Jólasiðir


Á aðventu og jólum eru ýmsir góðir og fagrir siðir, venjur og hefðir sem við fylgjum ár eftir ár og berum þannig áfram til næstu kynslóðar, án þess kannski að vita alveg hvaðan það allt er runnið. Eftirfarandi samantekt ætti þá að koma að gagni.

Aðventukransinn

Aðventukransinn á uppruna sinn í Þýskalandi. Hið sígræna greni táknar lífið sem er í Kristi og hringurinn táknar eilífðina. Fyrsta kertið nefnist spádómakertið og minnir á fyrirheit spámanna Gamla testamentisins er höfðu sagt fyrir um komu frelsarans. Annað kertið nefnist Betlehemskertið. Þar er athyglinni beint að þorpinu sem Jesús fæddist í og þar sem ekkert pláss var fyrir hann. Þriðja kertið nefnist hirðakertið en snauðum og ómenntuðum fjárhirðum voru sögð tíðindin góðu á undan öllum öðrum. Fjórða kertið nefnist síðan englakertið og minnir okkur á þá sem báru mannheimi fregnirnar. Önnur heiti eru (í sömu röð) kerti vonarinnar, kærleikans, gleðinnar og friðarins. Undanfari aðventukransins voru stjakar með fjórum kertum, sem tendrað var ljós á, einu af öðru, á sunnudögum jólaföstunnar.

Englahár

Sagt er að kona nokkur, sem unnið hafði af kappi að undirbúningi jólanna, hafi á aðfangadagskvöld uppgötvað sér til mikillar skelfingar, að jólatréð hennar var þakið köngullóarvef. Og mædd gekk hún því til sængur. En næsta morgun hafði Kristur breytt köngullóarvefnum í glitrandi englahár.

Jatan

Heilagur Franz frá Assisi, sem uppi var á 12. og 13. öld, tók upp á því að setja fæðingu Jesúbarnsins á svið í minnkaðri útgáfu í kirkju sinni. Fyrst í stað tíðkaðist þessi skreyting aðeins í Guðs húsum en síðar inni á heimilum fólks líka og er hún ómissandi þáttur víða, einkum meðal kaþólskra. Á gömlum myndum af jólafrásögunni má sjá að barnið liggur á hveitistráum og knippi er þar á gólfi. Er það vísun í altarissakramentið. Stundum er jatan nánast sýnd eins og altari. Nautið var tákn Gyðinga, tákn fórnar, styrks og þolgæðis, asninn tákn heiðingjanna en líka auðmýktarinnar. Í helgisögunni vermdu þau dýr sveininn nýfædda með því að blása á hann.

Jólaklukkur

Klukkur hafa alltaf verið og eru enn eitt höfuðtákn jólanna. Í ýmsum löndum Evrópu er það siður að hringja dánarhringingu í kirkjum í eina stund á aðfangadagskvöld og á það að merkja, að hinn vondi (myrkrahöfðinginn) sé allur. Á miðnætti er svo hátíðarhringing til að fagna Kristi.

Jólaljósin

Ljósadýrð er óaðskiljanlegur hluti þessa tíma. Mun kristnin í því efni hafa þegið ýmislegt frá ljósahátíð gyðinga. Á miðöldum var það siður með Ítölum og Bretum að gefa kerti á jólunum. Á Írlandi settu menn þau í gluggakistur til að lýsa Jesúbarninu og Maríu Guðsmóður. Á Norðurlöndum voru þau höfð á jólakökunni.

Jólagjafir

Á hátíð sem Rómverjar efndu til 17.-24. desember árlega til heiðurs guðinum Satúrnusi gáfu þeir hver öðrum gjafir, og oft er því haldið fram að kristnir menn hafi tekið upp þann sið á jólahátíðinni. Þó er rétt að minna á vitringana í þessu sambandi, og í raun algjör óþarfi að leita skýringa í öðru.

Jólakort

Jólakort komust fyrst í tísku skömmu fyrir miðja 19. öld í Englandi, en menn greinir á um upphafið. Ein hugmyndin er sú, að ræturnar sé að finna í jólaljóðum sem börn rituðu á arkir og skreyttu með teikningum úr fæðingarfrásögunni.

Jólasöngvar

Sálmar hafa ætíð verið snar þáttur í jólafagnaðinum, en heilagur Franz er sagður hafa átt upptökin að því að ýmiss konar jólasöngvar fóru að tíðkast. Það var skoðun hans að menn ættu að njóta gleðskapar í hófi á jólunum. Söngvarnir voru að megninu til léttir, enda sniðnir eftir frönskum danskvæðum.

Jólatréð

Vinsælasta tákn jólanna er tiltölulega ungt að árum. Heimildir virðast fyrst geta um sérstakt tré við jólahald árið 1510, í Riga í Lettlandi. En árið 1807 voru fullbúin jólatré til sölu á markaði í Dresden í Þýskalandi. Greinilegt er, að siðurinn var þá búinn að ná öruggri fótfestu þar um slóðir. Hann fór svo að berast til Norðurlanda eftir 1800. Til Íslands munu fyrstu jólatrén hafa komið um 1850, í kaupstaði, og voru þau aðallega hjá dönskum fjölskyldum.

Fjölmargar sagnir eru um tilkomu jólatrésins. Ein er á þá leið, að barn hafi knúið dyra í fátæku hreysi á aðfangadagskvöld. Íbúarnir tóku því vel og gáfu að borða. Næsta morgun heyrðist englasöngur og Kristur birtist í dýrð sinni. Hann braut grein af tré, setti í jörð og lét svo ummælt, að það sem upp af henni yxi myndi bera ávöxt á jólum hvert ár þaðan í frá. Jólatré voru í fyrstu eingöngu skreytt hnetum og eplum og þvíumlíku.

Fjölmargar sagnir eru um tilkomu jólatrésins.

[Upphaflega birt í Morgunblaðinu 2. desember 2007; myndin hér er þó önnur.]
Mynd: Fengin af Netinu.


Texti: Sigurður Ægisson
| sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is