Kompan á laugardag


Á laugardaginn kemur, 8. júní næstkomandi, kl. 15.00, opnar Kristín Gunnlaugsdóttir sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Kristín sýnir 40 teikningar og eitt málverk og ber sýningin yfirskriftina Málverk og teikningar 2018.

Eins og heitið ber með sér eru verkin unnin í fyrra, málverkið með olíu á striga og teikningarnar með kolblýanti, vatnslit og glimmer. Teikningarnar eru unnar með lifandi fyrirmynd.

„Að teikna mannslíkamann krefst stöðugrar þjálfunar eins og íþrótt. Hvert verk geymir innri reynslu og tilfinningu. Ég teikna konur því ég þekki tilfinninguna sem býr í líkamanum sem kona,“ segir Kristín.

„Glimmer er eiginlega bannað í myndlist. Aðeins of stelpulegt. Eða bara of fallegt og auðvelt og þar með hættulegt. Þess vegna nota ég það og það er æðislegt.“

Sýningin er opin daglega kl. 14.00-17.00 til 22. júní.

Kristín Gunnlaugsdóttir er fædd á Akureyri 1963. Hún hóf snemma myndlistarnám í Myndlistaskólanum á Akureyri eða árið 1975, með námskeiðum og lauk þaðan fornámi 1986. Hún útskrifaðist frá Myndlista- og Handíðaskólanum 1987. Á árunum 1987-1988 dvaldi hún í klaustri í Róm og lærði þar íkonagerð og málun; 1988-1995 nam hún í Accademia di belle Arti í Flórens og útskrifaðist með láði; 1995-1996 var hún í Scuola Oro e colore í Flórens.

Í myndlist sinni vinnur Kristín aðallega málverk, veggteppi með útsaumi, teikningar, eggtemperur með blaðgulli og vatnslitamyndir.

Kristín hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í listviðburðum heima sem erlendis.
Hún hefur einnig kennt myndlist við Myndlistaskólann í Reykjavík, Listaháskólann og Einar Granum Kunstskola Oslo.

Kristínu var veitt íslenska fálkaorðan fyrir framlag sitt til myndlistar 2018.

Myndir og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]