Krían í vondum málum


Krían er í vondum málum hér í firði og nágrenni, m.a. í Haganesvík. Margir fuglar liggja enn á eggjum, en sumir eru komnir með vikugamla unga. Þetta stendur tæpt, því flestar kríur eru lagðar af stað héðan til vetrarheimkynnanna upp úr miðjum ágústmánuði, þótt alltaf verði einhverjar eftir, jafnvel fram undir miðjan september. Ekki er ljóst hvernig þeim síðarnefndu reiðir af, hvort ætlunarverkið tekst. En eitthvað verða þær að gera.

Sennilega hefur kultatíðin í vor og byrjun sumars gert það að verkum að þær verptu ekki fyrr en þetta seint. Þó má rekast á köld egg hér og þar, yfirgefin, sem gætu bent til þess að einhverjar hafi reynt fyrr, en orðið að gefast upp í bili.

Við þetta bætist að ungarnir eru mjög viðkvæmir fyrir kulda og vosbúð. Og ekki eru beint háar hitatölur þessa dagana nyrðra.

Krían er annars hánorræn, verpir um nyrstu strandir jarðarinnar, eins og t.d. í Alaska, Kanada, Grænlandi, á Svalbarða, Frans Jósefslandi og meðfram allri Síberíu. Vitað er til að krían hafi orpið aðeins 720 km frá Norðurpólnum (á Morris Jessuphöfða á Grænlandi); mun enginn fugl annar, að tildrunni undanskilinni, verpa svo norðarlega. Og hún er líka sunnar, eða við Eystrasalt, Norðursjó og Ermarsund, og á Nýfundnalandi og Nýja Englandi (Norður-Ameríka). Auk þess hefur krían orpið í Póllandi, Tékkóslóvakíu, Austurríki, Sviss, Ítalíu, Tyrklandi, Kýpur og Alsír. Útbreiðslusvæðið hefur þó á síðari árum dregist eitthvað saman norður á bóginn.

Eggin eru 1-3, mosagræn eða ljósbrún, með svörtum eða brúnum dílum. Þeim er orpið í lítinn bolla á jörðinni og sinna bæði foreldri hreiðurstörfunum. Útungun tekur yfirleitt 20-24 daga en lengur þó, eða 25-33 daga, ef fuglarnir verða fyrir óvenju mikilli truflun óboðinna gesta. Ungarnir eru hreiðurfælnir, þ.e.a.s. komnir á stjá um nánasta umhverfi 1-3 dögum eftir ábrot. Þeir verða fleygir 21-24 daga gamlir en ekki sjálfstæðir fyrr en 1-2 mánuðum síðar; kynþroska 2-5 ára.

Krían er sögð einn mesti ferðalangur dýraríkisins. Að meðaltali flýgur hún næstum 40.000 km á ári (er samsvarar því að fara umhverfis jörðina við miðbaug) á milli búsetusvæðanna nyrst og syðst. Hún dvelur nefnilega á veturna á hafsvæðinu umhverfis Suðurheimskautslandið og þá ýmist Atlantshafs- eða Kyrrahafsmegin. Með þessari árlegu ferð sinni heimskauta á milli nýtur krían meiri sólarbirtu en nokkur önnur lífvera jarðarinnar; eilíf sól er á varpstöðvum hennar á norðurhveli sem og í heimkynnunum á suðurhveli á veturna. Það mun samt ekki vera birtan ein sem laðar kríuna í þessar ferðir heldur auðugt smádýralíf eða áta heimskautshafanna beggja megin.

Ljósmyndin hér fyrir ofan var tekin við flugbrautina fyrir skemmstu, þar sem undirritaður var að merkja kríuunga fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands.

Þetta er ekki óalgeng sjón í kríuvarpinu í Siglufirði og Haganesvík, dagsgamall ungi og egg.

Myndir: Mikael Sigurðsson.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is