Jónas Ragnarsson: Fyrsti apríl í fjölmiðlum


Sá siður að láta fólk ?hlaupa apríl? mun vera nokkurra alda gamall og erlendir fjölmiðlar hafa tekið þátt í þessum leik í meira en eina öld. Í bókinni Saga daganna segir Árni Björnsson að fréttaauki Ríkisútvarpsins um Vanadísina sé fyrsta þekkta aprílgabb íslensks fjölmiðils. Þetta er ekki alls kostar rétt. Þegar fréttaaukanum var útvarpað 1. apríl 1957 höfðu íslensk dagblöð hrekkt lesendur sína nokkrum sinnum með þessum hætti. Hér eru raktar nokkrar gabbfréttir frá sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar.

Flogið á fáeinum mínútum

Á baksíðu Morgunblaðsins 1. apríl 1953 er mynd af fjögurra hreyfla farþega- og flutningavél af nýjustu gerð sem var á sveimi yfir Reykjavík þennan morgun. ?Hefur komið til mála að flugvél þessarar tegundar verði fengin til þess að halda uppi samgöngum milli Reykjavíkur og Akraness.?

Daginn eftir segir að starfsmenn blaðsins hafi tekið upp ?þá nýlundu að þessu sinni að birta aprílgabb í Morgunblaðinu í gær?. Viðurkennt er að birt hafi verið samsett mynd af strætisvagni og flugvél. Nokkrum dögum síðar segir Víkverji að aprílgabbið hafi tekist ágætlega. Hringt hafi verið og spurt hvenær vélin tæki upp áætlunarferðir og að komið hafi ?lyftingur í Akurnesinga við tilhugsunina um að þeir fengju ef til vill að njóta þessa kostulega farartækis og komast til Reykjavíkur á fáeinum mínútum?.

Ekki er útilokað að hugmyndin að þessari frétt sé sótt í frétt Tímans ári áður af aprílgabbi þýskra fjölmiðla þar sem sagt var að íslenskir knattspyrnumenn hefðu komið til meginlandsins með fljúgandi strætisvagni.

Tyrone Power birtist á ný

?Óvæntur gestur kom til Reykjavíkur í gærdag,? segir Morgunblaðið 1. apríl 1954. Það var kvikmyndaleikarinn Tyrone Power, sem var á leið frá Bandaríkjunum til Írlands þegar smávegis vélarbilun varð og vélin lenti á Keflavíkurflugvelli. Gert var ráð fyrir að hann héldi ferðinni áfram þennan dag. Með fylgir mynd af leikaranum þegar hann var að koma úr síðdegiskaffi í Sjálfstæðishúsinu.

Í blaðinu daginn eftir segir að ?1. apríl-mynd? blaðsins hafi vakið athygli, sérstaklega yngri kynslóðarinnar. Margir spurðu hvort leikarinn væri farinn aftur af landi brott.

Myndin sem birt var af Tyrone Power 1954 var sama mynd og tekin var þegar hann kom til landsins tæpum sjö árum áður. Þá gisti hann eina nótt á Hótel Borg og forvitni vegfarenda var svo mikil að lögreglan varð að loka Pósthússtræti um tíma. Tyrone var þá á ferð vestur um haf, en ekki austur, eins og í aprílgabbinu.

Leiðtogafundur í Reykjavík

Allir muna eftir leiðtogafundinum í Höfða í Reykjavík haustið 1986, en þá varð Ísland fyrir valinu, að ósk Sovétmanna. En varla hafa þeir vitað af svipaðri hugmynd sem sett var fram rúmum þrjátíu árum áður.

Aðalfréttin á baksíðu Tímans 1. apríl 1955 er um að æðstu menn Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Bretlands, Eisenhower, Bulganin og Churchill, hafi ákveðið að hittast á heimsveldafundi 20.-24. apríl. ?Rússar hafa óskað eftir að fundurinn verði haldinn í Reykjavík.? Undirbúningurinn fór leynt en ?mun ríkisstjórninni hafa verið kunnugt um þetta?. Fundinn átti að halda í hátíðarsal Háskólans. Blaðið segir ?miklar vonir bundnar við að friðarhorfur verði vænlegri eftir fundinn en áður?.

Það kom fram í blaðinu daginn eftir að fréttin hafi vakið mikla athygli og ?af henni spruttu margvíslegar bollaleggingar meðal fólks. Flestir sáu þó, sumir seint og síðar meir, að hér var um hina árlegu aprílfrétt að ræða. Hafa mörg blöð víða um lönd þann sið að koma lesendum sínum þannig á óvart þennan eina dag ársins.?

Vanadís á Ölfusá

Mánudagskvöldið 1. apríl 1957 flutti Ríkisútvarpið fréttaauka ?um þau furðutíðindi að nokkrir merkir framkvæmdamenn hefðu tekið sig saman og hafið skipsferðir til Selfoss,? eins og Morgunblaðið segir daginn eftir. Höfðu þeir keypt til þess 600 lesta flatbotna fljótaskip, Vanadís, sem áður hafði verið í ferðum á Saxelfi. Einn fréttamaður var um borð í skipinu á leið þess upp Ölfusá og annar lýsti hátíðahöldum á Selfossi. Það voru Stefán Jónsson, Thorolf Smith og Jón Múli Árnason sem unnu þetta efni.

Alþýðublaðið segir að fréttaaukinn hafi verið bráðsnjall ?og munu flestir hlustendur, nema Árnesingar, hafa lagt trúnað á frásögn fréttamannanna. Á útvarpið lof skilið fyrir þennan fréttaauka í tilbreytingarleysinu,? segir blaðið og telur þetta með því besta sem útvarpið hefur boðið upp á í seinni tíð. ?Og víst munu flestir hlustendur sammála um að vel hafi hæft svo alvörugefinni stofnun sem útvarpinu að hleypa í sig nokkrum gáska í tilefni dagsins,? segir Morgunblaðið.

Skáksnillingur frá Grímsey

Að kvöldi 1. apríl 1959 flutti Ríkisútvarpið fréttaauka frá hraðskákmóti í Breiðfirðingabúð í Reykjavík og sagði frá 14 ára skákmanni úr Grímsey sem sigraði hvern snillinginn á fætur öðrum. Undraskákmaðurinn var nefndur Pétur Vigfússon.

?Margir gerðu sér ferð niður í Breiðfirðingabúð í gærkvöldi til þess að horfa á þennan nýja skáksnilling,? segir Alþýðublaðið daginn eftir, ?en laumuðust sneyptir heim?. Sama dag var í hádegisfréttum útvarpsins sagt frá mótinu, þar sem Friðrik Ólafsson sigraði. Fréttinni lauk á þessum orðum: ?Ungi skákmeistarinn frá Grímsey, sem sagt var frá í fréttaauka í gær, var fyrsta-apríl-gestur útvarpsins, og er hann úr sögunni.?

Stórlax við Grímsey

?88 pd. lax veiðist við Grímsey,? segir í fyrirsögn á baksíðu Morgunblaðsins 1. apríl 1960. Þar kemur fram að mb. Hagbarður hafi tveimur dögum áður fengið laxinn á línu suður af Grímsey, á svonefndum Flesjum. ?Laxinn er hrygna, vegin blóðguð var hún 88 pund og 173 cm að lengd.? Farið var með laxinn til Húsavíkur þar sem hann var settur í frost. ?Svo margir hafa viljað sjá laxinn að takmarka hefur orðið aðgang að frystihúsinu.?

Eins og við var að búast reyndist fréttin um stórlaxinn aprílgabb. En leiðréttingin hefur ekki komist nógu vel til skila því að í Öldinni okkar 1951-1960 er fréttin birt sem staðreynd.

Þess má geta að í apríl 1957 veiddist lax við Grímsey, ?132 cm að lengd og vóg 49 pund blóðgaður,? eins og þá var sagt í blöðum. Hann er enn talinn stærsti lax sem hér hefur veiðst.

Silfur Egils fundið

Sennilega er eitt eftirminnilegasta aprílgabb Morgunblaðsins fréttin frá 1. apríl 1962 um að silfur Egils Skallagrímssonar hefði fundist í Kýrgili í Mosfellsdal. Þetta voru þrjátíu silfurpeningar með áletruninni Ólafur konungur. ?Engum blöðum er um það að fletta að hér eru komin bróðurgjöld Egils Skallagrímssonar, silfrið góða úr kistunum sem Aðalsteinn Játvarðsson konungur Engla galt Agli eftir orrustuna við Ólaf kvaran á Vínheiði árið 937,? segir Morgunblaðið. Haft er eftir Jóni Guðmundssyni á Reykjum að mikið hafi verið leitað að silfrinu en menn verið ?farnir að sætta sig við að silfrið hans Egils væri annars konar, það væri heita vatnið sem alls staðar streymir upp úr jörðinni á þessu svæði?.

Fréttin 1. apríl var birt á forsíðu og leiðrétting daginn eftir einnig. Segir þar að sjá megi af viðbrögðum fólks að fréttin hafi verið ?lesin með sérstakri athygli og létu margir gabbast?.

Nýtt kort af Norðurálfu

?Nýtt miðaldakort finnst í Danmörku,? segir á forsíðu Morgunblaðsins 1. apríl 1966, en kortið er sagt heldur yngra en Vínlandskortið sem mikið hafði verið í umræðunni haustið áður. Kortið er gert á pergament, nokkuð stórt ummáls og mjög vel varðveitt. ?Þetta er kort af Norðurálfu og má á því greina Vínland vestanhafs,? segir blaðið.

Á baksíðunni er mynd af stallinum undan Thorvaldsensstyttunni í Hljómskálagarðinum og sagt að þessi elsta stytta í Reykjavík hafi verið tekin til viðgerðar.

Í blaðinu daginn eftir er viðurkennt að fréttin um kortið hafi verið aprílgabb. Flestir hafi þó talið að fréttin um styttuna hafi verið gabb, en svo hafi ekki verið og til sannindamerkis er birt mynd af henni ?þar sem hún liggur í áhaldahúsi borgarinnar og bíður viðgerðar?.

Ísbjörninn á jakanum

Á hafísárunum, sennilega 1966 eða 1967, birtist fréttaauki í Ríkisútvarpinu 1. apríl þar sem fréttamaður fór út á ísinn við Grímsey til að taka upp öskur í hvítabjörnum. Í lokin söng Egill Jónsson bóndi á Flæðiskeri Ísbjarnarsönginn og Karlakór Kolbeinseyjar tók undir í viðlaginu ?húlaba labba la,? eins og frægt varð.

Stefán Jónsson fréttamaður, sem átti þátt í þessu gabbi ásamt Árna Gunnarssyni og fleirum, segir frá því í Morgunblaðinu 1. apríl 1990 að sumir hafi ekki áttað sig á gríninu, þeirra á meðal Þórbergur Þórðarson rithöfundur sem vildi ekki trúa því að ábyrgur fréttamaður væri að ljúga að fólki.

Reykur í sjónvarpssal

Starfsmenn fréttastofu Sjónvarpsins brugðu á leik 1. apríl 1968 og sviðsettu bruna í leikmyndadeild stofnunarinnar. ?Magnaðist reykurinn í kringum Markús Örn Antonsson fréttaþul jafnt og þétt þar til hann var farinn að hósta og varð rétt grilltur gegnum reykinn,? segir í Vísi daginn eftir. Þetta mun hafa verið fyrsta aprílgabb Sjónvarpsins.

Gervitennur í gæðing

?Sá atburður gerðist í fyrsta sinn á Íslandi nú um helgina að settar voru gervitennur upp í hross,? segir Morgunblaðið 1. apríl 1969. Þetta var Páfi, sex vetra gæðingur Þóru Friðriksdóttur leikkonu, en tennur hans höfðu skemmst. Haukur Clausen tannlæknir annaðist verkið í samvinnu við Pál Agnar Pálsson yfirdýralækni en Guðjón Guðmundsson og Júníus Pálsson smíðuðu tennurnar. Hesturinn átti að vera til sýnis við félagsheimili Fáks þennan dag kl. 17-19 og segir blaðið áreiðanlegt að mörgum leiki forvitni á að sjá hestinn með nýju tennurnar.

Morgunblaðið hefur það eftir Jóni Sigurbjörnssyni, eiginmanni Þóru, daginn eftir að ?Páfi hefði hlegið miklum hrossahlátri þegar hann hefði sagt honum hve margir hefðu látið gabbast?.

Huliðshjálmur

Síðasta frétt Sjónvarpsins 1. apríl 1969 hófst á þessum orðum: ?Huliðshjálmurinn er vel þekkt fyrirbrigði úr þjóðsögum. Hefur margur maðurinn sjálfsagt óskað þess einhverntíma að geta brugðið yfir sig huliðhjálmi og horfið, enda gæti það óneitanlega verið þægilegt stundum.? Þegar fréttaþulurinn hafði lesið þessi orð hvarf hann af skjánum en hélt þó lestrinum áfram: ?Tæknimönnum sjónvarpsins hefur nú tekist að leysa þetta mál, eins og þið sjáið glöggt, og hefur verið sótt um einkaleyfi á þessari aðferð í mörgum löndum, þar sem álitið er að hún geti orðið einkar vinsæl.? Síðan birtist fréttaþulurinn á ný og sagði: ?Enn hefur hins vegar ekki tekist að gera það forna fyrirbrigði að veruleika er menn gátu brugðið sér í allra kvikinda líki, en að því mun þó vera unnið.?

John á Íslandi

Breski bítillinn John Lennon kom til Íslands 1. apríl 1970, að sögn Vísis, til þess að ræða við Gunnar Þórðarson tónlistarmann um hugsanlega samvinnu þeirra um gerð söngleiks. Æfingar áttu að fara fram í íþróttahúsinu á Hálogalandi og ætlaði John að líta á aðstæður síðdegis þennan dag. Blaðið náði tali af Lennon á Hótel Sögu, en þá var hann nýkominn úr gönguferð. Hann sagði að borgin væri falleg en honum fannst fyndið hvað öll húsin væru lítil. Á þessum árum gekk sú saga að Paul McCartney væri látinn. Aðspurður sagði félagi hans: ?Ja, það skyldi þó aldrei vera. Ég hef einmitt verið að furða mig á því hvað hann hefur verið daufur í dálkinn upp á síðkastið.?

Reyndar var það John sem lést tíu árum eftir ?heimsókn? sína til Íslands en Paul lifir góðu lífi og hefur komið til Íslands, eins og Ringo félagi þeirra.

Gabbað í meira en hálfa öld

Ekki hefur tekist að finna eldra aprílgabb í íslenskum dagblöðum eða útvarpi heldur en gabb Morgunblaðsins frá 1953. Það verður því að teljast marka upphafið, þar til annað kemur í ljós.

Hvað sem öðru líður hafa íslenskir fjölmiðlar lagt sig fram um að viðhalda þessum sið síðustu árin. Er skemmst að minnast fréttar Morgunblaðsins um hauskúpu Egils Skallagrímssonar 1. apríl 1995 og mynd af nýjum KR-búningi 1. apríl 2000. Ólíklegt er að dagblöð og ljósvakamiðlar láti af þessari iðju í bráð.

Lengri grein um sama efni birtist í Morgunblaðinu 31. mars 2002.

Myndir: Úr viðkomandi dagblöðum þess tíma.

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is