Jólaminningar Þorvaldar


Þorvaldur Halldórsson er fæddur á Siglufirði í október 1944 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Halldór Þorleifsson verkamaður, f. 1908, d. 1980, og Ása Jónasdóttir, f. 1916, d. 1998. Þorvaldur er rafvirki að mennt en hefur lengi starfað sem söngvari. Kona hans er Margrét Scheving, f. 1944.

?Ég var fjögurra ára þegar við fluttum neðst af Eyrinni og upp á Brekkuna, í litla húsið. Við vorum orðin fjögur systkinin þegar við fluttum, ég elstur, síðan tvær systur, Sigga og Valla, og svo Leifur sem var nýfæddur. Svo bættust í hópinn á næstu árum bræður þrír, Jónas, Þorleifur og Pétur.

Það fór auðvitað svolítið fyrir þetta stórum barnahópi og foreldrarnir voru uppteknir við að sjá um heimili og afkomu. Okkur, sem elst vorum, var oft ætlað að hafa ofan af fyrir þeim yngri, þegar við fórum að stálpast.

Þegar leið að jólum var mikið að gera við undirbúning. Mamma bakaði og gerði hreint, hugaði að jólfötum barnanna og öðru slíku. Pabbi var líka upptekinn, það þurfti að gera við ýmislegt í húsinu, mála og lagfæra, því að allt skyldi vera hreint og fágað þegar jólin kæmu og ?Hvert fátækt hreysi höll nú er, því Guð er sjálfur gestur hér,? eins og við lærðum að syngja í jólasálminum ?Í Betlehem er barn oss fætt.?

Já, við lærðum að syngja jólasálmana og jólalögin sem voru sungin þegar við gengum í kring um jólatréð. Við lögðum töluverða áherslu á að geta sungið sálmana og að kunna lögin og við elstu krakkarnir æfðum okkur og kenndum þeim yngri að syngja með. Í minni minningu var þetta liður í undirbúningi okkar systkinanna fyrir jólin og ég hef búið að honum alla tíð síðan.

Svo komu jólin, heilög hátíð, og það má segja að allt hafi breyst úr ys og þys í kyrrð og frið, í eitthvað stórt sem ekki var hægt að festa hönd á, en sem kom og var, heims um ból, jólin, Guð í Jesúbarninu.

Auðvitað var óþreyja og eftirvænting í barnssál, sem erfitt var að hemja þegar allir áttu að vera stilltir og prúðir, en jólatréð og pakkarnir biðu. Það lærðist þó smátt og smátt, alla vega að vissu marki, og eftir situr ljúf minning, blönduð trega, en rifjast auðveldlega upp eftir tæp sextíu ár og veitir notalega kennd.

Þetta voru minningar um æskuheimili mitt allt þar til ég fór að heiman haustið rétt áður en ég varð 16 ára, en það er önnur saga.?
?Í litla húsinu með rauða þakinu, fast upp við kirkjugarðsvegginn, áttum við heima, systkinin sjö og mamma og pabbi, Ása og Doddi. Þetta er ekki stórt hús, rúmir þrjátíu fermetrar að grunnfleti og ris þar sem við sváfum, að minnsta kosti allt að átta manns í einu herbergi. Húsið var kolakynt öll bernskuár mín og það var kolastía undir forstofunni. Pabbi vann í Tunnuverksmiðjunni og fékk að hirða sag og afsag af tunnubotnunum og þetta var notað með kolunum til að halda eldinum logandi og til að kveikja upp. Það var oft hráslagalegt á morgnana en pabbi fór fyrstur á fætur og skaraði í glæðunum sem hann hafði lag á að láta endast alla nóttina. Svo bætti hann spýtum og kolum á glóðina og þá fór fljótt að loga og það varð hlýtt og notalegt í litla húsinu.?
image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is