Krían er komin


Krían er mætt í Siglufjörð. Örlygur Kristfinnsson og Guðný kona hans sáu tvær í gærkvöldi, eins og lesa má á Siglo.is í dag. Og
hrossagaukurinn kom víst fyrir nokkru síðan og maríuerlan og
þúfutittlingurinn líka. En í dag bættist steindepillinn í hópinn og á
Langeyrartjörn er að auki grafandarsteggur í heimsókn.

Grágæsirnar hafa verið einhverja daga, að sögn Örlygs og Steingríms Kristinssonar. Og hinn síðarnefndi sá spóa á flugi í gær og e.t.v. lóuþræl.

Sumsé allt að gerast.

Íslensk þjóðtrú geymir sitthvað um kríuna. Hún er sögð birtast um krossmessu á vori (1. maí) og fara á krossmessu á hausti (14. september). En hún fær ekki röddina fyrr en hún er búin að krækja sér í hreistur af laxi eða silungi. Hún er lítil en raddsterk, kjarkmikil og einbeitt og því sögð ?ekki annað en fiðrið og vargaskapurinn?. Hún er nær alltaf á flugi, drepur sér niður bara rétt augnablik og hefur ekki annan svefn. Hún er ekki eggjasjúk lengur en þrjár mínútur og flýgur jafnskjótt og hún er orpin. Um þann mann sem aldrei getur setið kyrr er því sagt að hann sé ?eins og þegar kría sest á stein? og um þann sem fljótur er að hryggjast en tekur jafnskjótt gleði sína að hann sé ?eins og kría verpi?. Þegar hún rennir sér í loftinu er hún að reka burt illa anda. Sá maður, er ber á sér kríuhjarta, verður allra hugljúfi.

Og krían var líka veðurviti. Í heimild frá Barðaströnd segir: ?Fuglar breyttu líka háttum sínum fyrir veðri. T.d. flaug máfurinn hærra og meira á land upp þegar stormur var í nánd, sömuleiðis krían, sem þá hópaði sig meira og flutti sig af venjulegum slóðum, gjarnan heim á tún.? Og í Rangárvallasýslu kom hún gargandi inn yfir túnin þegar rigning var í aðsigi. Og svipað var upp á teningnum í Árnessýslu, því einn heimildarmaður segir: ?Öruggt rigningamerki var það ef tjaldar settust á tún með kvaki og hávaða, einnig vætumerki ef krían hafði sig mjög í frammi. Sumir trúðu því að það boðaði gott vor ef farfuglar komu snemma. Gömul trú var að eftir komu sumra farfugla kæmu vorhret. Þau voru nefnd eftir tegundinni. Þrjú voru tíðast nefnd: Lóuhret, spóahret og kríuhret. Stundum brugðust hretin en stundum voru þau líka miklu fleiri og voru þá kennd við eitthvað annað.?

Krían er komin.

Og hér má sjá grafandarstegginn, til vinstri.

 

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is