Jólaminningar Steingríms


Steingrímur Kristinsson er fæddur á Siglufirði í febrúar 1934 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Kristinn Guðmundsson útvarpsvirki og sýningarmaður, f. 1914, d. 1980, og Valborg Steingrímsdóttir, f. 1914, d. 1973. Steingrímur býr á Siglufirði. Kona hans er Siglfirðingurinn Guðný Friðriksdóttir.

?Ég á frekar gloppóttar minningar frá æskujólum mínum. Jólagjafir voru oftar en ekki mjúkir pakkar, oft laumað inn í þá spilapakka og litlum kertum, sem voru látin loga í snjóhúsum við leik úti við. Síðar, þegar leskunnáttan tók völdin, færðust gjafirnar meira til bókaformsins.

Móðir mín fór með okkur systkinin til kirkju á aðfangadag, en ég man ekki til þess að faðir minn hafi verið eins kirkjurækinn og hún. Ég fékkst þó ekki til að fara með þeim mæðgum eftir 11 ára aldur, varð snemma fráhverfur öllu bænahaldi og trú, þar sem sérviska mín vildi fá fleiri svör en móðir mín og síðar hinn indæli maður, séra Óskar J. Þorláksson gátu gefið mér.

Eitt lítið tákn er mér þó eftirminnilegt, ekki vegna trúarinnar, heldur minningarinnar. Móðir mín hafði fengið fylgiblað með dönsku blöðunum þar sem klippa mátti út jólaskraut. Þar var engill sem klipptur var út og límdur saman þannig að mynd var á báðum flötum. Engillinn var fyrst hengdur á jólatréð í Mjóstræti 1 um jólin 1933, meðan hún gekk með mig, og síðan um jólin 1934, árið sem ég fæddist, og síðan á öll jól meðan ég var í foreldrahúsum. Þetta tákn, sagði hún mér síðar, að hefði verið eignað mér. Hún færði konu minni þennan engil um jólin þegar við Guðný stofnuðum fjölskyldu, hún 22 ára, ég 20 ára (með sérstöku forsetaleyfi). Konan mín hefur séð til þess að engillinn hefur hangið á jólatré fjölskyldu okkar öll jól síðan ? og hann gerir það enn.

Þessu til viðbótar er hér grein um jólahald um borð í Haferninum fyrir 42 árum. Þar var ég skipverji í siglingum á milli fjarlægra landa, oft marga mánuði án þess að koma heim til Íslands. Skipstjórinn hvatti mig til að skrifa um jólahaldið um borð og senda Morgunblaðinu, en á þessum tíma var ég fréttaritari blaðsins.?

Jólahátíð um borð í Haferninum 1968

?Jólin voru að ganga í garð. Unnið hafði verið að því fyrr um daginn að þrífa íbúðir skipverja og skreyta sali, herbergi og ganga með jólaskrauti og koma fyrir jólatrjám og greinum, ásamt tilheyrandi jólaljósum.

Kl. 18.00 að kvöldi, samkvæmt staðartíma (GMT+1), var kvöldverður. Skipverjar höfðu klæðst sparifötum í tilefni jólanna. Gómsætur kalkúni var á borðum ásamt tilheyrandi fylgiréttum og ljúffengur eftirréttur. Skipverjar tóku vel til matar síns, eins og við var að búast, en eftir matinn fóru flestir til herbergja sinna, sumir til að opna jólapakka að heiman og lesa bréf og jólakort frá vinum og ættingjum.

Haförninn var á siglingu á Eystrasalti, á leið til Ventspils í Rússlandi. Komutími var áætlaður kl. 22.00 um kvöldið. Fréttir höfðu borist um að við mundum ekki fá hafnarpláss strax og yrðum því að kasta ankerum. Fimm liðir voru látnir falla og skipið lá nær hreyfingarlaust í ágætisveðri, suðaustan tveimur vindstigum en þokulofti. Kl. 22.30 söfnuðust skipverjar saman í hásetaborðsal og drukku saman kakó og kaffi með ljúffengum kökum og tertum.

Kl. 23.00 var safnast saman upp í ?salon? og þar mættu allir skipverjar, nema einn, sem var á vakt. Þar sungu skipverjar jólasálma og skipstjórinn, Sigurður Þorsteinsson, las jólaguðspjallið. Að lokinni þessari hátíðarstund tilkynnti skipstjórinn að skipverjum hefðu borist jólapakkar, einn handa hverjum skipverja, en pakkarnir væru frá Kvenfélaginu Hrönn í Reykjavik. Væri það venja þessara kvenna að senda skipshöfnum fraktskipa, sem væru fjarverandi frá heimilum sínum á jólunum, jólaglaðning. Og svo sannarlega var þessi sending til okkar jólaglaðningur. Hún gladdi okkur alla eins og við værum börn. Dregið var um hvern pakka og varð viðkomandi skipverji, hverju sinni, að opna pakka sinn í augsýn félaga sinna og var oft mikil spenna og eftirvænting að sjá hvað innihaldið væri, ekki aðeins þeim sem hrepptu pakkana og opnuðu þá, heldur og allri skipshöfninni. Aðeins einn pakki var afhentur í einu og sá næsti ekki afhentur fyrr en viðkomandi var búinn að sýna hvað hann hafði fengið. Hver skipverji hafði sitt númer, en sonur skipstjórans, sem komið hafði um borð í síðustu höfn til að vera hjá pabba sínum um jólin, dró út númerin úr skál hjá fyrsta stýrimanni Guðmundi Arasyni.

Fyrsta númerið sem var dregið var númer 16, en það átti timburmaðurinn, eða undirritaður, og var jólagjöf til mín frá Kvenfélaginu Hrönn, falleg lítil keramikskál, íslenskur iðnaður. Þakkaði ég hjartanlega fyrir mig. Þessi stund, þegar jólapakkarnir 23 til skipverja voru afhentir, er mér ógleymanleg, og veit ég að svo er með fleiri skipverja um borð, ef ekki alla. Það er ekki innihald pakkanna eða verðgildi þeirra sem gleður okkur, heldur hugurinn sem fylgdi sendingunum. Við vissum að það voru fleiri en ástvinir okkar sem hugsuðu hlýtt til okkar. Og við virðum og dáumst af þessum kvenfélagskonum.

Til gamans ætla ég hér að segja frá einu af mörgum skemmtilegum atvikum varðandi afhendingu þessara pakka. Einn skipsfélaga okkar hafði þann leiða ávana (eins og raunar margir) að naga á sér neglurnar þegar hann hugsaði eða var spenntur. Jólagjöfin hans frá kvenfélaginu var ekki aðeins mjög nytsöm heldur vakti almenna kátínu og hlátur félaga hans ? og hans sjálfs ? en það var vandað naglasköfusett með klippum og tilheyrandi, svo hann átti ekki þess vegna að þurfa að naga á sér neglurnar í framtíðinni. ?En hvernig vissu þær þetta?? spurði hann í gríni á eftir. Þetta var vinur minn og skipsfélagi Sigurður Jónsson frá Eyri.

Þessi jól voru mín þriðju um borð í Haferninum og eru mér eftirminnilegust. Þakka ég það að mestu Kvenfélaginu Hrönn.?

?Engillinn var fyrst hengdur á jólatréð í Mjóstræti 1 um jólin 1933, meðan hún gekk með mig,

og síðan um jólin 1934, árið sem ég fæddist, og síðan á öll jól meðan ég var í foreldrahúsum.

Þetta tákn, sagði hún mér síðar, að hefði verið eignað mér.

Hún færði konu minni þennan engil um jólin þegar við Guðný stofnuðum fjölskyldu,

hún 22 ára, ég 20 ára (með sérstöku forsetaleyfi).

Konan mín hefur séð til þess að engillinn hefur hangið á jólatré fjölskyldu okkar öll jól síðan ? og hann gerir það enn.?

Sigurður Þorsteinsson skipstjóri á Haferninum les jólaguðspjallið.

 

Sonur skipstjórans, sem var um borð með föður sínum, dregur úr skál hjá Guðmundi Arasyni, fyrsta stýrimanni,

númer skipverjans sem hreppir næstu jólagjöf frá Kvenfélaginu Hrönn.

Aðrir á myndinni eru Sigurjón Kjartansson dælumaður,

og Sigurður Ólafsson sem var smyrjari um borð um tíma, sonur fyrsta vélstjóra.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is