Kortakvöld hjá Sjálfsbjörg


Siglfirðingur.is frétti í gærkvöldi að
eitthvað skemmtilegt væri um að vera á vinnustofu Sjálfsbjargar, að
Lækjargötu 2, og ákvað því að líta inn, fékk sér kaffi og með því og
forvitnaðist í leiðinni um eitt og annað varðandi starfsemina. Þá stóð yfir kortakvöld, hið
seinna af tveimur; hitt hafði verið 16. nóvember síðastliðinn. Það var
m.ö.o. verið að búa til jólakort og margt annað fallegt.

Sjálfsbjörg
flutti í þetta húsnæði í mars 2006, en var áður að Vetrarbraut 4.

 

Að sögn Kolbrúnar Símonardóttur,
formanns Sjálfsbjargar á Siglufirði – sem er elsta Sjálfsbjargarfélag á
Íslandi, stofnað 9. júní árið 1958, landssambandið var ekki stofnað fyrr
en ári síðar, eða 4. júní 1959 – er opið þarna alla daga fá kl. 1-4 og á
laugardögum frá kl. 2-5, alla vega fram að jólum. ?Reyndar verður opið
hús laugardaginn 4. desember og þá verður opið frá kl. 1-5, í tilefni af
alþjóðadegi fatlaðra sem er 3. desember. Þá munum þá sýna hvað við erum
að gera og leyfa bæjarbúum og öðrum sem áhuga hafa að droppa inn og skoða.?

Þangað sækir jafnan margt fólk og á öllum aldri; það er sumsé ekki bara opið fyrir fatlaða heldur alla sem vilja kíkja inn og versla muni eða þá föndra, koma með handavinnuna
sína eða hvaðeina, spjalla eða fá sér í bolla.

Allt sem er til sölu, á
borðum og veggjum, er unnið þarna af sjálfboðaliðum, og rennur óskipt
til félagsins.

Undirritaður hvetur Siglfirðinga og nærsveitamenn til að reka þar inn nefið á aðventunni. Það verður enginn svikinn af þeirri heimsókn, svo mikið er víst.

Hér koma nokkrar myndir.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is