Kirkjan var á Eyrinni í rúma fjóra áratugi


Eitt af því sem vakti athygli lesenda Siglfirðings.is þegar hinar
einstöku myndir Hans Wiingaard Friis frá 1905-1909 voru birtar hér í
fyrradag var að á þeim sást gamla kirkjan sem var á Eyrinni. Friis tók
fleiri Siglufjarðarmyndir í ferð sinni, m.a. eina sem sýnir hvar
líkkista er borin úr kirkjunni, væntanlega að lokinni útfararathöfn, og
aðra svo úr kirkjugarðinum, eflaust þá í beinu framhaldi.

Kirkjur höfðu staðið um aldir á Hvanneyri. Sú síðasta var timburkirkja, byggð 1834. Hún fauk af stæði sínu í ársbyrjun 1855 en presturinn fékk þá fjörutíu menn í sókninni til að reisa hana við og komst hún ?að öllu rétt og óskökk á grundvöll sinn,? segir í blaðinu Norðra. Það þótti tíðindum sæta að um 1880 var fengið orgel í kirkjuna, sem ekki var algengt á þeim árum. Mun tilvist þess hafa ráðið nokkru um það að Bjarni Þorsteinsson sótti um Hvanneyrarprestakall þegar hann útskrifaðist úr Prestaskólanum árið 1888.

Bjarni beitti sér fyrir því að ný timburkirkja var byggð á Eyrinni (Þormóðseyri, Siglufjarðareyri), ?í miðju kauptúninu,? eins og hann orðar það í Aldarminningunni. Síðari tíma kynslóðir myndu segja að kirkjan hafi verið sunnarlega á Skólabalanum. Yfirsmiður var Bjarni Einarsson frá Akureyri og var kirkjan vígð í desember 1890. Hún var 17,5 metra löng (með kórnum sem var byggður norðanvið 1908), 6,3 metra breið og hæð með turni var um 11 metrar. Eftir að Aðalgatan var lögð var stígur frá henni að kirkjunni, en dyrnar sneru í suður.

Í Aldarminningunni, sem kom út 1918, segir Bjarni að kirkjan hafi verið byggð ?af vanefnum og í viðareklu? og þegar fjölga fór í söfnuðinum á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var farið að huga að byggingu nýrrar kirkju ?af steini?. Til stóð að nýja kirkjan yrði við Aðalgötuna, beint suður af þeirri gömlu, en skipulagsyfirvöld landsins lögðust gegn því. Sumarið 1929 segir blaðið Siglfirðingur að tveir úr skipulagsnefnd ríkisins svo og biskupinn og arkitektinn hafi komið til bæjarins og hafi verið ?fastráðið að kirkjan verði byggð á Jónstúni, fyrir endanum á Aðalgötu?.

Síðast var messað í kirkjunni á Eyrinni 7. ágúst 1932. Bjarni Þorsteinsson var eini presturinn sem þjónaði Siglufirði þau 42 ár sem kirkjan var í notkun.

Útför frá Siglufjarðarkirkju.

Líklegast er að Friis hafi tekið myndina sumarið 1908.Í kirkjugarðinum, sennilega þeim sem tekinn var í notkun 14. október 1907.

Gera má ráð fyrir að séra Bjarni Þorsteinsson sé sá sem er með pípuhattinn og stendur neðan við gröfina.

Teikning sem Ragnar Páll Einarsson gerði fyrir um fjörutíu árum af Siglufjarðarkirkju á Eyrinni.

Nesnúpur, Nesfjall og Kálfsdalur í baksýn.


Myndir: Hans Wiingaard Friis og Ragnar Páll Einarsson
.

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is