Jakob Sævar hlaut gullið, Smári bronsið


Siglfirðingurinn Jakob Sævar Sigurðsson vann sigur á hraðskákmóti Goðans sem haldið var í gærkvöldi í Framsýnarsalnum á Húsavík. Jakob vann fyrstu 10 skákirnar og var því búinn að tryggja sér sigurinn fyrir lokaumferðina, en hann tapaði í 11. og síðustu umferðinni fyrir Heimi Bessasyni, en sá er reyndar líka frá Siglufirði, þótt ekki hafi hann búið hér lengi.

Jakob Sævar er því hraðskákmeistari Goðans 2011.

Hermann Aðalsteinsson hreppti silfurverðlaunin með 8,5 vinninga og Smári Sigurðsson, bróðir Jakobs Sævars, krækti í bronsverðlaun með 7 vinningum. Foreldrar þeirra Jakobs Sævars og Smára eru Sigurður Helgi Sigurðsson yfirhafnarvörður og Sigríður Jónsdóttir, að Hólavegi 33. Þeir bræður hafa verið í Skákfélaginu Goðanum í Þingeyjarsýslu um nokkurt skeið og m.a. teflt fyrir þess hönd á Íslandsmóti skákfélaga.

Jakob Sævar er jafnframt skákmeistari Goðans 2011, eftir sigur á móti sem lauk í febrúar. Smári varð þá í öðru sæti. Þess má einnig geta, að Smári varð hraðskákmeistari Goðans 2006 og 2008 og Jakob Sævar 2009.

Talið frá vinstri:

Smári, Hlynur Snær, sem varð efstur í unglingaflokki, Jakob Sævar og Hermann.

Mynd: Skákfélagið Goðinn.


Texti:
Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is