Kristján Möller að hætta


„Fyrir stundu tilkynnti ég flokksfélögum mínum í Norðaustur kjördæmi að ég muni ekki leita eftir endurkjöri í komandi alþingiskosningum sem boðaðar eru í haust. Þessa ákvörðun tók ég í vor eftir vandlega yfirferð með mínum bestu stuðningsmönnum og ráðgjöfum, fjölskyldu minni.“ Þetta segir Kristján L. Möller í Facebookfærslu í dag.

Og áfram:

„Ég tók fyrst sæti á Alþingi sem þingmaður gamla Norðvestur kjördæmis eftir alþingiskosningarnar þann 8. maí 1999 og frá því að kjördæmaskipan var breytt 2003 hef ég setið sem þingmaður Norðausturkjördæmis. Árin mín á þingi eru því orðin 17 talsins og löggjafarþingin 22.

Á þessum tíma hef ég, auk hefðbundinna starfa alþingismanns, tekist á við mörg skemmtileg og spennandi verkefni. Verið formaður nefnda, varaforseti Alþingis, varaformaður og ritari þingflokks ásamt því að gegna embætti ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála.

Öll þessi störf, sem og samskipti við kjósendur, hafa veitt mér mikla ánægju og gleði og hafa verið mjög gefandi.

En nú er sem sagt komið að því að taka upp tjaldhælana og láta staðar numið. Ég þakka stuðningsmönnum, kjósendum og samferðarfólki á Alþingi fyrir samstarfið og traustið sem mér hefur verið sýnt í þessu skemmtilega og mikilvæga starfi sem starf alþingismanns er.

Nokkrir mánuðir eru enn eftir af þinginu og mun ég sem fyrr tala fyrir gildum jafnaðarmanna.“

Mynd: Aðsend. Úr safni.
Texti: Aðsendur / Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]