Kaktus á Akureyri

Í kvöld kl. 20.00, föstudaginn 1. nóvember, opnar Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sýninguna Seiðandi dans í Kaktus á Akureyri. Opnunin hefst með súpu og léttum veitingum. Sýningin er opin laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 3. nóvember kl. 14.00-17.00. Að vanda eru allir hjartalega velkomnir að njóta lista og ljúfra stunda.

Seiðandi dans.

Manneskjan hefur frá örófi alda tjáð og túlkað tilveru sína með dansi eða ljóðrænni hreyfingu, rétt eins og vindurinn sem blæs skýjum frá einum stað á annan eða öldur sem ber með ofsa að ströndu.

Hugurinn ber ómótaðar hugsanir frá hugarfylgsnum að ljósi og færir andann upp og ofar. Vegferð manneskju um lífsins lendur teiknar spor á hvíta jörð og markar jarðvist einnar sálar í mannhafi.

Frá upphafi til enda, frá upphafi til þess óendanlega, eilíf hringrás í hringiðu.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir er Akureyringum vel kunn fyrir starfsemi sína á listasviðinu allar götur frá árinu 1993, þegar hún útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á Akureyri. Hún tók virkan þátt í uppbyggingu listagilsins svokallaða á Akureyri, starfrækti þar gallerí Kompuna og vann að eigin listsköpun til ársins 2004. Þá fluttist hún í Freyjulund norðan Akureyrar og var ein af stofnendum Verksmiðjunnar á Hjalteyri. Árið 2012 flutti hún starfsemi sína í Alþýðuhúsið á Siglufirði og býr nú og starfar þar.

Aðalheiður hefur sett upp um 170 einkasýningar í 14 löndum og tekið þátt í fjölda samsýninga og listrænum verkefnum. Hún var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2000 og hefur síðan hlotið ýmsar viðurkenningar og starfslaun, meðal annars Menningarverðlaun DV fyrir árið 2015. Aðalheiður hefur kennt myndlist á öllum kennslustigum í gegnum tíðina og skapað grundvöll fyrr aðra listamenn til að láta ljós sitt skína. Aðalheiður á verk bæði á opinberum stöðum og stofnunum hérlendis og í einkasöfnum hérlendis og erlendis. Síðasta stóra sýning hennar var við enduropnun Listasafnsins á Akureyri haustið 2018.

Sýningin í Kaktus á Akureyri sem opnar í kvöld er tileinkuð minningu um góðan vin Aðalheiðar sem gaf svo mikið til skapandi hugsunar.

Með sýningunni verður spiluð tónlist listamannsins Framfara.

 

Til Öllu frá Þorsteini þegar hún varð fertug á aðfangadag jónsmessu 2003.

Seiður

Þetta blóm sem þú gafst mér er bikar, og í bikarinn þarf ekki vín.
Ef ég horfi á hann hjartað slær kvikar. Ef ég hugsa um hann förlast mér sýn.
Hvaða seiður í svip þér og fasi kann að sefja sem þytur um vor?
Ef þú gengur í döggvotu grasi feta glitrandi blóm í þín spor.
Ertu sköpuð af guðum í skýjum, komstu í skóga svo laufguðust tré?
Komstu að ofan af himninum hlýjum og með hárið þitt bjart sem ég sé?
Hvernig augun þín tvö líta á mig, hvílík örlög sem baka þín svör.
Ég er sæll ef þér þóknast að sjá mig, og mig svimar við orð þér á vör.

Þýðing Þorsteins Gylfasonar á Malía, ljóði Pocco Emanuele Pagliara.

 

Myndir og texti: Aðsent.