Jónas Ragnarsson: Ljós í skammdegismyrkrinu

• Barnaskólahúsið og Rafveitan voru tekin í notkun fyrir einni öld
Fimmtudagurinn 18. desember 1913 er merkisdagur í sögu Siglufjarðar. Þann dag var nýtt hús Barnaskólans tekið í notkun og við sama tækifæri var Rafveitan gangsett.

Skólahús á þrjátíu ára afmælinu

„Barnakennsla komst hér á fastan fót haustið 1883 og hefur haldist síðan,” sagði Bjarni Þorsteinsson í Aldarminningunni. Fyrst var kennt í húsi á Búðarhóli við Lindargötu og voru nemendurnir tólf. Árið 1899 var nýtt hús byggt á horni Aðalgötu og Grundargötu (þar sem símstöðin var síðar).

Íbúum bæjarins fjölgaði hratt á þessum árum og því var ákveðið að byggja nýtt barnaskólahús á lóð milli Norðurgötu og Vetrarbrautar, við Eyrargötu. Hreppsnefndin hafði fengið Rögnvald Ólafsson til að teikna húsið, en hann hefur verið talinn fyrsti íslenski arkitektinn og teiknaði meðal annars Húsavíkurkirkju nokkrum árum áður.

Í febrúar 1913 var auglýst eftir tilboðum í byggingu hússins. Átti það að vera 21,22×13,10 álnir (13,3×8,2 metrar), „tvíloftað” og „með kjallara, allt úr steinsteypu”. Tilboðum átti að skila fyrir 1. apríl. Fimm tilboð bárust, samið var við Sigtrygg Jónsson byggingameistara á Akureyri og framkvæmdir hófust á vordögum.

Rafmagnstaugar úr koparþræði

Á almennum hreppsfundi á Siglufirði í byrjun febrúar 1912 vakti Bjarni Þorsteinsson máls á nauðsyn þess að koma á raflýsingu í kauptúninu og sagði frá rafstöð Hafnarfjarðar og undirbúningi rafveitna á Eskifirði og Seyðisfirði.

Haustið 1912 var Jón Ísleifsson verkfræðingur fenginn til að „athuga hvort tiltækilegt væri að koma … upp raflýsingu fyrir bæinn”. Jón gerði mælingar í Hvanneyrará og Leyningsá og lagði til að reist yrði 40 hestafla rafstöð við Hvanneyrará og lagðar rafleiðslur um kauptúnið. Gert var ráð fyrir fjörutíu götuljósum. Í könnun sem gerð var meðal íbúanna, sem þá voru um átta hundruð, skrifuðu þeir sig fyrir 229 ljósum (ljósaperum). Geta má þess að hvert hestafl var talið nægja fyrir 25 ljós sem hefðu 16 kerta birtu.

Vísir sagði frá því í febrúar 1913 að Siglfirðingar væru „að reyna að koma raflýsingu á hjá sér en verkið er þeim að ýmsu erfiðara en búist var við í fyrstu”.

Leitað var tilboða í verkið og í júlí 1913 skrifað undir samning við Paul Smith, norskan símaverkfræðing (sem síðar stofnaði fyrirtækið Smith & Norland). Akureyrarblaðið Norðri sagði frá miklum framkvæmdahug Siglfirðinga sumarið 1913. „Nokkrir efnaðir Norðmenn hafa fastar stöðvar á Siglufirði. Borga þeir drjúgum útsvar til hreppsins sem gerir framfarafyrirtæki hjá Siglfirðingum léttari viðfangs.”

Í september samþykkti Alþingi að lána Hvanneyrarhreppi, eins og sveitarfélagið hét þá, „18.000 kr. til þess að raflýsa Siglufjarðarkauptún”. Lánstíminn var tuttugu ár og vextirnir 4,5%.

Um miðjan október var sagt frá því í Norðurlandi að Siglfirðingar biðu með óþreyju eftir rafljósunum en verkið hefði tafist vegna þess „að pantanir margar til rafveitunnar komu ekki á réttum tíma”.

„Hvanneyraráin er notuð til lýsingar þessarar; söfnunarþróin er uppi á Hvanneyrardal; þaðan liggja 7 þuml. [17,5 sentimetra] víðar stálpípur neðan jarðar niður bratta hlíð, 400 fet [120 metra] á hæð, að stöðvarhúsinu sem er rétt fyrir ofan Hvanneyri,” eins og sagði í Aldarminningunni. Efnið í vatnsþróna (stífluna) mun hafi verið flutt á hestum upp undir brekkuna og síðan borið á bakinu upp í Skál.

„Orka rafmagnsvélarinnar er 26 kílówatt,” að því er fram kom í tímariti Verkfræðingafélagsins. „Rafmagnstaugarnar eru lagðar á tréstaurum og eru allar úr óeinangruðum koparþræði.”

Tindrandi sólbjört ljós

Mikil hátíðahöld voru 18. desember 1913 í Barnaskólanum þar sem skólahúsið var formlega tekið í notkun og jafnframt hin nýja rafveita. Athöfnin var á neðri hæð hússins, í tveimur samliggjandi skólastofum sem hægt var að gera að einum sal. Skreytt var með fánum og grenigreinum og þótti það nýstárlegt.

Séra Bjarni Þorsteinsson, sem bæði var oddviti og skólanefndarformaður, sagði í vígsluræðu sinni að hann vænti þess að í barnaskólahúsinu myndi „ekki aðeins verða bjart af rafljósum heldur muni bjartsýni í andlegu tilliti birta upp framtíðina”. Hann sagði að þessi dagur væri „gleðidagur fyrir alla hreppsbúa“ og að húsið væri „vottur um framtakssemi, samúð og eindrægni” og sýndi vaxandi andlegan þroska.

„Um leið og ræðumaðurinn sleppti síðasta orðinu, var eftir ábendingu hans, kveikt á rafljósunum,” sagði Guðrún Björnsdóttir hálfri öld síðar, en hún var skólastjóri Barnaskólans þegar skólabyggingin var tekin í notkun. „Aldrei gleymi ég þeirri hrifningar- og fagnaðaröldu sem leið um salinn frá manni til manns, þegar tindrandi sólbjörtu ljósin rufu skammdegismyrkrið svo skyndilega, og aldrei hef ég heyrt sálminn „Lofið vorn drottin, hinn líknsama föður á hæðum” sunginn með jafnmiklum innileik og þá.”

Blaðið Mjölnir á Akureyri sagði að á Siglufirði hefði verið vígt „mjög veglegt barnaskólahús” úr steinsteypu. „Mun hús þetta vera eitt hið fullkomnasta í sinni röð hér á landi.” Jafnframt sagði blaðið að sama kvöld hefði verið kveikt á hinum nýju rafljósum. „Er oss sagt að Siglfirðingar séu síðan í sjöunda himni, baðaðir í glóbirtu allan sólarhringinn.” Morgunblaðið sagði að skólahúsið væri mikið og vandað. „Í öllu húsinu er raflýsing, vatnsveita og ýmis önnur nýtískuþægindi sem nú er farið að nota í slíkum húsum.”

Stundum setið í myrkrinu

Einhverjir byrjunarörðugleikar voru varðandi rekstur rafstöðvarinnar því að skömmu eftir að hún var tekin í notkun birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem fram kom að „þegar logað hefur á rafmagninu 3 klukkustundir þá deyr á því aftur og verða menn þá að sitja í myrkrinu hálfa klukkustund”. Þótti mönnum „lítil híbýlabót að rafmagninu meðan þessu fer fram”.

Úr rættist og bæjarbúar voru ánægðir með rafveituna, sem var ein sú fyrsta hér á landi sem náði til heils bæjarfélags, og hið veglega barnaskólahús, sem enn stendur til vitnis um framfarahug Siglfirðinga fyrir einni öld.

Greinin birtist upphaflega í desemberblaði Hellunnar 2013.