Kjörbúðin


Verslunin Samkaup Úrval hefur verið lokuð á Siglufirði í dag. Ástæðan er sú að verið er að breyta henni í Kjörbúð. Á heimasíðu Samkaupa má lesa eftirfarandi um þetta:

„Að undangenginni mikilli vinnu og framkvæmd kannana verður Samkaupaverslunum víða um land breytt á komandi mánuðum og munu mynda nýja keðju sem heitir Kjörbúðin! Ráðist var í umfangsmikla viðhorfskönnun meðal viðskiptavina Sam­kaupa um land allt. Byggt á niðurstöðum úr í kringum 4000 svörum könnunar hefur ný verslunarkeðja verið hönnuð út frá þörfum og ósk­um viðskipta­vina okkar. Kjörbúðinni er ætlað að þjón­usta bæjarbúa með því að bjóða gott úrval, lágt verð og ferskar vörur á hverjum stað. Með því vilja Samkaup gera viðskiptavinum sínum um allt land kleift að versla daglega allar helstu nauðsynjavörur á samkeppnis­hæfu verði.“

Myndin hér fyrir ofan var tekin í gær, en þá var starfsfólk í óða önn að koma hlutum á rétta staði, miðað við hið nýja fyrirkomulag.

Kjörbúðin verður opnuð á morgun.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is