Jónas Ragnarsson: Sextíu börnum bjargað


– lentu í ófærð á Skarðinu í júníbyrjun fyrir hálfri öld

Barnaskóla Siglufjarðar var slitið þriðjudaginn 30. maí 1961. Hátt á fjórða hundrað nemendur voru í skólanum, þar af luku sjötíu fullnaðarprófi. Á þessum árum tíðkaðist að fara með útskriftarnemendur í skólaferðalag um nágrannasveitirnar. Að þessu sinni voru sextíu börn og þrír kennarar í ferðinni.

Lagt var af stað í góðu veðri með flóabátnum Drang frá Siglufirði til Akureyrar. Þaðan var farið í tveimur Norðurleiðarrútum austur í Þingeyjarsýslur og skoðaðir áhugaverðir staðir í Mývatnssveit og víðar.

Þegar hópurinn var kominn aftur til Akureyrar, eftir tvo daga, var valið að fara landleiðina til Siglufjarðar, yfir Öxnadalsheiði, enda var þá búið að ryðja veginn yfir Siglufjarðarskarð. Þetta var föstudaginn 2. júní.

Í Skagafirði var staldrað við á nokkrum stöðum, en þegar komið var að Hólum í Hjaltadal fréttist að farið væri að snjóa á Skarðinu. Var þá reynt að flýta för til þess að komast yfir áður en ófært yrði. Á Hofsósi fengu ferðalangarnir mjólk og brauð í Barnaskólanum. Síðan var haldið í Fljótin og á Brúnastöðum var ákveðið að leggja á fjallið á einni rútu og fengnar keðjur. Það var því þröngt um farþegana sextíu og þrjá síðasta áfangann.

Rútan mjakaðist upp brekkurnar. Snjórinn jókst eftir því sem ofar dró og að lokum sat rútan föst í efstu brekkunni Skagafjarðarmegin, um hundrað metra frá háskarðinu. Ekki var þá nein talstöð í Skarðinu (úr því var bætt tveimur árum síðar). Þar uppi var jarðýta og var nú sendur maður gangandi til Siglufjarðar til að sækja ýtustjóra. Þegar hann loks kom var rútan dregin yfir Skarðið, en í efstu brekkunni Siglufjarðarmegin var fyrirstaða. Þar voru jeppi og flutningabíll fastir í snjó og ekki komist lengra. Ekki bætti úr skák að ýtan bilaði.

Ástandið var ekki gott í rútunni. Börnin voru þreytt og svöng. Hurðin hafði bilað svo að ekki var hægt að loka henni alveg. Fáir voru búnir til vetrarferðalaga á miðju sumri og flestum var kalt.

Foreldrar skólabarnanna voru farnir að ókyrrast þegar rútan kom ekki á tilætluðum tíma. Um klukkan þrjú um nóttina var safnað liði, í samráði við lögregluna, og farið á tíu til fimmtán jeppum eins langt upp í Skarðsdalinn og komist varð. Úlpur og önnur hlý föt voru meðferðis. Í blindhríð hélt björgunarliðið upp að rútunni. Börnin voru síðan selflutt að jeppunum og urðu allir að haldast í hendur, til að villast ekki hver frá öðrum, en varla var stætt fyrir veðurofsa. Loks náðu allir heim um klukkan sex um nóttina.

Nokkuð var fjallað um þessa hrakninga í blöðunum. Vísir sagði að börnin hefðu verið orðin köld og hrakin eftir að hafa þurft að hýrast í rútunni í margar klukkustundir. Þjóðviljinn sagði að engum hefði orðið meint af volkinu.

Skarðsvegurinn var opnaður aftur á sunnudagskvöldið, 4. júní, og var vegurinn alls ruddur fjórum sinnum í júní þetta ár.

Þannig leit Siglufjarðarskarð út 17. maí 1961, hálfum mánuði áður en fullnaðarprófsnemendurnir lentu í hrakningum. Vatnslitamynd eftir Ragnar Pál.

Mynd: Ragnar Páll Einarsson.

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is