Jón Sæmundur Sigurjónsson: Hátíðarræða í Siglfirðingamessu 22. maí 2011


Góðir Siglfirðingar! Háttvirta samkoma! Konur og menn!

Þannig ávarpaði sr. Bjarni Þorsteinsson Siglfirðinga í hátíðarræðu sinni á skólabalanum fyrir rúmum 93 árum, þegar minnst var 100 ára afmælis verslunarréttinda og síðast en ekki síst fagnað nýtilkomnum kaupstaðaréttindum til handa Siglufirði eftir mikla baráttu um það mál að losa Siglufjörð úr aldagömlum viðjum stjórnsýslu Eyjafjarðarsýslu.

Siglufjörður varð löggiltur verslunarstaður 1818 og Siglufjörður varð kaupstaður árið 1918. En það eru mun fleiri atburðir sem við þurfum að minnast, því það er svo undarlegt hvað margir merkilegir atburðir hafa gerst í sögu Siglufjarðar sem vert er að minnast, þar sem ártalið endar á 8, t.d. er sóknarprestur okkar Siglfirðinga, sr. Sigurður Ægisson, fæddur árið 1958.

Þegar Siglufjörður fékk löggildingu sem verslunarstaður árið 1818 hafði verslun verið á Siglufirði um 30 ára skeið. Árið 1788, þegar einokunarversluninni dönsku var aflétt, var fyrsta verslunin opnuð á Siglufirði og er því saga staðbundinnar verslunar á staðnum orðin 223 ára. Siglfirðingar hafa því verið með opna búð í 223 ár. Þess merka viðburðar er vissulega vert að minnast.

Þar áður höfðu Siglfirðingar orðið að lúta dönsku einokuninni eins og aðrir landsmenn, en þó í mun minna mæli heldur en aðrir þurftu að þola. Þessi fámenni hreppur sem náði yfir Siglufjörð, Siglunes, Héðinsfjörð og Hvanndali var svo einangraður að hreppsbúar gátu óhindrað stundað verslun við Englendinga, Þjóðverja og hollenska duggara í trássi við danskt yfirvald, sem var víðs fjarri. Einangrun Hvanneyrarhrepps kom oft í góðar þarfir, því sagan segir okkur að móðuharðindi og pestir hafi haft mun minni áhrif á Siglufirði en víðast hvar annars staðar. Það er öllu heldur að fátækt og baráttan við náttúruöflin, snjóflóð og hafið, tækju sinn toll.

Stofnun fyrstu verslunarinnar er mjög merkileg fyrir þá staðreynd, að annar stofnenda hennar var kona, Anna Redzslew, en hún tók alfarið við versluninni ári seinna er maður hennar dó. Anna þessi, sem var dönsk, þótti svarkur mikill og drykkfelld, og því allt önnur manngerð en þær indælu konur, sem rekið hafa verslanir á Siglufirði síðan, allt fram á þennan dag. Engu að síður er Anna Redzlew sennilega fyrsta verslunarkonan á Íslandi og geta Siglfirðingar því státað af því að hafa brotið ísinn að þessu leyti.

 

Og í ár eru 223 ár liðin frá því að þetta gerðist, en ég veit ekki hvort öllum kvenfrelsiskonum er ljóst, hvaða frumkvöðul þær eiga á þessu sviði.

Þegar Redzlew-hjónin fluttu til Siglufjarðar árið 1788 fengu þau tilhöggið timburhús frá Noregi, og mun það vera fyrsta húsið sem reist var á Eyrinni, að undanskildum hjöllum og sjóbúðum. Húsið var reist nákvæmlega þar sem ráðhús okkar stendur núna á Siglufirði og hefur þá sennilega staðið í flæðarmálinu, því dokkin náði mun lengra inn á Eyrina í þá daga.

Þetta ár voru aðeins 107 manns búsettir í öllum hreppnum á 15 býlum og eru Úlfsdalir taldir þar með, en þeir komu eiginlega ekki til hreppsins fyrr en árið 1828, og verða því að skoðast sem eins konar nýlenda okkar Siglfirðinga. Þar með voru sameinuð landnám Þormóðs ramma og Úlfs víkings, sem áður hafði talist til Hegranesþings og Fljótahrepps hins forna.

Það má segja að markaðurinn hafi ekki verið stór fyrir þessa einu verslun og því ekki að undra að Siglufjörður gleymdist, eins og svo oft á einokunartímanum, þegar fjöldi kauptúna fékk verslunarréttindi árið 1816. Það var fyrir sérstakan atbeina Stefáns Þórarinssonar, amtmanns í Norðaustur-amtinu, að Friðrik konungur sjötti löggilti Siglufjörð sem verslunarstað 20. maí 1818.

Nafn Stefáns Þórarinssonar er þar með órofa bundið, með hlýhug okkar Siglfirðinga, í sögu byggðarinnar.

Þegar Siglufjörður var löggiltur verslunarstaður, voru 160 íbúar í öllum hreppnum. Hálfri öld seinna, árið 1868, voru þeir orðnir 303, og var það í fyrsta skipti sem íbúatalan fór yfir þrjú hundruð. Áttatíu árum seinna, árið 1948, var íbúatalan 10 x hærri og fór þá hæst í nokkur ár yfir 3000 íbúa, en þá voru verslanir á Siglufirði yfir 70 talsins.

Eftir löggildinguna árið 1818 var verslunin á Siglufirði ýmist í eigu danskra kaupmanna frá Akureyri eða verslunarfélagsins Örum & Wulff frá Húsavík. Árið 1875 náðu Íslendingar loks yfirráðum yfir þessari verslun, þegar Gránufélagið kom til sögunnar.

Fram að þeim tíma höfðu líka merkilegir hlutir gerst. Árið 1828 er talið að fyrsti nemandinn hafi farið til framhaldsnáms í æðri skóla frá Siglufirði. Hér var um tvítugan pilt að ræða, Halldór Kröyer, en hann var yngsti sonur hjónanna í Höfn. Halldór hélt til náms í Bessastaðaskóla og ruddi hann þar með brautina fyrir okkur hin, sem á eftir komum, en Siglfirðingar hafa ætíð sent sterka hópa námsmanna í MA, MR, Fjölbraut á Sauðárkróki og fleiri aðra góða skóla. En nú eru yfir 180 ár liðin frá þessum atburði að Siglfirðingur leitaði æðri menntunar út fyrir fjörðinn og er það alla vega einnrar messu virði.

Í þessum töluðu orðum er vert að minnast þess að kominn er nýr menntaskóli í nýja bæinn, Fjallabyggð, sem nú er að ljúka sínu 1. starfsári.

——–

Ef hægt er að líta á sr. Bjarna Þorsteinsson sem Jón Sigurðsson okkar Siglfirðinga, þá er ekki úr vegi að við líkjum Snorra Pálssyni, verslunarstjóra Gránuverslunarinnar, við Skúla Magnússon, fógeta. Snorri Pálsson var drifkrafturinn í að Gránufélagið keypti verslunina af Dönum og má segja að þar með hæfist fyrsta framkvæmda- og framfaratímabilið á Siglufirði, og til hans eiga flestar eða allar framfarir á Siglufirði rót sína að rekja þau 20 ár sem hans naut við.

Fyrir utan umsvifamikla hákarlaútgerð Gránufélagsins var í verslunarstjóratíð Snorra Pálssonar í fyrsta skipti stofnað til iðnaðar á Siglufirði, en þá var hafin niðursuða matvæla og lýsisbræðsla. Þetta var árið 1878, eða fyrir rúmum 130 árum.

Árið 1888 er getið um fyrstu járnsmiðjuna á Siglufirði.

Ég ætla ekki að gleyma stofnun Sparisjóðs Siglufjarðar, elsta sparisjóðs landsins, árið 1873, en árið 1879 er mikið merkisár í mínum huga, en það ár var stofnaður annar sjóður, sem lýsti óhemju mikilli framsýni Snorra Pálssonar, en það var Ekknasjóðurinn, og var hann ætlaður til styrktar ekkjum og munaðarlausum. Þetta var fyrsta lýðhjálpin utan fátækraframfærslu hreppsins og byggðist á líkri hugsun og alþýðutryggingarnar tæpum 60 árum síðar og tíu árum áður en Bismarck, kanslari Þýskalands, stofnaði fyrstu almannatryggingarnar í veröldinni.

En Snorri Pálsson lét ekki þar við sitja. Fyrir forgöngu hans var Hvanneyrarhreppur gerður að sérstöku læknisumdæmi það sama ár og hafa læknar setið óslitið á Siglufirði síðan. Nú hefur verið starfrækt sjúkrahús á Siglufirði í eigu Íslendinga í yfir 80 ár, en gamla sjúkrahúsið var tekið í notkun í fyrsta sinn árið 1928. Fyrsta sjúkrahúsið á Siglufirði var hins vegar Norska sjómannaheimilið. Þetta er hús norskra síldveiðisjómanna, sem gert er úr norskum viði og tilhöggið í Haugasundi í Noregi, en Haugasund var heimabær tengdaföður míns. Það var reist fyrir samskot Norðmanna og vígt þann 12. september 1915 að viðstöddum hundruðum sjómanna frá mörgum löndum.

Fram yfir aldamótin 1900 hafði verslunin ætíð verið ein. Hún hafði því lengstum einokunarstöðu og hafði ráð almennings í hendi sér í öllum viðskiptum. Það má aldrei aftur henda Siglufjörð að aðeins einn aðili hafi öll ráð manna í hendi sér. Verslunin greiddi ekki innlegg manna eða vinnu í peningum, heldur með úttekt í vörum.

Þetta breyttist fyrir réttum 108 árum, þegar norski barkurinn ?Marsley? sigldi inn á fjörðinn þ. 8. júlí árið 1903, með fyrstu síldina sem veiddist á djúpmiðum og var landað á Siglufirði. Þar með byrjaði ?Iðnbyltingin mikla? á Íslandi og það var Siglufjörður sem bauð upp á leiktjöldin. Fólkið fékk útgreitt í peningum í fyrsta skipti í sögunni og gat um frjálst höfuð strokið.

Ævintýrið mikla var byrjað. Nöfn eins og Tynes, Evanger, Roalds, Jacobsen, Bakkevig og Henriksen voru mergurinn í framvindunni ásamt miklu fleirum. Já, Henriksen, kæru vinir. Ekki bara vegna þess að mér er nafnið kært, heldur líka vegna þess að allir hinir Norðmennirnir og afkomendur þeirra eru farnir og þeirra nöfn finnast ekki lengur á íbúaskrá Siglufjarðar. Já, það voru Norðmenn sem komu í þessa Smugu og lögðu grunninn að því sem kom.

Síldarbryggjur, verksmiðjur, verslun og viðskipti. Allt gerðist þetta með undurhraða. Fólksfjölgunin var eins og sprengja. Þorpið tók líka stökkbreytingum. Síminn kom 1910, ein fyrsta vatnsveitan á landinu 1911 og rafmagn kom í bæinn 1913, fyrsti bærinn á landinu næst á eftir Hafnarfirði og Seyðisfirði. Svo kom stærsta skrefið árið 1918 með fullgildingu kaupstaðarréttinda.

Maðurinn á bak við þetta allt var sr. Bjarni Þorsteinsson. Hann vígðist til Hvanneyrar haustið 1888, eða fyrir rúmum 120 árum. Slíkan happafeng rekur ekki á fjörur á hverjum degi í afskekktri útkjálka byggð, sem Siglufjörður var þá. Sr. Bjarni Þorsteinsson var stórmenni og besti sonur Siglufjarðar. Afrek hans á tónlistarsviðinu eru einsdæmi við fábrotnar aðstæður, söfnun Þjóðlaganna má líkja við björgun handritanna á sínum tíma. Stórhátíðir kirkjunnar eru óhugsandi án hátíðasöngvanna og Aftansöngurinn hljómar frá kirkjunni okkar, kirkjunni hans, á hverjum degi.

Stórvirki sr. Bjarna í stjórnsýslu, uppbyggingu, menntamálum og líknarmálum verða seint fullþökkuð. Barátta hans í kaupstaðar-réttindamálinu lauk með sigri, sem hann gat kynnt í hátíðarræðu sinni 20. maí 1918. Hann var okkar Jón Sigurðsson.

Stjórnskipaður framkvæmdastjóri hinnar nýju bæjarstjórnar var fyrstu 20 árin hinn nýskipaði lögreglustjóri eða bæjarfógeti. Það var fyrst árið 1938 sem Siglfirðingar fengu fyrsta bæjarstjórann. Hinn sanni héraðshöfðingi var þó ætíð sr. Bjarni. Það var dæmigert að á öllum framboðslistum til bæjarstjórnar var hann í fyrsta sæti og er það sennilega einsdæmi í lýðræðisríki.

                  

——–

Siglufjörður á sér fortíð sem ekki er sambærileg við neitt sem gerst hefur á Íslandi fyrr eða síðar. Síldarævintýrið á fyrri hluta aldarinnar er þjóðfélagslegt fyrirbæri sem ekki á sér neinn líka í Íslandssögunni og Siglufjörður á þar ríkari þátt en nokkur annar staður.

Flest sjávarþorp eru kyrrlát og friðsæl. Á Siglufirði gerðust hlutirnir hratt. Uppbyggingin, verksmiðjurnar, söltunarstöðvarnar, aðkomufólkið, fjölbreytt mannlífið, mannfólkið hvaðanæva að, ekki síst frá útlöndum. Þetta skapaði andrúmsloft, sem annars staðar var óþekkt og það er sagt að umhverfið skapi manninn. Siglfirðingar hafa því ætíð borið höfuðið hátt og verið frjálslyndari í fasi en margur annar. Kringumstæðurnar gáfu Siglfirðingum ekki tækifæri til að vera heimóttarlegir. Yfir þeim hefur ætíð verið reisn þess fólks, sem séð hefur og upplifað mannlífið frá mörgum hliðum.

Það var baráttufólk sem kom hvaðanæva að til að ganga á vit síldarævintýrisins á Siglufirði. Það var því visst úrval, viss kjarni af þjóðinni sem sótti til Siglufjarðar. Siglufjörður var lengi vel eini kaupstaðurinn þar sem fjöldi átthagafélaga starfaði. Skagfirðingar, Eyfirðingar, Húnvetningar, Þingeyingar, Austfirðingar og Vestfirðingar áttu hér sín félög. Sunnlendingar og Dalamenn voru heldur ekki ófáir, en ég man ekki eftir að þeir hefðu með sér félag. Úr þessu umhverfi erum við komin. Við eigum því góða arfleifð, sem við getum verið stolt af.

Einn er þó sá þáttur í sögu Siglufjarðar, sem sjaldan er minnst á þegar hugsað er til baka, því þá er oftast hugsað um björtu hliðarnar, kraftinn, uppbygginguna, iðandi mannlífið og endalausa vinnu. Tilfellið er að á síldarárunum svokölluðu var ekki minna um síldarlítil eða síldarlaus ár, heldur en allt væri nú iðandi af lífi og fjöri.

Vissulega var uppbyggingin glæsileg og mun meiri en gerðist annars staðar á Íslandi. En beintengingin milli síldar og síldarleysis annars vegar og efnahags heimilanna hins vegar var næsta algjör. Efnahagur heimilanna fór nákvæmlega eftir því, hvort sumarvinnan leyfði að safnað væri í sarpinn til vetrarins. Þegar sumarvinnan var lítil, þá var oft þröngt í búi hjá mörgu siglfirsku alþýðuheimili og reyndar mun víðar, því síldargróðinn frá Siglufirði hélt uppi hálfu landinu.

Norðurlandssíldin er aðalborin skepna bæði að fegurð og vitsmunum, kannski það dásamlegasta sem Guð hefur skapað, segir Íslandsbersi í Guðsgjafaþulu Halldórs Kiljan Laxness.

Og Norðmennirnir, sem skynjuðu vel hvað það var sem fékk hjólin til að snúast og sem brennt var inn í vitund hvers Siglfirðings, orðuðu það á sinn hátt er þeir sögðu: ?Det kommer an på silla?.

Íslandsbersi, sem var hinn dæmigerði síldarsaltandi, bjó ekki á staðnum frekar en flestir síldarsaltendur Siglufjarðar. Skattalögum var lengst af þannig háttað að fyrirtæki þeirra greiddu ekki sín gjöld til bæjarins, heldur á heimaslóð. Síldarverksmiðjur ríkisins voru skattfrjálsar þar til landsútsvar kom seint um síðir, sem gaf Siglufirði aðeins smjörþef af afrakstrinum. Siglufjörður var því ætíð illa undir það búinn að mæta áföllum, því það var fyrst og fremst afrakstur heimilanna sem stóð undir útgjöldunum. Þessi staður hefur ætíð verið alþýðubær þar sem Íslandsbersarnir komu og fóru með síldinni.

Það kom því engum Siglfirðingi á óvart, að síldarbrestur tók umsvifalaust sinn toll í lægri launum, bágbornari lífskjörum og lengra eða styttra atvinnuleysi. Síldarævintýrið var því einungis ævintýri þegar síldin kom. Þegar síldin fór, var úti ævintýri, og veruleikinn blasti við. Síldarplönin hurfu eða grotnuðu niður hvert af öðru, síldarverksmiðjurnar tíndu tölunni og nú er sú síðasta farin af staðnum og seld til Spánar.

——–

Löngu áður en útséð var um að síldin kæmi ekki aftur, var fólk farið að flytja úr bænum. Þetta harðduglega fólk, sem kom hvaðanæva að til að taka þátt í ævintýrinu mikla og stofnaði átthagafélög á Siglufirði, var nú á leiðinni í aðrar áttir þar sem fjörið var nú orðið mest, t.d. á höfuðborgarsvæðið og stofnaði átthagafélag þar þ. 14. október 1961 á 100 ára afmælisdegi sr. Bjarna. Nú vorum við öll orðin Siglfirðingar, hvar svo sem hinar dýpstu rætur liggja, og félagið okkar er Siglfirðingafélagið í Reykjavík og það verður 50 ára á þessu ári. Siglfirðingar í og í kring um félagið eru fyrir löngu orðnir mun fleiri en sem nemur íbúatölu Siglufjarðar, sem segir sína sögu.

Arnold Bjarnason, sonarsonur sr. Bjarna, og Ólafur Nílsson voru helstu frumkvöðlar að stofnun félagsins. Formenn hafa verið all nokkrir á þessum tíma, en þeir voru Jón Kjartansson, fyrrverandi bæjarstjóri, sem var formaður fyrstu 17 árin, Annó Bjarna, Óli Ragnars, Heiðar Ástvalds, Óli Bald, Guðmundur Stefán og síðast en ekki síst eftir alla þessa karlarunu ? Rakel okkar Björnsdóttir, sem stjórnar félaginu okkar núna með glæsibrag.

Mér hlotnaðist sá heiður að vera formaður þessa góða félags um 10 ára skeið. Það sem einkennir þetta félag er hinn mikli fjöldi gjörvulegs fólks, konur og karlar, sem leggur á sig ómælda vinnu til að halda uppi félagslífinu, sem er nokkuð formfast, en skemmtilegt. Það væri nánast dónaskapur að nefna einhver nöfn umfram önnur, en ég held að ég halli ekki á neinn þótt ég nefni sérstaklega þær Ástu Einars, Valgerði Bíldal, Jónu Hilmars, Kittý Gunnlaugs og Grétu Guðmunds með þökkum fyrir samstarfið á minni tíð, auk fjölda annarra sem lögðu hönd á plóginn og einnig væri vert að minnast á. Félagið á eftir að fagna þessum tímamótum á margvíslegan hátt í október á þessu ári, með veglegri afmælisútgáfu fréttablaðs félagsins, stórhátíð á Broadway og svo kemur endurrituð ævisaga sr. Bjarna út þ. 14. október, á 150 ára afmælisdegi hans.

——–

Einhver vitur maður sagði, að það væri ekki hægt að að forðast samtímann og ekki heldur uppruna sinn. Hvoru tveggja er nokkuð sem loðir við mann alla tíð. Annað er stöðugum breytingum undirorpið, en hitt ekki. Uppruni okkar breytist auðvitað ekki, og við, sem höfum það umfram annað fólk að vera frá Siglufirði, vitum það auðvitað vel, að það verður ekki frá okkur tekið. Um samtímann gegnir öðru máli. Sá sem nú er að líða er svo fljótt orðinn að fortíð, að það þarf oft tíma til að átta sig á að gærdagurinn kemur ekki aftur.

Siglufjörður er að rétta aftur úr kútnum eftir langa og erfiða baráttu eftirsíldaráranna. Allt er nú komið í fastari skorður og horfir til meira jafnvægis en áður. Siglfirðingar sem koma heim eftir langa fjarveru þekkja bæinn ekki aftur, miðað við það sem áður var. Það hefur kostað mikla baráttu og sterk bein til að finna jafnvægi í atvinnulífinu eftir ævintýrið mikla. Þótt síldarævintýrið sé á enda, þá heldur ævintýrið um bæinn okkar áfram.

——–

Sr. Bjarni Þorsteinsson endaði ræðu sína á skólabalanum 20. maí 1918 með draumsýn um það, hvað gæti gerst með Siglufjörð í framtíðinni. Hann sá nær alla sína drauma rætast næstu árin á eftir.

Ég á líka draum:

Ég sé á nýrri öld sterkan og þróttmikinn Siglufjörð í góðu og nánu sambandi við nágranna sína og umheim allan, endurnýjun sambandsins við Eyjafjörð, með göngum til Ólafsfjarðar um Héðinsfjörð, þar sem sköpuð verður sterk efnahagsleg heild, sem verður grunnurinn að fjölbreyttu menningar- og íþróttalífi. Ég sé höfuðstaði Tröllaskaga sem eftirsóttar paradísir vetraríþróttanna og með yfirbyggða knattspyrnuvelli. Ég sé traustan ferðamannaiðnað þar sem fjöllin okkar laða fólk að til útivistar og gönguíþrótta. Ég sé blómlegt atvinnulíf, þar sem fólkið finnur til öryggis og starfsánægju, og þar sem viðmót og andrúmsloft gefa lífinu það gildi að þar sé gott að búa.

Ein síðasta ósk sr. Bjarna í hátíðaræðu hans var að Siglfirðingar gætu orðið milli 3000-4000 manns, ?framtaksamt og ánægt, gott og vandað fólk?. Honum varð að ósk sinni, því íbúatalan var á fjórða þúsund um skeið.

Nú eru Siglfirðingar miklu fleiri. Tala þeirra sem segja með stolti hugans: ?Ég er Siglfirðingur? og vita, að það er ?Eitt að vera SIGLFIRÐINGUR?, eins og segir í Siglufjarðarbrag Bjarka Árnasonar, er miklu hærri. Það var gamli kaupmaðurinn, sem lengst allra verslaði heima á Siglufirði, sem sagði: ?Siglfirðingum hefur ekkert fækkað. Þeir búa bara annars staðar?. Það hendir líka aðra að búa annars staðar en heima hjá sér. Það er t.d. sagt, að í New York borg einni búi fleiri Gyðingar en í Ísraelsríki öllu.

Ég held að tilfinningum okkar brottfluttra Siglfirðinga, okkar þeirra sem fluttu á brott af staðnum, sé best lýst í blómi Davíðs Stefánssonar:

Því lengri för sem er farin

því fegra er heim að sjá

og blómið við bæjarvegginn

er blómið, sem allir þrá.

Myndin, af hinum stolta fjallahring í kring um fjörðinn okkar fagra, er myndin, sem er óútmáanlega greipt í huga okkar allra

? og blómið við bæjarvegginn

er blómið, sem allir þrá.

Blessist og blómgist Siglufjörður alla tíð!

Jón Sæmundur Sigurjónsson.

Mynd: Aðsend.

Texti: Jón Sæmundur Sigurjónsson.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is