Jólaminningar Jóns Sæmundar


Jón Sæmundur Sigurjónsson er fæddur á Siglufirði í nóvember 1941 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Sigurjón Sæmundsson prentsmiðjustjóri og bæjarstjóri, f. 1912, d. 2005, og Ragnheiður Jónsdóttir, f. 1914, d. 1999. Jón Sæmundur er hagfræðingur og býr í Hafnarfirði. Kona hans er Birgit Henriksen frá Siglufirði, f. 1942.

?Mikið er það gaman að hinkra við smástund í ?fyrirjólaannríkinu? og láta hugann reika aftur í ljúfar rósarauðar æskuminningar á Siglufirði í kring um jólin, að ósk frænda míns, sr. Sigurðar á Siglufirði.

Það er svo margt sem mér er eftirminnilegt frá æskujólunum að ég get varla valið. Fyrst og fremst var það e.t.v. hin sérstaka jólastemming sem var engu lík. Mamma stjórnaði allri atburðarásinni á aðfangadag, hvenær við systir mín máttum skreyta jólatréð, hvenær mátti setja jólapakkana undir tréð eftir að hinir og þessir felustaðir jólagjafa voru upplýstir og hvenær hver átti að fara í bað og byrja að punta sig fyrir kirkjuna, jólamatinn og opnun jólagjafanna – allt í þessari röð.

Pabbi var venjulega örþreyttur á aðfangadag, því hann hafði unnið alla nóttina við að prenta jólablöðin, sem hver stjórnmálaflokkur gaf út, þannig að síðasta blaðið yrði í síðasta lagi tilbúið á aðfangadagsmorgun.

Matarilminn lagði um allt hús og þar sem rjúpur voru eiginlega bara borðaðar á aðfangadagskvöld allt árið, þá var þetta jólailmurinn – og er það ennþá. Annar ilmur var að vísu einnig fastbundinn jólunum, en það var eplailmurinn í byrjun desember, sem boðaði ótvírætt komu jólanna.

Ég borða ekki rjúpur, þannig að mamma lagði það á sig að elda sérstakan mat handa mér, sem ég fæ ætíð síðan á hverjum jólum meðan konan mín borðar rjúpur og tekur á sig að elda sérstaklega fyrir mig. Ég ætla ekki að gefa upp neinar uppskriftir, en réttur þessi er gerður úr saltkjöti og það er alveg bráðnauðsynlegt að hann sé borðaður með rjúpnasósu. Þess vegna segi ég að helstu kostir rjúpna séu sósan og ilmurinn, sem er ennþá hinn sérstaki jólailmur!! Eplin hafa algjörlega misst marks sem jólailmgjafi, verandi til allt árið.

Smá synd verð ég að játa sem ég drýgði um hver jól lengi vel, sem er svo sannarlega eftirminnileg, en það bar svo við, að við jólaborðhaldið kom að því að ég sullaði ævinlega úr fullu glasi af jólaöli, malti og vallas, yfir allt borðið. Það biðu allir spenntir eftir að það kæmi að þessu atriði, en það var ekki hægt að tímasetja það nákvæmlega því það gerðist alltaf óvart. Þá skellihlógu allir og ég vissi lengi vel ekki hvort ég ætti að hlægja með eða skammast mín. En smá knús frá mömmu tók af allan vafa.

Það voru vissulega eftirminnilegar stundir þegar kveikt var á stóra jólatrénu á ráðhústorgi eftir að vinir okkar í Herning í Danmörku tóku upp á þeim góða sið að senda okkur þennan glaðning. Ég man að það voru töluverð vonbrigði þegar lúðrasveitin var orðin svo góð að allt hljómaði í takt og enginn lúðurinn skar sig úr, svona alveg á óvart. Það var nefnilega ein aðal skemmtunin þegar lúðrasveitin var á sínum allra fyrstu árum að spreyta sig á einhverjum lögum sem öllum var eiginlega hulin ráðgáta hver voru og sérhver lúður fór sínar eigin leiðir við þá iðju. Það gerði enginn lítið úr þessu, heldur var þetta bara hluti af græskulausu gamni stundarinnar þarna við jólatréð.

Önnur jólakveikja er mér einnig sérstaklega eftirminnileg, en það var á þeim tíma sem við áttum enga jólaseríu heldur settum lítil kerti á jólatréð í stofunni hjá okkur, sem loguðu á trénu. Eitt sinn fór svo illa að eldurinn komst í skreytingu og síðan í tréð sjálft þannig að það stóð í ljósum logum í miðri stofunni. Við þurftum fyrst að vekja pabba, sem hafði fengið sér lúr eftir jólamatinn, eiginlega við hliðina á jólatrénu, en hann brást við ótt og títt og bar jólatréð út úr stofunni eins og kyndil, út ganginn og fram í forstofu og síðan sveif það niður tröppurnar og niður á Suðurgötuna eins og logandi halastjarna. Það var enginn vafi, að pabbi var ?my hero?!!!

Biðröðin í kjötbúðinni fyrir jólin er ekkert sérstaklega eftirminnileg, nema hvað ég man eftir henni sem mikilli hópsamkomu þar sem Óli Geir, Elli Magg, Eddi Páls, Mæja Halla, Heiða Rögg og Ragnar verslunarstjóri höfðu greinilega mikið að gera.

Það sem var mun merkilegra í minningunni var þröngin fyrir utan glugga kjötbúðarinnar, sem beið eftir því að Kjötkrókur birtist innan dyra eitthvað kvöldið eftir lokun og léti öllum illum látum innan um allt það gómsæta sem þar var að finna. Þessi atburður var fast atriði fyrir öll jól og mikið tilhlökkunarefni hjá ungum sem öldnum og alltaf jafn skemmtilegt og spennandi. Ég held að sjaldan eða aldrei hafi nokkur verslun boðið upp á jafn vel heppnaða auglýsingu og athygli og kjötbúðin gerði í þá daga. Þetta er algjörlega ógleymanlegt í minningunni.

Jólamessan í kirkjunni var fastur liður hjá minni fjölskyldu. Mamma söng í kirkjukórnum þannig að hún sat aldrei hjá okkur í kirkjunni. Pabbi sat með okkur systkinunum niðri og ég man að mér fannst hann alltaf syngja allt of hátt þannig að allir heyrðu. Það var auðvitað ótækt.

Sr. Óskar J. Þorláksson var prestur á þessum tíma og ein jólin varð ég algjörlega hugfanginn af frammistöðu og frásagnarlist hans, þannig að ég tók að sækja allar barnamessur fyrir hádegið á sunnudagsmorgnum til að teygja úr jólastemmingunni alveg fram í febrúar. Þá gerðist nokkuð sem batt snarlega enda á kirkjusókn mína. Mér fannst alveg sjálfsagt að sitja á fremsta bekk í kirkjunni eins og við gerðum í bíó. Hinum meginn á fremsta bekk sat frú Elísabet, kona prestsins, sem tók auðvitað eftir þessum nýja fastagesti. Einn sunnudagsmorguninn tók hún sig til og gekk yfir til mín og klappaði mér á kollinn frammi fyrir öllum söfnuðinum. Þetta var auðvitað algjör niðurlæging, þótt sjálfsagt hafi engum öðrum fundist þessi elskulegi gjörningur fela það í sér. En mikið var, að móðir mín fékk aldrei útskýrt hvers vegna ég varð allt í einu algjörlega ófáanlegur til að fara aftur í barnamessu eftir þetta. Ég hlýt að hafa verið tiltölulega feiminn ungur maður.

Aðalgatan á Þorláksmessukvöld var ævintýragata. Mannfjöldinn og ljósin og ysinn og þysinn og allar búðir opnar langt fram á kvöld. Allir voru í góðu skapi og margir voða mikið að flýta sér. Þótt allir væru að versla og kaupa jólagjafir, þá var áberandi meiri kaupstaðalykt af sumum körlunum, þótt þeir væru kannski ekki að kaupa nokkurn skapaðan hlut. Það lá hins vegar einhver sérstök og dulin spenna og eftirvænting í loftinu, sem allir virtust hrífast af, og við gengum um Aðalgötuna okkar þetta kvöld í þeirri vissu, að hvergi væri betra að vera.?

Fjölskyldan á góðri stund.
image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]