Járnarusl fjarlægt úr bænum


Starfsmenn og tæki á vegum
málmendurvinnslunnar Furu ehf. í Hafnarfirði hafa að undanförnu verið
að hreinsa upp járnarusl í Siglufirði, við gömlu síldarverksmiðjurnar og
yst á Öldubrjótnum gamla. Er þetta gert að frumkvæði bæjaryfirvalda og
ráðgert að verkinu ljúki í dag.

Alls verða farnar fimm ferðir suður með samtals 130 tonn, en til að rúmmálsminnka efnið er notuð öflug vinnuvél með bæði klippu og krabba.

Að sögn Haraldar Þórs Ólasonar, framkvæmdastjóra, var leitað til fyrirtækisins, sem annars tengist þessu ekki á neinn hátt, og það beðið um að koma norður og bjarga hér málum, enda af þessu mikil sjónmengun.

Á vef fyrirtækisins kemur fram, að Fura ehf. hafi byrjað starfsemi sína í Garðabæ árið 1981 og hafi meginhlutverkið í upphafi verið að sinna byggingaverktöku af ýmsum toga. Frá árinu 1993 hafa orðið þau umskipti í rekstrinum að fyrirtækið hefur alfarið tekið að sér að stjórna umfangsmikilli málmendurvinnslu sem staðsett er í Kapelluhrauni í Hafnarfirði. Starfsmannafjöldinn er að jafnaði um 30 manns.

Næsti áfangastaður, eftir að héðan er farið, er Dalvík.

Skipsflakið, sem legið hefur við Öldubrjótinn í tvö ár, verður svo fjarlægt þaðan á næstunni, dregið til Hafnarfjarðar og brotið niður. Ekki þótti ráðlegt að gera það á fjöru hér.

Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar í gær.

Hér er gamall bíll, að því er virðist, á leið í gáminn.

Málmendurvinnslan Fura ehf. sér um hreinsunina.

Annað sjónarhorn.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is