Jólaheimabingó 10. bekkjar hefst 13. desember


Nemendur 10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar hafa undanfarna daga verið að ganga í hús í sveitarfélaginu og kynna jólaheimabingó sem þeir standa að og mun hefjast á mánudaginn kemur, 13. desember. Með þessu – og ýmsu öðru – eru þeir að safna fyrir útskriftarferð sinni sem farin verður vorið 2011.

Þótt fyrirkomulagið kunni ef til vill að koma ýmsum rótgrónum spilurum hér nyrst á Tröllaskaga dulítið spánskt fyrir sjónir, fólki sem vant er hefðbundnum spjöldum, er þetta alþekkt og traust form og ekki minna spennandi en hitt, og er t.d. það eina sem notað er í Vinabæ í Reykjavík.

Dregnar verða út 8 tölur á dag og þær síðan lesnar inn á talhólf; númerið er 878-0278. Jafnframt verða þær birtar í Samkaup úrval á Siglufirði og í Ólafsfirði.

Loka þarf öllu spjaldinu og eru vinningarnir fjórir talsins, hver öðrum glæsilegri. Þar má nefna Canon powershot myndavél, flugmiða, snyrtivörur, matarkörfur, handverk, umfelgun og út að borða, og er þó fjölmargt samt óupptalið. Og enn er að bætast við þetta frá gjafmildum styrktaraðilum.

Bingó á að tilkynna í síma 467-1299 eða 898-1147.

Þeim sem ekki eru búin að kaupa spjöld en hafa áhuga á því að vera með skal bent á að hafa samband við Mark Duffield eða Mundínu Bjarnadóttur í síma 467-1781 eða 821-1729. Hvert spjald, sem er í raun þrjú, kostar einungis 1.000 krónur.

Þessu tökum við auðvitað fagnandi, það er ekki spurning.

Hér má sjá bingóspjaldið, sem er í raun og veru þrjú spjöld, en kostar ekki nema 1.000 krónur.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is