Jólaminningar Valgeirs


Valgeir Tómas Sigurðsson veitingamaður er fæddur á Siglufirði í október 1947 og alinn þar upp. Foreldrar hans voru Sigurður Jóhannesson bifreiðastjóri, f. 1903, d. 1972, og Sigríður Anna Þórðardóttir frá Siglunesi, f. 1913, d. 1992. Valgeir rekur Hafnarkaffi á Siglufirði.

?Margar skemmtilegar minningar frá jólum rifjast upp þegar litið er til baka og ætla ég að segja frá nokkrum þeirra.

Fyrsta minningarbrotið er frá því um 1950 en þá var lítið vöruval í verslunum og fólk varð að bjarga sér með því sem það hafði eða gat keypt. Þessi jólin varð að útvega jólatré þar sem það sem notað hafði verið brann jólin áður. Var þá brugðið á það ráð að Þórður bróðir myndi búa til jólatré eins og það sem brunnið hafði en þetta var jólatré úr kústskafti. Boruð voru göt sitt á hvað á skaftið og gegnum götin voru settir snúruvírar úr gömlum rafmagnskapli. Skaftinu var stungið í trékubb og bómull sett á kubbinn. Grænum kreppappír var vafið um ?greinarnar? og litu þær í minningunni alveg út eins og greinar á grenitré. Á greinarnar voru síðan hengdar pappírskörfur sem í voru smákökur. Mikið þótti okkur gaman að fá smáköku af jólatrénu. Á tréið voru síðan klemmdir kertahaldarar sem í voru lítil lifandi kerti. Þegar ?kveikt? var á trénu var það svakalega fallegt og spennandi. Eftir jól var tréð brotið saman og geymt fram að næstu jólum. Eftir einhver ár var klemmukertahöldurunum skipt út fyrir rafmagnsseríu og var jólatréð notað þar til ?greinarnar? fóru að liðast í sundur. Þá var því hent og gervijólatré kom í staðinn.

Annað minningarbrot tengt jólum er þegar Birgir Runólfsson kom á flutningabílnum með epli og appelsínur. Ávextirnir voru skammtaðir og hjá okkur geymdi mamma, Sigga á Nesi, þá í læstri geymslu. Við krakkarnir fórum reglulega niður og lögðumst að skráargatinu og þefuðum. Ilmurinn af eplunum og appelsínunum var svo góður að við fengum vatn í munninn. Jólaávaxtamarkaður Jónasar á Nefstöðum var í bílskúr sunnan við Norðurgötu 5 og var hann með vínber. Vínberin komu í trétunnum og var korkur notaður til að forða þeim frá hnjaski. Við strákarnir fengum það verk að hrista korkinn af vínberjaklösunum og laumuðumt til að stinga upp í okkur beri og beri og var það mikil upplifun. 

Stór hluti af jólastemmingunni á Sigló forðum daga var útstillingin í kjötbúðinni en hún var svo flott að beðið var eftir henni með mikilli eftirvæntingu. Kjötbúðin var þar sem Sigló Sport er nú til húsa og var stóru matarborði stillt upp í búðinni. Á því var bókstaflega allt sem hægt var að hugsa sér. Þar var m.a. hin fræga Hamborgarapylsa sem var uppfinning Eldjárns Magnússonar og hefur hún að mínu mati örugglega bara verið fáanleg á Siglufirði. Eftir á að hyggja var umrædd útstilling á heimsmælikvarða en ég hef bæði unnið mikið með mat og ferðast víða og tel mig því vel dómbæran. Útstillingin sýndi og sannaði hvað Eldjárn var flinkur kjötiðnaðarmaður. Hamborgarapylsuna hef ég hvergi séð aftur.?

Valgeir Sigurðsson.

Sigríður Anna Þórðardóttir og Sigurður Jóhannesson.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]