Jaðrakan


Jaðrakaninn er af ættbálki strandfugla eða fjörunga, CHARADRIIFORMES, en þar er að finna 16 mismunandi ættir og þ.m.t. alla vaðfugla, máfa, þernur, kjóa og svartfugla. Hann tilheyrir þaðan snípuætt, Scolopacidae. Hún er fjölskrúðug, inniheldur um 85 tegundir fugla út um allan heim. Margar þeirra leita sér fæðu í votlendi og á sjávarströndum. Ætt þessi brotnar í sex undirættir. Jaðrakaninn fylgir þeirri sem nefnist Tringinae (ásamt t.d. stelki og spóa). Sú hefur á að skipa um 30 tegundum í níu ættkvíslum. Ættkvísl jaðrakansins heitir Limosa; þar er, auk hans, að finna þrjár tegundir. Ein þeirra, lappajaðrakan, er árviss flækingsfugl hér á landi.

Alls eru átta fulltrúar snípuættarinnar reglulegir varpfuglar á Íslandi. Auk jaðrakans eru það hrossagaukur, lóuþræll, óðinshani, sendlingur, spói, stelkur og þórshani. Af þessari ætt eru líka rauðbrystingur, sanderla og tildra, sem allar koma hingað til lands á fartíma, haust og vor, oft í gríðarstórum hópum, á leið sinni til og frá varpstöðvunum á norðanverðu Grænlandi og Norðaustur-Kanada, en varp hefur aldrei sannast á þær tegundir hér.

Jaðrakaninn er 40-44 cm að lengd, 330 g að þyngd að meðaltali (kvenfuglar 244-500 g, karlfuglar 160-400 g) og með 70-82 cm vænghaf.

Í sumarbúningi er hann rauðbrúnn að grunnlit, sem að mestu er hreinn allt frá kolli og niður á bringu, en þaðan alsettur svartleitum þverrákum um móleitt bak og hvítan eða ryðrauðan kvið. Vængirnir eru með breiðu, hvítu langbelti að ofanverðu en alhvítir að neðanverðu. Flugfjaðrir eru svartar. Stélið er hvítt, með svörtum bekk aftast. Nefið langt og beint, svart fremst en ryðrautt eða gulleitt þaðan og að nefrótum. Fætur háir, blýgráir eða svartir að lit og skaga á flugi langt aftur fyrir stél. Lithimna augna dökkbrún. Í vetrarbúningi er fuglinn hinsvegar að mestu gráleitur, þó alltaf ljósastur á kviði. Mynstur á vængjum og stéli helst óbreytt árið um kring. Bæði kyn eru mjög áþekk í útliti en karlfuglinn þó að jafnaði litsterkari aðilinn.

Jaðrakaninn á varpheimkynni á Íslandi, á nokkrum stöðum í Evrópu og um miðbik Asíu, allt austur að Kamtsjatkaskaga. Um er að ræða þrjár deilitegundir. L. l. islandica, sú er hér verpir og í Skotlandi og Norður-Noregi, er með styttra nef en hinar tvær. Að auki er rauði liturinn dekkri en á frændum hans annarsstaðar og nær lengra niður á kvið. Er munurinn greinanlegur úti í náttúrunni. L. l. limosa (þ.e.a.s. nafntegundin) verpir í Englandi, Vestur- og Mið-Evrópu og Sovétríkjunum gömlu (þó ekki norðan heimskautsbaugs), austur að Jenisei. Og hin þriðja, L. l. melanuroides, verpir, að talið er, í Síberíu hér og þar, austan áðurnefnds stórfljóts, og á ákveðnum stöðum í Mongólíu og kannski víðar.

Íslenski jaðrakaninn er eindreginn farfugl sem kemur til landsins í seinni hluta aprílmánaðar. Algengastur mun hann nú vera á láglendi Árnes- og Rangárvallarsýslu. Þar, og víðar á Suðurlandi, hefst varpið undir lok maímánaðar en eitthvað seinna í öðrum landshlutum. Hreiðrinu, að mestu ófóðraðri laut ofan í þúfnakolli, er valinn staður í grónum mýrum, flóum með þurrum blettum í, röku graslendi, jafnvel blautu kjarrlendi og (erlendis a.m.k.) á sandhólasvæðum. Eggin eru yfirleitt 3-4 talsins (örsjaldan fimm). Þau eru græn eða dökkbrún að grunnlit, alsett svarbrúnum doppum og flekkjum, litlum og stórum. Bæði foreldri sjá um áleguna. Útungunartíminn er 22-24 dagar og eru ungarnir hreiðurfælnir. Þeir verða fleygir 25-35 daga gamlir og kynþroska 1-3 ára. Ungfuglar eru rauðmóleitir á hálsi og bringu.

Aðalfæða fullorðinna er skordýralirfur, ánamaðkar, vatnabobbar og burstaormar. Ekki er vitað á hvernig æti ungarnir nærast.

Margir halda að jaðrakaninn sé nýr landnemi hér en það er rangt. Fuglinn hefur um aldir verið bundinn Árnes- og Rangárvallasýslum. En að talið er vegna loftslagsbreytinga upp úr 1920 fór tegundin svo að dreifast út fyrir það svæði, fyrst til Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu, á árunum 1920-1930. Um 1940 er talið að fuglar hafi orpið í Skagafjarðarsýslu og í kringum 1950 í Snæfells- og Hnappadalssýslu, um 1963 við Mývatn, og upp úr 1970 á Héraði. Síðan hefur tegundin dreifst um landið allt og mun í dag telja 10.000-20.000 varppör. Er hún enn í sókn.

Rödd jaðrakansins er hvell, einkum á flugi, en á jörðu niðri er meira um hröð og þvaðrandi stef. Hér áður fyrr þóttust menn jafnvel greina orð úr hljóðum fuglsins og er til um það ágæt saga. Þannig var að maður kom að á og var á báðum áttum hvort ætti að freista þess að vaða yfir eða ekki. Þá kom þar jaðrakan og sagði: „Vaddúdí” sem maðurinn og gerði en blotnaði. Þá heyrðist frá jaðrakaninum: „Vaddu vodu?” Maðurinn, sem nú var orðinn reiður yfir að hafa látið plata sig útí, steytti hnefann móti fuglinum og svaraði: „Já, ég varð votur.” Þá flaug jaðrakaninn burt og heyrðist manninum fuglinn segja í kveðjuskyni: „Vidduþi, vidduþi” og fór hann að því ráði og tók að vinda föt sín.

Í september eru flestir jaðrakanar horfnir af landi brott, til Írlands, Skotlands og þaðan allt til Frakklands, Portúgal, Spánar og Norður-Afríku. Þar er svo dvalið vetrarlangt, á sjávarleirum, við árvoga eða í mýrlendi.

Önnur heiti þessarar tegundar er mörg, langflest þó mismunandi framburðarmyndir sama orðs. Þar á meðal eru flóajaðrakan, jaðraka (í fleirtölu jaðrökur), jaðrakan (hvorugkyn, í fleirtölu jaðrakön), jaðrakani, jaðrakarn, jaðrakán, jaðrakárn, jaðraki, jaðrakka, jaðreka (í fleirtölu jaðrekur), jaðrekan, jaðreki, jaðrekja, jaðrekur, jaðrika, jaðriki, jaðrikja, jaðrikka, jaðríkja, jarðreka, jarðrekan, jarðrekja, mýraspói og stálsnípa.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is