisson | [email protected].
Texti: Örlygur Kristfinnsson.