Jónas Ragnarsson: Ljóðaunnandinn


– Baldur Pálmason útvarpsmaður orti ljóð og safnaði ljóðabókum

Baldur Pálmason. Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur tengja nafnið við
barnatímann í Útvarpinu. Aðrir muna eftir bókmenntaþáttunum og
kvöldvökunni. Baldur var mikill ljóðaunnandi og jafnframt ljóðskáld.
Hann sendi frá sér þrjár ljóðabækur, tvær með frumsömdum ljóðum og eina
með ljóðaþýðingum: Hrafninn flýgur um aftaninn, 1977, Björt mey og
hrein
, 1979 og Á laufblaði einnar lilju, 2000. Nokkrir dægurlagatextar
Baldurs eru vel kunnir svo sem ?Alparós?, ?Kostervalsinn?, ?Eyjólfur?, ?Ó, að
það sé hún? og ?Hún hring minn ber?.

Baldur var fæddur í Köldukinn á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu árið 1919 og ólst upp á Blönduósi. Að loknu námi í Verslunarskólanum hóf hann störf á skrifstofu í Reykjavík en fáeinum árum síðar gerðist hann útvarpsþulur og síðan starfsmaður á dagskrárskrifstofu Útvarpsins, þar sem hann starfaði í rúman þriðjung aldar, lengst af sem varadagskrárstjóri. Andrés Björnsson útvarpsstjóri komst eitt sinn svo að orði að Baldur hafi öðrum fremur skapað venjur og hefðir innan Útvarpsins og stuðlað að festu í starfsemi þessarar menningarstofnunar.

Baldur var virkur í félagsmálum. Hann var í stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur, formaður Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins, formaður Kórs Hallgrímskirkju og í stjórn Taflfélags Reykjavíkur og Skáksambands Íslands. Hann var um skeið ritstjóri Frjálsrar verslunar og blaðs BSRB, skrifaði greinar í blöð og tímarit og þýddi bækur og leikrit.

Þegar Baldur Pálmason lést, haustið 2010, var sagt í minningargreinum að hann hafi verið þjóðlegur og skemmtilegur sögumaður, listunnandi, prúðmenni og málvöndunarmaður.

   

Í vor bauðst Ljóðasetrinu að kaupa ljóðabókasafn úr dánarbúi Baldurs Pálmasonar og Guðnýjar S. Óskarsdóttur konu hans, á grundvelli mats tveggja fornbókasala. Þetta voru mörg hundruð bækur og sumar þeirra fágætar. Arnold Bjarnason frétti af þessu boði og tók að sér að fjármagna kaupin, í minningu afa síns, séra Bjarna Þorsteinssonar tónskálds og þjóðlagasafnara. Stuðningur Arnolds gerir gestum Ljóðasetursins kleift að njóta safns þessa mikla ljóðaunnanda.

Guðný S. Óskarsdóttir og Baldur Pálmason.

Mynd: Ljósmyndari óþekktur.

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is