Jarðskjálftinn 1838


Á Facebook-síðu Páls Einarssonar prófessors var í gær birt kort þar sem sjá má upptök níu stærstu skjálfta á Norðurlandi síðustu aldirnar. Margir Siglfirðingar muna eftir Skagafjarðarskjálftanum 1963 og þeir sem eldri eru hafa sagt að Dalvíkurskjálftinn 1934 hafi fundist greinilega á Siglufirði. En athygli vekur að skjálfti sem varð árið 1838 er talinn hafa átt upptök sín inni í Siglufirði. Ástæða er því til að rifja upp frásögn af þeim skjálfta, eins og Þ. Ragnar Jónasson lýsti í bók sinni Siglfirskur annáll:

  1. Harður jarðskjálfti varð aðfaranótt 12. júní. Sunnanpósturinn segir: „Bæir hrundu hér og hvar nyrðra í þessum jarðskjálfta, helst í Fljótum og Héðinsfirði. Björg hrundu í Drangey og Málmey í Skagafirði.“ Í Brandsstaðaannál segir að jarðskjálftinn hafi verið „svo mikill að alla felmtraði“. Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur segir í ritgerð sinni um landskjálfta: „Hrundu þá og skekktust nokkrir bæir á útkjálkum millum Eyjafjarðar og Skagafjarðar.“ Edvard E. Möller verslunarstjóri á Siglufirði lýsti skjálftunum þannig: „Hvinurinn í loftinu og fjöllunum var eins og sterkasta þrumuhljóð, fjöllin voru öll í reyk upp úr gegn af grjóti og björgum, sem niður féllu og fornir skaflar ultu niður eins og snjóflóð.“ Á hverjum bæ í firðinum, nema Hvanneyri, urðu “meiri og minni skemmdir og húshrun. Húsgaflar féllu víðast út, svo menn gátu hlaupið beint úr rúmunum út undir bert loft.“ Þorvaldur Thoroddsen segir í ritinu Landskjálftar á Íslandi að enginn efi sé á því „að Siglufjörður og næstu héruð voru miðdepill jarðskjálftans“. Skjálftar fundust allt sumarið, oft margir á dag.

Á Vísi í dag var haft eftir Ragnari Stefánssyni jarðskjálftafræðingi að ekki væru miklar líkur á stórum skjálfta nálægt Húsavík alveg á næstunni, frekar mitt á milli Grímseyjar og lands. Er það þá ekki nálægt Siglufirði?

Mynd: Af Facebook-síðu Páls Einarssonar.
Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is