Kuldamet í mars fyrir 130 árum


Trausti Jónsson veðurfræðingur sagði frá því á vefsíðu sinni í gær að lágmarkshiti marsmánaðar, – 36,2 stig á Celcius, hafi mælst á Siglufirði 21. mars 1881, en þetta var mikill frostavetur. Veðurathugunarmennirnir voru Snorri og Erlendur Pálssynir. Snorri Pálsson var verslunarstjóri og alþingismaður (f. 1840, d. 1883), sonur séra Páls Jónssonar sem samdi sálminn ?Ó, Jesú, bróðir besti?. Eftir að Snorri féll frá lauk ekkjan, Margrét Ólafsdóttir, við að byggja húsið þar sem Þjóðlagasetrið er nú, en þar bjó séra Bjarni Þorsteinsson fyrstu tíu ár sín á Siglufirði. Erlendur Pálsson (f. 1856, d. 1922) var verslunarmaður á Siglufirði frá 1877 til 1887 en síðar þekktur sem verslunarstjóri í Grafarósi og á Hofsósi. Hann var faðir Páls Erlendssonar organista á Siglufirði.

Sagt var frá því í Norðanfara 8. apríl 1881 að tveir menn hafi gengið á hafís og lagís frá Siglufirði til Akureyrar og komið þangað 28. mars. ?Mun það dæmafátt í árbókum vorum að svo mikil ísalög hafi hér verið,? sagði í blaðinu. Í Annál nítjándu aldar sagði ?að frostið hafi farið upp í 37° á Siglufirði? síðustu dagana í mars 1881.

Þess má geta að mesta frost á Íslandi mældist á Grímsstöðum á Fjöllum 21. janúar 1918, 37,9 stig.

Slóð á færslur Trausta Jónssonar 4. mars 2011 og 30. mars 2011.

Línurit af vefsíðu Trausta Jónssonar sýnir að á Siglufirði hefur mælst mesta frost í marsmánuði.

Mynd: Trausti Jónsson.


Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is