Jólaminningar Þórsteins


Þórsteinn Ragnarsson er fæddur í september 1951 og ólst upp á Siglufirði. Foreldrar hans voru sr. Ragnar Fjalar Lárusson sóknarprestur, f. 1927, d. 2005, og Herdís Helgadóttir hjúkrunarfræðingur, f. 1928. Þórsteinn er prestur en starfar sem forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur og býr í Reykjavík. Kona hans er Elsa Sigurbjörg Guðmundsdóttir frá Siglufirði, f. 1951.

?Pabbi og mamma fluttu frá Hofsósi til Siglufjarðar árið 1955 og með þeim voru fjögur börn og tvö bættust við á Siglufirði. Faðir minn, séra Ragnar Fjalar Lárusson, var þar prestur á árunum 1955-1968 og móðir mín, Herdís Helgadóttir, var skólahjúkrunarkona við Barnaskóla Siglufjarðar. Föðuramma mín, Jensína Björnsdóttir frá Miklabæ, var á heimilinu og aðstoðaði foreldra mína við heimilishaldið og uppeldi okkar systkinanna. Gott var að alast upp á Siglufirði, samfélagið þar var gott og flestar aðstæður voru ákjósanlegar, það er mín reynsla.

Hálfrar alda bernskuminningar, frá því um 1960, eru aðallega tengdar þremur dögum: Þorláksmessu, aðfangadegi og gamlárskvöldi.

Þorláksmessa þessara ára er ógleymanleg. Í minningunni var ávallt snjór á Siglufirði um jól og áramót. Það var óendanlega gaman að fara í bæinn og fara búð úr búð í mannþrönginni og skoða allt sem á boðstólum var. Aðalgatan var full af fólki á þönum með fangið fullt af pinklum. Sumir voru með sleða í eftirdragi en aðrir renndu sér á sparksleðum og fjöldinn kvíslaðist út í hliðargötur, þar sem álitlegar búðir voru með jólavarning. Okkur strákunum þótti einnig spennandi að fylgjast með þeim sem voru ekki beinlínis í jólagjafahugleiðingum heldur tóku forskot á gamlárskvöld og voru búnir að fá sér neðan í því og höfðu undir höndum smásprengjur, sívala vafninga, sem kallaðar voru ?banditar?. Þessar innfluttu sprengjur framkölluðu gríðarlegan hávaða með miklum hræðsluviðbrögðum fjöldans sem fórnaði höndum og hrópaði upp og hörfaði undan þeim sem lögðu sig fram um að hrekkja góðborgarana og trufla þá við jólainnkaupin, sérstaklega þegar sprengt var innandyra. Ekki veit ég til þess að nein alvarleg slys hafi hlotist af þessum hrekkjum en mér er ekki grunlaust um að heyrn margra, sem voru að fikta við þetta, væri skárri nú ef þessum strákapörum hefði verið sleppt.

 

Aðfangadagskvöld var hápunktur tilverunnar á þessum árum. Kvöldið var umvafið helgi og fyrirheitum um allt sem gott var í heimi hér. Þessi tími hafði í sér fólginn dulmögnuð áhrif sem náðu hámarki þegar allt varð heilagt klukkan sex, en þá hófst hátíðarmessan í Siglufjarðarkirkju. Kirkjan var sneisafull og allir voru klæddir í sitt besta púss. Óhætt er að segja að boðskapurinn um Jesúbarnið og sálmarnir veittu jólunum inn í hug og sál og stundin í kirkjunni var staðfesting á því að framundan væri sérstakur tími, tími sem ekki átti sér samsvörun í daglegu lífi.

Hamborgarahryggurinn með sykursteiktum kartöflum og rauðkáli beið heima og á boðstólum var fágæti eins og epli og appelsínur, gos og sælgæti. Hámarki náði tilveran þegar jólapakkarnir voru opnaðir eftir margra daga spennu, en það var þó ekki gert fyrr en búið var að ganga frá í eldhúsinu og elstu krakkarnir höfðu lesið jólaguðspjallið.  Eftir að pakkarnir höfðu verið opnaðir var gengið í kringum jólatréð og sungnir sálmar og ýmis jólalög.

Þegar leið á aðfangadagskvöldið hófst sérstök stund á prestssetrinu. Pabbi sagði okkur framhaldssögu sem hann samdi jafnóðum og fjallaði hún um ævintýri þar sem tröll, álfar og mennskar verur voru í hlutverkum og þar var háð barátta góðs og ills. Sagan hét ?Dísa ljósálfur? og hafði hún mikil áhrif á okkur systkinin, enda urðu endalok í hvert skipti með þeim hætti að hið góða sigraði vonskuna en stundum var tæpt á því hvernig færi. Pabbi var jafnt í hlutverki sögumanns og þess á milli brá hann sér í gervi trölla, álfa, forynja og mennskra vera sem komu fram í ævintýrinu og lék hann öll hlutverkin eins og atvinnuleikari.

Já, óhætt er að segja að aðfangadagur og jólanóttin hafa algjöra sérstöðu, þegar litið er til baka til bernskujólanna. Þessi helgi og sérstaða jólanna vék síðan örlítið til hliðar á unglingsárunum en hátíðleikinn náði fyrri hæðum, þegar við Elsa áttum síðar saman jól með dætrum okkar.

Gamlársdagskvöld var leiksvið ævintýra í mínum huga. Margra daga undirbúningur við að safna í brennu hjá okkur strákunum og viða að sér ýmsum knallettum og flugeldum til að sprengja hafði það í för með sér að þessi dagur skipti verulegu máli. Mikill metnaður var hjá okkur ?Bakkaguttum? að vera ekki eftirbátar ?Brekkuguttanna? eða ?Villimanna? sem bjuggu á norðanverðri Eyrinni. Reyndar er ósanngjarnt að tala einungis um stráka í þessu sambandi. Ég man ekki betur en að margar stelpur væru eins liðtækar við söfnunina eins og við strákarnir. Oft var það háð búsetu hvaða skoðun menn höfðu á því hvaða brenna hefði verið stærst. Í minningunni var Bakkabrennan oft með vinninginn en ég veit að margir vinir mínir á Siglufirði, sem söfnuðu í brennu í öðrum hverfum bæjarins, eru mér ekki sammála. Frá heimili mínu á Hvanneyri var ekki skotið upp rakettum en við krakkarnir fengum stjörnublys til að tendra. Fremur fannst mér það ?barnalegt? og ekki var frítt við að ég öfundaði stráka sem áttu feður eða frændur sem voru sjómenn en þeir voru að skjóta upp risarakettum með rauðri sól, en þar voru á ferðinni neyðarblys sem voru útrunnin og þurfti að endurnýja. Slík stjörnuljós lýstu upp himinhvolfið yfir Siglufirði um miðnætti og rauðleitum blæ sló á snæviþakin fjöllin.

Eitt er það í minningunni sem er nokkuð sterkt og vissir töfrar eru tengdir því. Á Siglufirði voru sjónræn skipti milli ára. Nokkrir dugnaðarforkar á Siglufirði settu upp kyndillýsingu í fjallið ofan við bæinn sem myndaði ártal líðandi árs. Þar voru einnig kyndlar sem mynduðu hið nýja ár og á þeim var kveikt á miðnætti, um leið og slökkt var á gamla árinu. Bæjarbúar mændu á gamla árið mörgum mínútum fyrir miðnætti til að tryggja að missa ekki af því þegar kyndlar hins nýja árs væru tendraðir. Þessi stund var heilög og þessi hugmynd var og er frábær. Síðar tók rafmagnið við af olíukyndlunum og léttara var að skipta yfir með rofa neðan úr bæ.

Ég óska öllum Siglfirðingum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og ég þakka fyrir góðu árin á Siglufirði forðum daga.?

Jól á Hvanneyri 1965.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is