Jólaminningar Guðnýjar


Guðný Pálsdóttir er fædd á Siglufirði í nóvember 1943 og alin þar upp. Foreldrar hennar voru Páll Magnússon bifreiðastjóri, f. 1918, d. 1974, og Auður Jónsdóttir, f. 1921. Guðný er grunnskólakennari að mennt og býr á Siglufirði. Maður hennar er Hafþór Rósmundsson, f. 1943.

?Að rifja upp jól bernskunnar getur verið eins og að reyna að skoða aftur í gráa forneskju. Best væri líklega að skoða  Öldina okkar alveg frá stríðsárum til að reyna að grafa upp siði og venjur og heimfæra upp á sína eigin barnæsku. Svo langt getur manni fundist síðan maður var barn í nyrsta kaupstað á Íslandi þar sem snjór er með fyrstu minningunum og ullarvettlingar fullir af klakakleprum togaðir af köldum barnsfingrum og lagðir á ofn.

Þegar skyggnst er nánar þá koma upp myndir sem stoppa rétt svo stutt að varla er hægt að festa þær á blað. Þetta er upplifun okkar sem erum ótrúlega gleymin og höfum ung yfirgefið æskustöðvarnar og upplifað önnur jól og ef til vill öðruvísi. En leitum á vit minninganna.

Það kemur upp mynd af spýtujólatréi standandi inni í betri stofunni með bómull á greinum og lifandi ljósi á endanum. Mamma tekur okkur vara við að koma ekki of nálægt svo ekki sé hætta á að kvikni í. Tíminn sem var svo lengi að líða þegar nær dró aðfangadagskvöldi hann þýtur núna áfram og ekkert fær stöðvað hann. Kirkjuferðir alltaf þegar veður leyfði þóttu sjálfsagðar, enda hluti af hátíðleikanum að sitja í grámáluðum bekkjum kirkjunnar, hlusta á Pál Erlendsson organista spila og syngja með kirkjukórnum alla jólasálmana en kannast ekkert við þennan söng sem presturinn og kórinn sungu sín á milli og var stundum alveg óþarflega langur. Pakkarnir biðu jú.

Maturinn beið líka, hryggurinn í ofninum og kartöflur tilbúnar til að brúnast. Möndlugrautur og möndlugjöf, sem oftast var marsipankonfekt. Hangikjöt borðað á jóladag og gömul uppskrift af eftirrétti sem heima hjá mér hét rjómarönd í karmelusósu og var mjög góð.

Nýir jólakjólar voru skylda. Enginn mátti fara í jólaköttinn. Bestu jólagjafirnar voru bækur, en þó sagði mamma mér að þegar ég var lítil hafi ég fengið dúkku en bróðir minn bíl og ég hafi ekki verið par hrifin. Vildi fá bíl líka, enda ólíkt meira spennandi að þeysa um stofuna á öðru hundraðinu.

Jólaljósin lifa líka í minningunni, einnig hangikjötslyktin og ómur kirkjuklukkunnar sem hringdi inn jólin klukkan sex. Við erum svo sem að upplifa þetta enn þann dag í dag. Við höldum jól á hefðbundinn hátt, jafnvel þegar við eyðum þeim úti í fjarlægum löndum. Vantar bara hangikjötslyktina!?

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is