Krían er komin


Íslensku farfuglarnir hafa verið að tínast inn á landið að undanförnu og dreifa sér um byggðirnar. Siglufjörður er þar engin undantekning. Heiðlóan kom fyrir nokkrum dögum, sem og kjóinn og margar andategundir, flórgoðinn líka – en hann er reyndar með ströndum landsins á veturna – og í dag spurðist að krían, maríuerlan og spóinn væru líka mætt á svæðið.

Hettumáfurinn er lagstur á og tjaldurinn sömuleiðis og æðarkollan. Og svartþrastarkarl sást rétt í þessu skjótast með ánamaðka í gogginum í átt að ákveðnu tré, sem bara þýðir eitt, að hann er að fara að mata unga sína. Það er fyrsta staðfesta svartþrastarvarp í Siglufirði.

Eins og lesa mátti á heimasíðu sveitarfélagsins 27. apríl síðastliðinn er þeim tilmælum beint til fólks að taka tillit til alls þessa og vera ekki á ferð um varpsvæðin að óþörfu og alls ekki með hunda. Flugbrautin er þar með talin, enda margar tegundir sem verpa meðfram henni.

Einnig er þeim tilmælum beint til kattaeigenda að setja bjöllur á þá.

Tjaldur liggur á þessum eggjum innfjarðar.

Hér er aðalvarpsvæði siglfirsku fuglanna.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is. Úr safni.
Kort: Íris Stefánsdóttir / Fjallabyggð.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is