Jólaminningar Rakelar


Rakel Björnsdóttir viðskiptafræðingur er fædd á Siglufirði í september 1965 og alin þar upp. Foreldrar hennar eru Björn Jónasson fv. sparisjóðsstjóri, f. 1945, og Guðrún Margrét Ingimarsdóttir (Bettý), f. 1945, d. 1976. Rakel býr í Garðabæ. Maður hennar er Thomas Fleckenstein. Hún er nýkjörinn formaður Siglfirðingafélagsins í Reykjavík.

?Ég er ein af þessum heppnu. Svo heppin af því að ég fæddist á Siglufirði og get og má grobba mig af því á hverjum degi að ég er Siglfirðingur. Þegar ég er að fæðast árið 1965 er Siglufjörður heimsborg. Tímabilið er lok hinna mjög svo rómuðu síldarára og íbúafjöldinn um 2600 manns.

Verslun og viðskipti stóðu í blóma og fyrir jólin var engin ástæða fyrir fólk að leita í önnur bæjarfélög til að eyða peningunum sínum.  Í bænum fékkst allt sem vantaði fyrir jólin. Hátískuföt hjá Önnu Láru og Kalla í Álfhól, þar sem Kidda Hannesar var áður, byggingarefni í Einco, bækurnar í glæsilegri Aðalbúðinni hjá Bigga, skórnir hjá Óla Tór, plöturnar í Rafbæ, blómin í Ögn hjá Guggú og  jólamaturinn í Fiskbúðinni, Kaupfélaginu og í Verslunarfélaginu. Allt voru þetta verslanir sem iðuðu af lífi fyrir jólin og Billinn og Hótelið, sem voru helstu samkomustaðir okkar á unglingsárunum, nutu einnig góðs af jólaösinni.

Mér er verslunin Rafbær sérlega minnistæð en þar keypti ég mína fyrstu hljómplötu. Fyrir valinu varð plata með hljómsveitinni 10 cc. Ég hafði ætlað að kaupa þyrluplötuna með Abba en Sigríður Svansdóttir,  tveimur árum eldri en ég, var inni í búðinni og sagði að Abba væri halló – 10 cc væri miklu flottara og því fór ég með þá plötu út.

Fram til 12 ára aldurs voru jólin mín á Brekkunni. Nánar tiltekið á Hávegi 3 eða á Hverfisgötu 8, þar sem amma Hrefna og afi Jónas bjuggu. Laufabrauðsgerð var fastur liður hjá fjölskyldunni á Hverfisgötunni og kom þá öll fjölskyldan saman og skar út um 200 kökur með hinum ýmsu jólamynstrum. Fjölskyldan var og er mikið kirkjufólk, báðir afarnir mínir Jónas Björnsson og Ingimar Þorláksson sungu í kirkjukórnum og pabbi, Björn Jónasson syngur með kórnum í dag. Það er hefð fyrir því í fjölskyldunni að sækja aftansöng klukkan 18 á aðfangadag.

Jólatréð á torginu og ártalið í Hvanneyrarskálinni eru að sjálfsögðu mjög minnistæð en efst í minningunni eru þó þeir viðburðir þar sem maður var beinn þátttakandi; litlu jólin í skólanum og jólaböllin. Yndislegar minningar tengjast litlu jólunum í músastigaskreyttum barnaskólanum. Ekki skipti máli hvort maður fékk að leika Grýlu, fjárhirði eða Gilitrutt í jólaleikritunum, það að vera með var það sem skipti máli. Á jólaböllunum hjá Kiwanis og Lions vorum við krakkarnir þátttakendur og fengum að syngja með Gautunum. Þar stjórnaði Elías Þorvaldsson tónlistinni af sinni alkunnu snilld.

Ég læt fylgja með tvær myndir frá þessum uppákomum en þá fyrri tók Júlíus Júlíusson af okkur Bryndísi Birgisdóttur, Mundínu Bjarnadóttur og mér að syngja á jólaballi Kiwanis. Binna söng lagið Litla jólabarn og lokaði sig svo inni á klósetti því hún mundi ekki allan textann. Ég söng lagið um Línu Langsokk komin í kjól eftir að hafa harðneitað að vera í brúnu buxunum. Mundý söng Ég sá mömmu kyssa jólasvein og tókst henni vel upp, enda syngur hún með Gómunum í dag, en við Binna raulum í sturtu.

Á seinni myndinni höfum við fengið liðstyrk af þeim Bylgju Hauksdóttur, Guðlaugu Sverrisdóttur, Margréti Dóru Árnadóttur, Kristínu Einarsdóttur og fleirum.

Þetta eru þær minningar helstar tengdar bernskujólum á Siglufirði sem komu upp i hugann við þessi skrif. Ég er svo heppin að geta ennþá eytt jólunum á Siglufirði þegar ég vil og hef þá tækifæri til að rifja upp þessar skemmtilegu minningar. Gleðileg jól.?

Bryndís Birgisdóttir, Mundína Bjarnadóttir og Rakel Björnsdóttir að syngja á jólaballi Kiwanis.


Liðstyrkur kominn af Bylgju Hauksdóttur, Guðlaugu Sverrisdóttur,
Margréti Dóru Árnadóttur, Kristínu Einarsdóttur og fleirum.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is