Koparklöppin við Suðurgötu


Nýlega fannst í ljósmyndasafni Síldarminjasafnsins merkileg mynd af stórum steini sem var þar sem húsið við Suðurgötu 10 var reist árið 1943. Klöppin var þá brotin niður og efnið úr henni notað í uppfyllingu í Norðurgötuna.

Í bókinni Siglfirskar þjóðsögur og sagnir, sem Þ. Ragnar Jónasson tók saman og kom út árið 1995, er haft eftir Sigríði Lárusdóttur að laust fyrir 1930 hafi erlendur maður, norskur eða sænskur, viljað fá að taka sýnishorn úr klöppinni sunnan við hús Guðlaugs Sigurðssonar skósmiðs að Suðurgötu 8 og senda til rannsóknar til útlanda, enda taldi hann að kopar væri í klöppinni, sem hafði á sér grænan lit. Guðrúnu Þorsteinsdóttur, sem var á heimilinu, dreymdi þá að til hennar kæmi huldukona sem sagðist hafa búið í klöppinni en væri að flytja þaðan. Við rannsóknina kom í ljós að svo lítið var af kopar í klöppinni að ekki borgaði sig að vinna hann.

Klöppin kemur einnig við sögu í bók Örlygs Kristfinnssonar, Svipmyndir úr síldarbæ, í kaflanum um Nörgor. Þar er sagt að steinninn hafi verið landamerki milli jarðanna Hvanneyrar og Hafnar og hafi verið bústaður álfa.

Koparklöppin við Suðurgötu 10 var ótrúlega stór. Norðan við klöppina er hús sem Guðlaugur Sigurðsson skósmiður og kona hans Petrína Sigurðardóttir byggðu árið 1919. Á neðri hæðinni var veitingahús og samkomusalur.

Þar höfðu mörg félög starfsemi sína og bæjarstjórnin hélt þar fundi.

Mynd: Ljósmyndari ókunnur.
Texti: Jónas Ragnarsson
| jr@jr.is
.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is