Jónas Ragnarsson: Siglfirsk jól


Hugur hinna fullorðnu hvarflar ekki síst til æskuáranna þegar jólin nálgast. Þá rifjast upp ýmislegt um jólahald og jólasiði. Lítum í gömul blöð.

1902: Fátækustu börnin fengu mest

„Faktor Grönvold bauð um 40 börnum á „jólatré“ á jóladagskvöld, og mörgum foreldrum barnanna, og veitti þeim og börnunum af hinni mestu rausn, eins og þeim hjónum er lagið. Sérstaklega lét Grönvold sér annt um að fátækustu börnin fengju sem mest af sælgætinu og gullunum af jólatrénu. Var unun að sjá hvað börnin voru glöð og ánægð þegar þau hoppuðu í kringum tréð, syngjandi og hlæjandi.“ Þessi frásögn Guðmundar S. Th. Guðmundssonar birtist í Siglufjarðarbréfi í Norðurlandi í ársbyrjun 1903.

Carl Júlíus Grönvold var verslunarstjóri Gránufélagsins á Siglufirði frá 1889 þar til hann lést, á Þorláksmessu 1903, 45 ára að aldri. Kona hans var Vilborg Jónasdóttir.

1916: Manchettskyrtur og eggjaduft

Fyrir jólin 1916 var ýmiss konar varningur til jólanna auglýstur í siglfirska blaðinu Fram.  Verslun Sigurðar Sigurðssonar seldi leirtau og manchettskyrtur, hvítar og mislitar. Hallgrímur Jónsson sagðist hafa fengið gerpúlver og eggjapúlver til jólanna. Hjá Jens Eyjólfssyni var nýkomið „hið margeftirspurða aprecots-, rauðgrauts- og cremduft, ágætt í búðinga“.

Og Helgi Guðmundsson læknir sagði frá því að Sören Goos stórkaupmaður hefði afhent 800 krónur „til útbýtingar meðal fátæklinga og örvasa gamalmenna í Siglufirði“.

1938: Óvenjuleg jólagjöf

Um þrjátíu síldarstúlkur fengu óvænta jólagjöf á Þorláksmessu 1938, fimmtíu krónur hver frá amerískum matjessíldarkaupmönnum fyrir vandvirkni við söltun sumarið áður. Síldarútvegsnefnd valdi verðlaunahafana. „Þetta mæltist mjög vel fyrir hér á Siglufirði,“ hafði Alþýðublaðið eftir fréttaritara sínum.

1948: Opið á jóladag

Í Siglfirðingi kom fram að Mjólkurbúð Siglufjarðar var opin til kl. 16 á aðfangadag og einnig kl. 10-12 á jóladag. Mjólkursamsalan vakti hins vegar athygli á því að lokað væri á jóladag. Gestur Fanndal auglýsti kommóður, útvarpsborð og stofuskápa í jólagjafir. En Hertervigsbakarí sá ástæðu til að biðja viðskiptavini sína „góðfúslega að skila tertufötum og öðrum umbúðum fyrir áramót“.

1949: Bókabúðin engin stásshöll

„Jólabækurnar eru nú ýmist komnar eða koma með næstu ferðum,“ sagði í auglýsingu frá Bókaverslun Hannesar Jónassonar í Einherja um miðjan desember 1949, bókabúð sem þjónað hafði Siglfirðingum á þriðja áratug.  Bæjarbúar voru hvattir til að líta inn. „Búðin er að vísu lítil og engin stásshöll en við munum afgreiða yður með alúð og umhyggjusemi og leitast við að gefa yður þær upplýsingar um bókaval er þér kunnið að óska eftir.“

1950: Fyrsta norræna jólatréð

Skömmu fyrir jólin 1950 beindi Fegrunarfélag Siglufjarðar þeim tilmælum til verslana „að láta lifa ljós í sýningargluggum sínum yfir jólin … í tilefni af því að öldin er hálfnuð“.

Það var þetta ár sem vinabær Siglufjarðar í Noregi, Holmestrand, sendi stórt og fallegt jólatré að gjöf í fyrsta sinn og var það sett upp framan við kirkjuna. „Jólatré þetta er fagur vottur vinarhugar gefendanna,“ sagði í Siglfirðingi.

Vinabær Siglufjarðar í Danmörku, Herning, hefur síðan sent jólatré árlega og hefur það verið haft á Ráðhústorgi.

1951: Jólaávextirnir með seinni skipunum

Jólaávextirnir komu stundum ekki fyrr en rétt fyrir jól. Í Morgunblaðinu 19. desember 1951 var sagt frá því að flutningaskipið Arnarfell hefði verið að koma til Reykjavíkur frá Ítalíu og Spáni með epli, appelsínur, vínber og fleiri ávexti.

Sex skip biðu þá eftir að flytja ávextina út á land, meðal annars vélskipið Helgi Helgason, sem átti að fara á hafnir frá Siglufirði til Norðfjarðar.

1954: Vetrarhjálp og veðurhús

Í desember 1954 birtu bæjarblöðin ávarp frá Vetrarhjálpinni þar sem sagt var að ungar stúlkur myndu fara um bæinn og veita móttöku framlögum, peningum, fatnaði eða öðrum verðmætum, þannig að þeir sem væru sjúkir eða ættu við aðra erfiðleika að etja gætu gert sér og sínum dagamun í tilefni jólahátíðarinnar. „Gleðjum okkur sjálf með því að gleðja aðra,“ sagði í lok ávarpsins.

En þeir sem áttu næga peninga gátu farið í Úra- og skartgripaverslun Kristins Björnssonar og keypt sér stál-, plett-og silfurborðbúnað, postulínsvasa, borðstofuklukkur, veðurhús eða „hálsperlufestar úr íslensku síldarhreistri“.

1959: Mislit ljós á söltunarstöðvum

Farþegaskipið Gullfoss fór frá Reykjavík 19. desember 1959 í „sína venjulegu jólaferð vestur og norður með viðkomu á Ísafirði og Siglufirði en endahöfnin er Akureyri,“ að sögn Morgunblaðsins. Þegar skipið kom til Siglufjarðar var jólaös að byrja en jólatréð ekki enn komið upp.

Ekki var kveikt á því fyrr en að kvöldi Þorláksmessu. Var þá kominn talsverður snjór og „mjög jólalegt hér um að litast,“ eins og fréttaritari Morgunblaðsins orðaði það. Og margir höfðu „skreytt hús sín með mislitum ljósum“ en einnig hafði slíkum ljósum verið komið fyrir á sumum söltunarstöðvum og setti það hátíðlegan svip á bæinn. Jólin í heild voru „eins friðsæl og ánægjuleg og hugsast getur“.

1964: Jólahangikjötið í Kjötbúðinni

„Allt á jólaborðið frá KBS.“ Þetta var yfirskrift auglýsingar frá Kjötbúð Siglufjarðar í Siglfirðingi í desember 1964.  Svipaðar auglýsingar höfðu birst árin á undan og ekki mikil breyting á vöruúrvalinu frá ári til árs: Ávaxtasalat, buff, dilkalæri, endur, hamborgarhryggur, hænur, lærissneiðar, niðurskorið álegg, reyktir bringukollar, rjúpur og „útbeinaður“ hangikjötsframpartur, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Og allt var þetta sent heim ef óskað var eftir því.

1965: Ljós út um allt

Einherji sagði frá því að Lionsklúbbur Siglufjarðar hefði gefið út jólamerki með mynd af Siglufirði. „Það er ánægjulegt að geta sent kunningjum og vinum innanlands sem utan mynd af bænum okkar, um leið og við með því styrkjum gott málefni.“

Það þótti tíðindum sæta um jólin 1965 að kveikt var á jólastjörnu við Siglufjarðarkirkju og Lionsstjörnu við Sjúkrahúsið. Raflýstum krossi var komið fyrir í kirkjugarðinum fyrir ofan bæinn og margir prýddu hús sín skrautljósum.

„Hér ríkir sterkur jólasvipur á kaupstaðnum,“ sagði fréttaritari Þjóðviljans á Þorláksmessu „og verða þetta hvít jól“.  Hann sagði að þegar kveikt var á jólatrénu frá Herning hefði það reynst „hátíðleg stund með birtu í hugum margra. Myrkur skammdegisins er alltaf mikið í hinum þrönga firði við nyrstu strönd.“

1970: Tólf nýjar bækur

Mjölnir sagði frá því að fyrir jólin 1970 hefði Siglufjarðarprentsmiðja gefið út tólf nýjar bækur. Þetta voru fjórar ævintýrabækur, þrjár bækur byggðar á kunnu sjónvarpsefni, m.a. Bonanza, sextánda Siggubókin, tíunda Lottubókin, bók um Díönu, önnur um Jonna og síðast en ekki síst Tarzan hinn sigursæli, en „að fróðra manna sögn slaga Tarzanbækurnar hátt upp í Biblíuna og rit Karls Marx og Lenins að lesendafjölda, sagði í þessu blaði Alþýðubandalagsins. Tarzanbækur voru gefnar út á Siglufirði í rúman aldarfjórðung.

1980: Friðsæl jól en fjöldi skemmtana

„Hér voru friðsæl og góð jól,“ sagði fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði skömmu eftir jól 1980 og tók sérstaklega fram að mikið hefði snjóað á jóladag en samt hefði verið hægt að fljúga norður daginn eftir.

Lítið heyrðist í útvarpi um jólin vegna bilunar í sendi. Nóg var þó við að vera. Á jóladag var kvikmyndasýning í Siglufjarðarbíói. Síðdegis á annan í jólum var barna- og unglingadansleikur á Hótel Höfn á vegum Rotary og Kiwanis og almennur dansleikur um kvöldið. Björgunarsveitin var með almennan dansleik að kvöldi þriðja dags jóla og Lions með barnadansleik á fjórða degi jóla.

1984: Aðventuhátíð í áttunda sinn

Á annan sunnudag í aðventu árið 1984 var haldin aðventuhátíð í Siglufjarðarkirkju í áttunda sinn. Dagskráin var fjölbreytt, kórar sungu jólalög, ræða var flutt, lúðrasveit lék og lesið var upp úr bókum. Fréttaritari Morgunblaðsins sagði: „Þetta framlag safnaðarins hefur safnaðarfólk kunnað að meta og oft hefur kirkjan vart rúmað þá sem sótt hafa hátíðina.“

Sagt var í frétt í DV um miðjan desember að götur væru auðar og slík einmunablíða væri að elstu menn myndu ekki annað eins. Í fréttinni var þess getið að það færðist mjög í vöxt að fyrirtæki og félagasamtök héldu litlu jól fyrir starfsmenn sína og félaga þar sem Siglfirðingar á öllum aldri „koma saman og borða og skemmta sér“ til að hita upp fyrir jólahátíðina.

2003: Siglfirskt laufabrauð

Ekki er hægt að finna auglýsingar um laufabrauð í gömlum siglfirskum blöðum, sennilega vegna þess að þau voru ekki seld í verslunum heldur bökuð heima. En fyrir jólin 2003 komst „siglfirskt laufabrauð“ í fréttir þegar Baldvin S. Ingimarsson bakari á Siglufirði gerðist stórtækur og lét baka fyrir sig á fjórða hundrað þúsund laufabrauðskökur í bakaríi í Lettlandi, til sölu í stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu. Og uppskriftin var að sjálfsögðu siglfirsk.

Á árum áður fannst mörgum lykt af eplum og öðrum ferskum ávöxtum boða komu jólanna, enda voru þeir ekki á boðstólum hér á landi nema í desember.

 

[Áður birt að hluta í Hellunni í desember 2008.]

Mynd: Fengin af Netinu.
Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is