Jákvæð áhrif af göngunum

„Þetta hefur verið bylting. Þótt Héðinsfjarðargöng hafi verið gífurleg fjárfesting á sínum tíma, þá voru þau lykillinn að sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, sem er orðið sveitarfélag sem dafnar, annars hefðu menn verið í vondum málum,“ segir Gunnar Birgisson, sveitarstjóri í Fjallabyggð, í samtali við Morgunblaðið, sem innti hann og sveitarstjóra Dalvíkur eftir hagrænum áhrifum Héðinsfjarðarganga á Tröllaskaga nú þegar liðin eru átta ár frá opnun.

Gunnar segir Tröllaskaga nú orðinn hluta af Eyjafjarðarsvæðinu, það hafi orðið fólksfjölgun, fleiri ferðamenn, fleiri störf og að afkoma bæjarfélagsins hafi batnað, en það er í samræmi við niðurstöður rannsóknar Háskólans á Akureyri frá 2015 sem sýnir m.a. að fólksfækkun hafi stöðvast, konum á barneignaaldri hafi fjölgað á staðnum og fleiri ferðamenn leggi nú leið sína um Tröllaskagann á ferð um Norðurland.

„Störfum hefur fækkað í sjávarútvegi vegna tækniframfara, en á móti hefur störfum fjölgað í ferðamannaiðnaði og svo eru hérna tvö líftæknifyrirtæki sem skapa störf og svo almenn þjónusta,“ segir Gunnar og bætir við að reynt sé að hafa góða umgjörð, mikilvægt sé að fá þá sem skapa störf líka. Stór höfn og löndun sé á staðnum og mikilvægt að hafa góðar samgöngur til flutninga.

Vill fleiri opinber störf

„Nú þurfum við bara að fá fleiri störf, t.d. eins og ríkisstofnanir, það er hægt að vinna svo margt rafrænt. Menn verða að hugsa um það til að halda landinu í byggð,“ segir Gunnar, það séu komnar fínar samgöngur og net en hann hefur áhyggjur af rafmagninu.

„Við eigum nóg fyrir okkur núna en það á fljótlega eftir að verða vandamál, eins og er hérna á Norðvesturlandinu. Það má ekki leggja línur neins staðar, þó að virkjanirnar framleiði nóga orku og þetta heftir atvinnuuppbyggingu hérna á Norðurlandinu,“ segir Gunnar að lokum.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins Héðinsfjarðargöng hafa haft jákvæð áhrif fyrir Dalvíkurbyggð. „Til að mynda erum við í samstarfi við Fjallabyggð í nokkrum málum, s.s. um rekstur tónlistarskóla, málefnum fatlaðra og svo er sameiginleg barnaverndarnefnd hjá sveitarfélögunum. Allt slíkt samstarf er mun auðveldara þegar samgöngur hafa styst um tugi kílómetra og eru einnig öruggari. Þá eru íþróttafélög í samstarfi, t.d. yngri flokkar í knattspyrnu hjá KF og Dalvík. Hvað varðar ferðamannastraum þá er jákvætt að hafa styttri og þægilegri tengingu á milli allra þéttbýlisstaðanna á Tröllaskaganum. Það njóta allir góðs af því.“

Þetta mátti lesa í blaði allra landsmanna í gær.

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Erna Ýr Öldudóttir | ernayr@mbl.is.
Fylgja: Fréttin í Morgunblaðinu í gær.