Jólaminningar Arnfríðar


Arnfríður Guðmundsdóttir er fædd á Siglufirði 1961 og alin þar upp. Foreldrar hennar eru Guðmundur Jónasson, búfræðingur og fyrrverandi útibússtjóri Kaupfélags Eyfirðinga á Siglufirði, f. 1918, og Margrét María Jónsdóttir, húsfreyja og fyrrverandi afgreiðslukona, f. 1927. Arnfríður er prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Eiginmaður hennar er sr. Gunnar Rúnar Matthíasson frá Akureyri, f. 1961.

Jólin koma

?Minningar af bernskujólum mínum eru óneitanlega mjög tengdar annríkinu sem fylgdi jólaösinni í Kaupfélaginu. Það sást frekar lítið til pabba heima vikurnar fyrir jólin og þegar ég stálpaðist fór ég sjálf að taka virkan þátt í jólatraffíkinni með honum. Hámarkinu var að sjálfsögðu náð á Þorláksmessukvöld þegar opið var í búðum til klukkan ellefu og engu líkara en allir bæjarbúar væru mættir í bæinn, svo mikil var ösin.

Heima hjá okkur var vaninn að skreyta ekki tréð fyrr en á Þorláksmessukvöld og oft var komið fram yfir miðnætti þegar loks fannst tími til að taka fram jólatréð og hefjast handa. Annríkið hélt áfram á aðfangadag því að allt þurfti að vera tilbúið þegar kirkjuklukkurnar kölluðu til aftansöngs klukkan sex. Vitaskuld hvíldi jólaundirbúningurinn heima að mestu leyti á mömmu. Hún sá um að heimilisfólkið væri klárt til að fara í kirkjuna á meðan hún lauk við að hafa til hátíðarmatinn sem beið á borðinu þegar við komum heim úr kirkju. Ég skal ekki neita því að það hafi komið fyrir að við dottuðum þegar við loksins settumst niður á kirkjubekkinn og ró og friður færðist yfir okkur. Það var eins og við flyttumst á milli tímabelta þegar hátíðin gekk í garð, þegar við þurftum ekki lengur að keppa við tímann og gátum þess í stað notið stundarinnar og tekið á móti. Það er erfitt að lýsa þeirri tilfinningu sem fylgdi því að hlusta á jólaguðspjallið og taka undir sönginn. Eitt er víst að það fór ekki á milli mála að eitthvað hafði gerst þegar við gengum heim úr kirkju að aftansöngnum loknum. Jólahátíðin var gengin í garð.

Allt var breytt. Það er erfitt að lýsa því með orðum, en það var helgi í loftinu. Það var engu líkara en við önduðum að okkur leyndardómi jólanna. Í bænum ríkti nú kyrrð og friður þar sem stemming markaðstorgsins hafði ráðið ríkjum fáum klukkustundum áður. Ljósin í gluggunum minntu á ljósið sem lýsti upp myrkrið hjá hirðunum forðum daga. Helgin og eftirvæntingin hafði náð tökum á okkur og við gengum heim sæl og glöð, fullviss um að jólin væru komin til að vera.?

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is