Kafli úr glæpasögunni SnjóblinduSiglfirska glæpasagan Snjóblinda eftir Ragnar Jónasson hefur fengið góðar viðtökur og m.a. komist á metsölulista hjá Eymundsson og Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Þess er skemmst að minnast að bókin fékk fjórar stjörnur á Eymundsson.is þar sem Heiðrún Sveinsdóttir bóksali sagði að sagan væri svo spennandi að hún hefði misst af byrjuninni á Útsvari.

Nú nýverið birtist svo ritdómur um bókina á Bókmenntavefnum (bokmenntir.is) þar sem Ingibjörg Rögnvaldsdóttir sagði meðal annars: ?Höfundurinn, Ragnar Jónasson þekkir greinilega til á Siglufirði og ég stóð sjálfa mig að því að rifja upp hvar einstaka götur eru í bænum, sá fyrir mér Ráðhústorgið og bíóið eins og það var fyrir rúmum 30 árum þegar ég var að alast þar upp … [Snjóblinda] er lipurlega skrifuð og flétta sakamálasögunnar gengur fyllilega upp … Ragnar Jónasson er höfundur sem vert er að fylgjast með, endirinn bendir til þess að lesendur eigi eftir að heyra meira af lögreglumanninum Ara, hvort sem hann verður áfram fyrir norðan eða heldur á nýjar slóðir.?

Snjóblinda á eflaust eftir að leynast í mörgum pökkum Siglfirðinga þessi jólin, en sagan gerist nánast öll á Siglufirði um miðjan, snjóþungan vetur. Bókaforlagið Veröld leyfir lesendum Siglfirðings að taka hér forskot á sæluna og glugga í einn kafla úr bókinni.

 

Siglufjörður,


miðvikudagur 14. janúar 2009

 

Litli drengurinn hafði fengið að
skreppa út eftir mat, leika sér í snjónum ? dásamlegum snjónum,
töfralandinu þar sem allt gat gerst. Það hafði loksins hætt að snjóa um
kvöldmatarleytið svo mamma hans hafði leyft honum að leika sér. Lítill köttur með bjöllu um hálsinn,
sem hafði stolist út í kvöldkyrrðina, lokkaði hann yfir í næsta garð ?
en hann rataði samt heim ? og svo í gegnum kuldalegan runna inn í enn
annan garð; hann vissi hvar hægt var að laumast á milli trjánna. Rataði
ennþá heim.

Hann naut þess að leika sér í snjónum. Snjórinn var honum í blóð borinn. Myrkrið var hreinlega notalegt, hlýlegt.

Hann varð ekki hræddur þegar hann sá engilinn. Fallega snjóengilinn.

Hann þekkti konuna; hafði svo oft
leikið sér í þessum garði ? mundi hvað hún hét, skildi ekkert í því
hvers vegna hún lá í snjónum og hvers vegna hún var ekki í neinni peysu.
Blóðrauður snjórinn við hliðina á henni var eins og skraut í augum
drengsins, litríkt skraut í mjallhvítum snjónum.

Hann vildi ekki trufla hana, sagði
ekki neitt, en hélt áleiðis heim; nam aðeins staðar eitt augnablik til
þess að hnoða lítinn snjóbolta.

 

– – –

 

Karl lagði frá sér bjórglasið. Hann
hélt spilunum þétt að sér af gömlum vana; treysti engum. Hann virti
fyrir sér spilin sem voru í borði. Spaðasexa, laufasjöa á hendi ?
fjarki, átta og gosi í borði. Átti ágæta möguleika á röð, það var þess
virði að taka slaginn. Kringlótta borðið sem þeir sátu við var dekkað
með grænum dúk; skál full af snakki á borðshorninu.

Gömlu skólafélagarnir hans fylgdust
með ? biðu eftir því að hann gerði upp hug sinn. Þetta var svo sem ekki
erfið ákvörðun; það eina sem var í húfi voru spilapeningarnir; hann beið
spenntur eftir næsta alvöru spili. Þetta var barnaleikur miðað við það.
Kannski um næstu helgi. Var reyndar staurblankur, skuldaði kunningja
sínum fimmtíu þúsund.

Síminn hringdi þegar hann var loksins
búinn að taka ákvörðun um að vera áfram með. Leit á númerið, en
kannaðist ekki við það. Sá að hringt var úr heimasíma einhvers staðar á
Siglufirði, svo hann ákvað að svara. Yfirleitt forðaðist hann ókunnug
númer, vildi ekki taka áhættuna á því að þurfa að rökræða við rukkara að sunnan.

?Kalli??

Kvenmannsrödd, sennilega ung kona. Hann kom röddinni ekki fyrir sig.

?Já.?

Hún kynnti sig. Þetta var gömul skólasystir hans sem bjó skammt frá þeim Lindu.

?Heyrðu; hann Gunni, strákurinn minn,
var eitthvað að þvælast áðan yfir í garðinn til ykkar.? Hún hikaði,
virtist ekki vita hvernig hún ætti að koma orðum að þessu.

 

?Ég reyndi að hringja heim til ykkar,
en það svaraði enginn ? hann segist nefnilega hafa séð hana Lindu ?
nakta, úti í garði.? Hún hló vandræðalega. ?Æ, þessir krakkar ? segja
svo margt ? en mér fannst þetta eitthvað svo skrýtið. Vildi bara kanna
hvort ekki væri allt í lagi.?

?Jú, það held ég,? svaraði Karl, ?ég
skal athuga málið. Takk fyrir að hringja.? Hann lagði á án þess að
kveðja, stóð á fætur og lagði spilin frá sér.

?Strákar, ég þarf að skjótast aðeins heim. Kem aftur.?

Hann tók jakkann af stólbakinu, fór út í kuldann. Það var byrjað að snjóa aftur, sá vart út úr augum.

 

– – –

 

Sjúkrabíllinn kom á staðinn rétt á
undan lögreglujeppanum. Ari og Tómas voru á vakt; rifrildið um Hrólf
gleymdist á augabragði. Karl hafði hringt í neyðarlínuna og stóð nú í
garðdyrunum, í svörtum gallabuxum og dökkblárri ullarpeysu.
Sjúkraflutningamennirnir voru komnir að hreyfingarlausum líkamanum og
þreifuðu eftir púlsi; sjúkrabörurnar lágu í snjónum. Útilokað virtist að
reyna að greina fótspor í snjónum úr því sem komið var, sennilega hafði
fennt í öll spor í hríðinni, auk þess sem sjúkraflutningamennirnir höfðu gengið um vettvanginn ? og sennilega Karl líka.

Hún lá í snjónum, náföl, varirnar
bláar, augun lokuð. Ari hafði ekki séð hana áður; Lindu Christensen,
konuna hans Karls. Hún virtist óhugnanlega friðsæl. Karl stóð álengdar
og hélt sig til hlés ? Ari fann til mikillar samúðar með þessum
viðkunnanlega manni sem hann hafði spjallað við í fiskbúðinni daginn
áður.

Handleggir Lindu vísuðu nánast beint
út frá líkamanum ? stór blóðpollur í snjónum. Allt of mikið blóð. Ari
fylltist reiði, reyndi að anda rólega ? það var ekki heppilegt að taka
málin of mikið inn á sig, hann mátti ekki láta reiðina byrgja sér sýn.

Hver gerir svona lagað? Skilur manneskju eftir í blóði sínu í snjónum?

Hann var næstum viss um að hún væri látin. Skurðir á bringunni og öðrum handleggnum. Varnarsár?

Hún var í gallabuxum, en það var allt og sumt. Berfætt; ber að ofan.

Vopnið?

Hnífurinn?

Ari leit í kringum sig og sá að Tómas virtist vera að svipast um eftir vopninu líka.

Ekkert sjáanlegt við fyrstu sýn.

?Eigum við að kalla á tæknideildina að
sunnan?? Ari hafði aðeins hlotið grunnþjálfun varðandi
vettvangsrannsóknir; í raun nægilega þjálfun til þess að vita hvað ekki
ætti að gera ? hvernig ætti ekki að eyðileggja
sönnunargögnin. En þetta var enginn venjulegur vettvangur ? í fyrsta
lagi varð það að hafa forgang að reyna að bjarga lífi ungu konunnar, ef
hún var þá enn á lífi, auk þess sem snjórinn gerði þeim afar erfitt
fyrir.

?Ég held að það þýði ekkert,? svaraði
Tómas áhyggjufullur á svip, ?en við þurfum að kalla Hlyn út, eins og
skot. Hann þarf að rannsaka vettvanginn, bæði inni í íbúðinni ? ef
árásin átti sér stað þar ? og hérna úti. Taktu svo eins margar myndir og
þú getur, á meðan enn eru einhver ummerki sjáanleg í snjónum.
?

Ari kinkaði kolli. Hlynur yrði
væntanlega ekki lengi á leiðinni ? það var í hæsta máta ólíklegt að hann
hefði skroppið úr bænum í þessu veðri. Jafnvel ómögulegt.

?Við förum upp á stöð þegar Hlynur kemur,? sagði Tómas.

Þeir fylgdust út undan sér með
sjúkraflutningamönnunum, biðu tíðinda. Ari sótti litlu myndavélina í
vasann og tók nokkrar myndir.

Tómas færði sig nær Ara og sagði eins
lágt og hann komst upp með miðað við aðstæður því allt hljóð dempaðist í
þykkri ofankomunni: ?Við þurfum að biðja hann um að koma með.?

?Biðja ??? Eða handtaka hann?

?Biðjum hann fyrst kurteislega, við
þurfum að taka af honum skýrslu. Mér skilst að þau hafi ekki alltaf ?? ?
hikaði ? ?? ekki alltaf verið sammála um allt.?

?Púls!?

Ari hrökk við, færði sig nær.

?Ég finn púls!? Sjúkraflutningamennirnir lyftu Lindu upp á börurnar.

?Er hún á lífi?? spurði Ari, undrandi.

?Mjög daufur púls, en já ? hún er enn á lífi.?

 

Inngangstexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Mynd og bókarkafli:

Veröld bókaútgáfa | verold@verold.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is