K-lykillinn seldur í kvöld og annað kvöld


Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing karla og kvenna sem hafa áhuga á að taka virkan þátt í að bæta samfélagið og láta gott af sér leiða.

Hún var stofnuð í Detroit í Michiganfylki í Bandaríkjunum 21. janúar 1915, af Joe Prance, en á nú höfuðstöðvar í Indianapolis, í Indianafylki. Ári síðar, eða 1. nóvember 1916, var fyrsti klúbburinn stofnaður í Kanada, nánar tiltekið í Hamilton í Ontarioríki. Kiwanishreyfingin óx síðan jafnt og þétt, í Bandaríkjunum og Kanada, í nær hálfa öld, áður en ákveðið var að breiða hana út til annarra heimsálfa og þjóða. Mexíkó reið þá á vaðið árið 1962, Bahamaeyjar litlu á eftir og síðan Austurríki 1963. Aðrir sex klúbbar bættust fljótt við í Evrópu, það sama ár.

Fyrsti Kiwanisklúbburinn á Norðurlöndum var stofnaður 10. janúar 1964, í Osló í Noregi, og fjórum dögum síðar var komið að Íslandi, en þá var Kiwanisklúbburinn Hekla stofnaður í Reykjavík; var hann sá níundi í Evrópu.

Um 8.600 Kiwanisklúbbar eru nú starfandi í heiminum, í um 90 löndum, og með um 300.000 félaga. Og sé ungliðahreyfing Kiwanis og fleiri hliðarklúbbar teknir með fer talan í um 600.000.

Fjöldi Kiwanisklúbba í umdæminu Ísland-Færeyjar hefur mest orðið 49. Nú eru þeir 42 talsins, með um 1.100 félaga. Á 40 árum hefur íslensk/færeyski armurinn veitt hátt í 600 milljónir króna til líknarmála á Íslandi og í Færeyjum.

Lengi framan af var hreyfingin eingöngu skipuð körlum. En árið 1987 var samþykkt á heimsþingi Kiwanis að leyfa konum inngöngu. Því var tekið fagnandi, og núna eru þar starfandi um 50.000. Árið 1989 varð til hér á landi Kiwanisklúbburinn Harpa, sá fyrsti með eingöngu konum innanborðs.

Nafn hreyfingarinnar er fengið að láni úr máli Ojibwa-indíána. Frú C.M. Burton sagnfræðingur hafði verið beðin um að finna eitthvað sem hentaði, og eftir nokkra leit fannst henni þetta vera eitt af nokkrum sem komu til greina. Það var skráð í orðasafni, sem kristniboði einn og síðar biskup, Frederic Baraga, (1797-1868), hafði tekið saman í efri hluta Michigan. Upprunalega hljómaði þetta sem ?Nunc Kee-wanis? og þýðir nánast ?sjálfstjáning?. Það var fljótlega stytt í ?Kiwanis?.

Á þessari vefslóð er ýmislegt að finna um sögu hreyfingarinnar og þar koma t.d. fram meginmarkmiðin sex. Þau eru, orðrétt:

  • Að láta andleg og mannleg verðmæti skipa æðri sess, en verðmæti af veraldlegum toga spunnin.
  • Stuðla ber að því að dagleg breytni manna á meðal byggist á hinni gullvægu reglu: ?Eins og þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.?
  • Að beita sér fyrir bættum viðskiptaháttum, starfsháttum og félagslegri hegðun.
  • Að efla borgaralegar dyggðir með góðu fordæmi.
  • Að skapa, með stofnun Kiwanisklúbba, leiðir til þess að menn geti bundist varanlegum vináttuböndum og ósérhlífnir innt af höndum þjónustustörf og stuðlað að betra samfélagi.
  • Að vinna saman að mótun og eflingu heilbrigðs almenningsálits og göfugrar hugsjónastefnu, sem er undirstaða aukinnar ráðvendni, bættrar stundvísi, vaxandi þjóðrækni og bræðralags.

Stærsta verkefnið á Íslandi er sala ákveðins barmmerkis, K-lykilsins, og er hún gerð á svonefndum K-degi, en það er landssöfnun sem á upphaf að rekja til 18. október 1974. Er hún við lýði síðan á nokkurra ára fresti, núna í 13. sinn.

En tilgangurinn með K-deginum er ekki bara þessi, að safna fé, heldur einnig að vekja þjóðina til umhugsunar um málefni fólksins, sem hér um ræðir. Í grein sem Tómas Helgason geðlæknir ritaði fyrir K-daginn 1983, sagði hann m.a.:

?Kiwanisklúbbarnir á Íslandi ætla nú í fjórða sinn að beita sér fyrir landssöfnun til þess að stuðla að endurhæfingu geðsjúkra. Framtak þeirra hefur verið til ómetanlegs gagns. Annars vegar hefur það fé, sem þeir hafa safnað, komið að beinum notum til starfs- og heimilisendurhæfingar sjúklinganna. Hins vegar hafa þeir vakið athygli alþjóðar á vanda stærsta öryrkjahópsins, þess hóps sem á erfiðast með að tala fyrir sig sjálfur, vegna veikinda sinna og vegna þeirra fordóma sem gætt hefur í þeirra garð. Lykillinn, sem Kiwanismenn hafa selt í fjáröflunarskyni, hefur verið tákn þess sem þeir vilja leggja af mörkum til að eyða þessum fordómum …?

Kiwanismenn á Siglufirði munu ganga í hús í kvöld, miðvikudag, og annað kvöld og selja K-lykilinn til styrktar geðsjúkum. Að þessu sinni er boðinn til sölu raunverulegur lykill, óskorinn, sem eigendur geta látið skera að hvaða skrám sem er. Lykillinn kostar 1.500 kr. Byko, Húsasmiðjan og fleiri aðilar, þar á meðal SR-byggingavörur á Siglufirði, eru í hópi þeirra aðila sem munu taka það verk að sér endurgjaldslaust.

Vinsamlegast athugið að sölumenn Kiwanis geta ekki tekið við greiðslukortum.

Einnig er hægt að leggja söfnuninni lið með því að hringja í símanúmerið 980-1500 og þá skuldfærist á símareikninginn 1.500 kr.

Mynd: Aðsend.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is