Tvö ný jólalög úr Fjallabyggð


Alls bárust tæplega 80 lög í Jólalagakeppni Rásar 2 að þessu sinni, en sérstök dómnefnd valdi fyrir nokkrum dögum tíu þeirra sem keppa munu til úrslita. Af þeim er eitt úr Fjallabyggð, lag Magnúsar G. Ólafssonar, skólastjóra Tónskóla Fjallabyggðar, við texta Inga Þórs Reyndal, og sungið af Daníel Pétri Daníelssyni. Það nefnist Gleðileg jól. Búið er að gera við það myndband sem hægt er að skoða hér neðar á síðunni.

Úrslitalögin munu hljóma á Rás 2 til 18. desember auk þess að vera aðgengileg á vef RÚV, þar sem landsmenn geta kosið sitt uppáhalds. Þann 19. desember verður loks tilkynnt hvaða lag sigrar og verður útnefnt Jólalag Rásar 2 árið 2014. Ólafsfirðingar og Siglfirðingar eru hvattir til að líta þar inn og gefa hinu stórgóða lagi Magnúsar og Inga atkvæði.

Annað lag var sent héðan, eftir Elías Þorvaldsson, við texta undirritaðs, sungið af Karlakórnum í Fjallabyggð, en komst ekki áfram. Það nefnist Saman um jólin.

Karlakórinn í Fjallabyggð við upptöku á laginu Saman um jólin.

Forsíðumynd: Skjáskot úr myndbandi.
Mynd af karlakór og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]