Keppst um skipin


Heimsóknum erlendra skemmtiferðaskipa til Siglufjarðar fjölgar ár frá ári – og er það ekki að ástæðulausu og það gerist ekki án þess að fyrir því sé haft. Á morgun er t.d. von á einu.

Flestar hafnir landsins keppast um að laða að sem flest skemmtiferðaskip. Jafnt stóru löndunar- og uppskipunarhafnirnar og hinar minni. Víða hafa menn lagt í umtalsverðan kynningarkostnað og víðast hafa bæjarfélögin og hafnirnar haft frumkvæðið að þeirri markaðssetningu. Gott dæmi er Ísafjörður þar sem skipakomum hefur fjölgað úr 26 í 50 á fimm árum og afskaplega vel er að öllu staðið.

Fyrstu skemmtiferðaskipin komu til Siglufjarðar um 2000 og var strax ljóst að Síldarminjasafnið var aðalaðdráttaraflið. Þannig gekk það um tólf ára skeið – eitt til þrjú skip af minni gerðinni hvert sumar. Fyrir fjórum árum hvatti Síldarminjasafnið Fjallabyggð til samvinnu um þessi mál og tók Anita Elefsen rekstrarstjóri safnsins að sér að stjórna kynningarstarfinu. Anita var beðin um að segja frá hvernig það hefði gengið fyrir sig.

?Fyrsta skrefið var að setja saman vandaðan upplýsingabækling um Siglufjarðarhöfn sem farið var með til helstu ferðaskrifstofa og sendur skipafélögum. Því næst setti ég mig í samband við Ágúst Ágústsson, markaðsstjóra Faxaflóahafna, og fékk frá honum góðar ráðleggingar. M.a. að það tæki tíma að fá skipafélög til þess að bæta inn nýjum viðkomustöðum, það yrði að gefa verkefninu í það minnsta fimm ár, áður en árangurinn yrði mældur.

Ég kynnti mér þau skipafélög sem sigla um norðurhöf og heimsækja Ísland sem og skipakost þeirra, til þess að sigta út hvaða skip hentuðu höfninni hér og þá helst skip af minni gerðinni og bjóða einnig farþegum stærri skipanna rútuferðir frá Akureyri.

Árið 2011 samþykkti Hafnarnefnd þá tillögu mína að ganga til liðs við Cruise Iceland og ég hef sótt fundi og ráðstefnur á þeirra vegum hérlendis, sem og kaupstefnur erlendis. Cruise Iceland býður árlega starfsmönnum erlendra skipafélaga til Íslands í þeim tilgangi að kynna fyrir þeim nýjar hafnir og viðkomustaði og nú í maí heimsóttu fimm agentar frá erlendum skipafélögum Siglufjörð, sem var jafnframt síðasti viðkomustaður þeirra áður en þau héldu heim. Öll voru þau sammála um að staðurinn hefði komið þeim verulega á óvart og sannarlega verið ?rúsínan í pylsuendanum?. Samstarfið við Cruise Iceland og þau tækifæri sem skapast hafa í því sambandi hafa verið afar dýrmæt og hjálpað verulega við að koma höfninni hér á framfæri.

Á Siglufirði heillar nálægð hafnarinnar við safnið og miðbæinn. Víða annars staðar þarf rútur til þess að koma farþegum í skipulagðar heimsóknir.

Nú, að fjórum árum liðnum er árangurinn strax orðinn sýnilegur. Í sumar koma hingað sex skemmtiferðaskip ? sem er tvöföldun frá því sem mest hefur verið. Og fyrir sumarið 2015 hafa verið bókaðar tíu skipakomur.

Ég hlakka til að vinna að áframhaldandi markaðssetningu á höfninni,? sagði Anita að lokum, ?og sjá, vonandi, fjölda skipa aukast ár frá ári. Heimsóknir skemmtiferðaskipa skila tekjum til hafnarinnar sem og samfélagsins ? og hressa upp á hversdagsleikann og bæjarlífið!? 

Úr kynningarriti um Siglufjarðarhöfn.

Frá kynningarbás Íslands á ferðakaupstefnu í Hamborg.

Anita fer um borð í skipin við komuna til Siglufjarðar og kynnir staðinn.

Fólkið fylgist með kynningunni í samkomusal skipsins.

Farþegar eru leiddir um safnhúsin áður en hin vinsæla söltunarsýning hefst.

Í Bátahúsinu er boðið upp á síldarsmakk og smá hressingu.

… og að lokum kynnir kvæðamannahópurinn Ríma íslensk þjóðlög.

Myndir: Aðsendar.

Texti: Örlygur Kristfinnsson | orlygur@sild.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is