Jólaljósin tekin niður


Í dag unnu starfsmenn áhaldahúss vesturbæjar að því að taka niður
jólastjörnurnar sem prýtt hafa ljósastaurana marga hverja allt frá byrjun aðventunnar, enda nokkuð
liðið frá Þrettándanum.

En eftir á að hyggja ættum við sem hér búum kannski að taka formlega upp þann sið
að láta kyrrt liggja til og með 27. janúar, enda veitir okkur ekkert af því að
fá smá yl í sálartetrið á meðan geislar sólarinnar eru jafn fjarri og
raun ber vitni.

Og skínandi perur í öllum regnbogans litum eru barasta hreint ágætlega til þess fallnar.

Svo mætti finna eitthvert gott nafn á þennan tilbúna aukabirtutíma og gera eitthvað skemmtilegt, með hápunktinum 28. janúar.

Jólastjörnurnar hurfu ein af annarri í dag …

en verða settar upp aftur á næstu aðventu og fá þá kannski að prýða bæinn ögn lengur en núna.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is