Jónas Ragnarsson: Konunglegar heimsóknirEinn konungur og tveir krónprinsar hafa heimsótt síldarbæinn

Meðan Siglufjörður var höfuðborg síldarinnar þótti við hæfi að hátt settir gestir landsmanna kæmu við þar. En einnig eftir að síldarævintýrinu lauk.

1926: Lögðu lykkju á leið sína

Kristján tíundi, konungur Danmerkur og Íslands, og Alexandrina drottning hans komu til landsins í júnímánuði 1926 með herskipinu Niels Juel, en Knútur sonur þeirra var liðsforingi á skipinu og því með í för. Kristján var þá 55 ára og hafði verið konungur í fjórtán ár.

Þegar konungur og drottning höfðu dvalið nokkra daga í Reykjavík og nágrenni sigldu þau norður og austur um land. Áfangastaðirnir voru Akureyri og Seyðisfjörður. En þau lögðu lykkju á leið sína og komu við á Siglufirði. Í Morgunblaðinu sagði 19. júní: ?Þó ekki hefði verið gert ráð fyrir því upphaflega komu konungshjónin við á Siglufirði í norðurleiðinni. Komu þau þangað á fimmtudag. Gekk konungur í land með föruneyti sínu seinni hluta dagsins og dvaldi í landi um 2 tíma. Eftir að konungur kom um borð lágu skipin kyrr á firðinum þar til undir morgun að þau héldu inn á Eyjafjörð.? Þessa einu konungskomu til Siglufjarðar bar upp á 17. júní.

Þegar snjóflóðin miklu féllu sjö árum áður, vorið 1919, sendi Kristján konungur Siglfirðingum samúðarkveðjur: ?Drottningin og ég vottum vora innilegu hluttekningu í hinni miklu óhamingju sem snjóflóðin hafa orsakað í Siglufirði.?

1933: Mannfjöldinn hyllti konungsson

Í tíu daga ferð Friðriks ?ríkiserfingja? til Íslands í ágúst 1933 kom hann meðal annars til Ísafjarðar, Siglufjarðar og Akureyrar með gufuskipi sem nefndist Island. Ásgeir Ásgeirsson forsætisráðherra og fleiri voru með í för.

Skipið kom til Siglufjarðar kl. 6 að morgni 13. ágúst. ?Ríkiserfingi ásamt fylgdarliði gekk á land um dagmálabil,? að sögn Vísis. ?Fjölmenni mikið var á bryggjunni er hrópaði húrra fyrir ríkiserfingjanum er hann sté á land,? sagði Morgunblaðið. Einherji sagði að ?erfðaprins Íslands og Danmerkur? hefði komið til Siglufjarðar á sunnudagsmorgni. ?Tóku á móti honum bæjarfógeti, nokkrir úr bæjarstjórn, aðalkonsúll og vísikonsúll Norðmanna, séra Bjarni Þorsteinsson, o.fl. … Flögg voru víðast dregin á hún, en ekki þó alls staðar.?

Prinsinn gekk um bæinn, heim til bæjarfógeta, skoðaði kirkjuna og síldarverksmiðjurnar. Þegar prinsinn fór aftur kl. 11 ?fylgdi honum mannfjöldi að skipinu og lögreglustjóri og nokkrir menn aðrir á skipsfjöl,? sagði Vísir. ?Þegar skipið renndi frá bryggjunni hyllti mannfjöldinn konungsson með ferföldu húrrahrópi.?

1938: Undrandi á söng Vísis

Friðrik krónprins Danmerkur og Ingiríður kona hans komu til Siglufjarðar 27. júlí 1938, en þau voru þá í vikuheimsókn til landsins og komu meðal annars við á Ísafirði og Akureyri. Í Morgunblaðinu daginn eftir var sagt að þau hefðu komið til Siglufjarðar með skipinu Dronning Alexandrine sem lagðist að Hafnarbryggjunni snemma morguns. Á bryggjunni voru ?flestir Siglfirðingar sem vettlingi gátu valdið?. Gestirnir gengu ásamt bæjarfógeta og bæjarstjórn að Hótel Hvanneyri, ?til hressingar,? þar voru fluttar ræður og karlakórinn Vísir söng. Síðan voru síldarverksmiðjurnar skoðaðar og ?var meðferð síldarinnar sýnd frá uppskipun til fullunnar vöru … Þá var kirkjan skoðuð, með hinni mikilfenglegu altaristöflu Gunnlaugs Blöndal, og því næst skoðuð síldarsöltun.? Krónprinshjónin þökkuðu sérstaklega fyrir sönginn og ?var undrun þeirra mikil er þau heyrðu að komið hefði til orða að söngurinn færi fram í síldarverksmiðjunni, því svo margir söngmanna væru verkamenn þar og hefðu þá átt að syngja þar í vinnufötum sínum. Töldu þau líklegra að þetta væru aðkomumenn á söngför.?

Í dönskum blöðum var sagt að Friðriki hefði þótt gaman að sjá bæinn aftur og að hann hefði fullyrt að söngur Vísis hefði verið ?eitt af því fegursta sem hann hefði heyrt á því sviði?.

Friðrik prins var 34 ára þegar hann kom til Siglufjarðar í fyrra skiptið og 39 ára í það síðara. Hann varð Danakonungur árið 1947.

2004: Gaf sér tíma til að spjalla

Haustið 2003 var tilkynnt að Hákon krónprins Noregs og Mette-Marit krónprinsessa myndu heimsækja Siglufjörð í júní árið eftir. Þau áttu þá von á sínu fyrsta barni, sem fæddist í janúar.

Hákon og Mette-Marit komu í fjögurra daga opinbera heimsókn til Íslands 27. júní 2004 og var Ingrid Alexandra prinsessa með þeim. Þriðjudaginn 29. júní komu þau til Siglufjarðar ásamt íslensku forsetahjónunum. Tilefnið var 100 ára afmæli síldarævintýrisins, en upphaf þess má rekja til Norðmanna. Á Ráðhústorginu ?beið fjöldi Siglfirðinga og ferðamanna hinna tignu gesta í sól og blíðviðri og gaf krónprinsinn sér góðan tíma til að spjalla,? að sögn Morgunblaðsins. Síldarsöltun var sýnd á planinu fyrir framan Síldarminjasafnið og Hákon vígði nýjasta hús safnsins, Bátahúsið.

Hákon var 31 árs þegar hann kom til Siglufjarðar. Athyglisvert er að þessir þrír konunglegu gestir eru allir skyldir því að langafi Hákonar prins var Hákon Noregskonungur, bróðir Kristjáns tíunda Danakonungs.

Kristján X. Danakonungur.

Friðrik IX.

Hákon krónprins Noregs.

Hákon og fylgdarlið á tröppum Siglufjarðarkirkju, 29. júní 2004.

Á planinu framan við Roaldsbrakka.

Fylgst með síldarstúlkum.

 [Áður birt í Hellunni í desember 2010; myndir hér eru þó aðrar.]

Myndir af þjóðhöfðingjunum einum og sér: Fengnar af Netinu.

Aðrar myndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is