Ísland er heimsfrægt í Kína


?Hvar sem við félagarnir höfum komið í Kína höfum við orðið þess áskynja

að flestir þekkja til Íslands og jafnvel helstu málefna landsins. Á
veitingastaðnum þar sem við snæddum bæði hund og kött sem voru listilega
matreiddir var vertinn vel heima í jarðfræði Kötlu.? Þannig hefst
áhugaverður pistill sem var að berast frá Kína, þar sem þeir Sigurjón
Þórðarson og Valgeir Sigurðsson hafa verið á ferðalagi undanfarnar
vikur. 

Áfram segir:

?Sömu sögu var að segja um leigubílstjóra nokkurn í Xiamen, en hann sagðist í óspurðum fréttum vita af því að Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sá sem að setti landið á hausinn, sæti nú í fangelsi. Bílstjórinn var snarlega leiðréttur og honum greint frá því að Geir Haarde væri einungis enn fyrir rétti og að eftir ætti að dæma í málinu. Leigubílstjórinn klóraði sér þá í kollinum og spurði hvort hann hlyti ekki örugglega þyngstu refsingu fyrir alvarleg afbrot sem hann framdi gagnvart þjóðinni en hann fékk þau svör, sér til mikillar undrunar, að þær refsingar sem hann nefndi væru ekki leyfðar á Íslandi.

Efst í huga glæsilega viðskiptafræðingsins hjá áfengisheildsalanum sem við heimsóttum var að núverandi forsætisráðherra væri samkynhneigður og að þingmaður í öðru landi hefði neitað að setjast til borðs með Jóhönnu okkar Sigurðardóttur. Eflaust hefur viðskiptafræðingurinn átt við lækninn kristna og lögþingsmanninn, Janis af Rana. Vel mátti greina mikla undrun og vissa aðdáun hjá þeirri kínversku í garð Jóhönnu fyrir að koma til dyranna eins og hún væri klædd. Með sögunni fylgdu þær upplýsingar að samkynhneigðir í Kína ættu a.m.k. enn sem komið er erfiðari daga en á Íslandi.

Engin spurning er að víða er að finna tækifæri til að eiga blómleg viðskipti við Kínverja. Þótt aðeins tiltölulega lítill hluti Kínverja sé vel efnum búinn er sá hópur mjög stór í kínverska mannhafinu. Kínverskt efnafólk er tilbúið að greiða gífurlega hátt verð fyrir gæðavöru og á það jafnt við um koníak, rauðvín, húsnæði og síðan mjólkurvörur og fiskafurðir. Í Kína má sjá talsvert af mjólkurvörum frá Hollandi, smákökur og smjör frá Danmörku og g-vörur frá Hollandi, kindavambir á 600 kr./kg, hákarlaugga á 20 þúsund kr./kg, söl og alls kyns harðfisk á háu verði. Viðbúið er að um leið og Kínverjum gefst kostur á að ferðast í auknum mæli út fyrir landsteinana getur Ísland sannarlega boðið fjölmörgum Kínverjum upp á spennandi og öðruvísi áfangastaði en er að finna í Kína.

Uppgangurinn í efnahagslífinu í Kína á sér fá fordæmi og er knúinn áfram með útflutningi á vörum sem framleiddar eru af fólki með afar lág laun. Launakostnaður fyrirtækja í Kína er mjög lágt hlutfall af heildaframleiðslukostnaði. Eflaust stjórnast launin í alþýðulýðveldinu Kína að talsverðu leyti af framboði og eftirspurn. Mannfjöldaþróunin næstu árin í Kína felur í sér að skapa þarf 25 milljónir nýrra starfa. Allar þessir milljónir nýliða sem streyma út á vinnumarkaðinn gera það að verkum að slegist er um störfin.

Kína er land mikilla andstæðna. Gríðarlegt ríkidæmi nýríkra og þróaðar stórborgir með glæsilegum stórverslunum og neðanjarðarlestakerfum er mikil andstæða við lág laun og einfaldleika dreifbýlisins.  Reyndar var það svo að á löngum rútuferðalögum um suðurvesturhluta Kína mátti sjá að hver fermetri var nýttur haganlega til landbúnaðarframleiðsu en hvergi var nokkra landvinnsluvél að sjá á þeim þúsundum kílómetra sem við ókum um. Þar gat hvergi að líta Ferguson eða traktor heldur einungis samviskusama Kínverja að yrkja jörðina. Engu er líkara en að mikil tæknivæðing nái ekki út í sveitirnar. Erfitt er að fá einhvern skilning í gríðarlega hátt húsnæðisverð en í stærri borgum kostar liðlega 100 fermetra íbúð um 40 milljónir kr., á sama tíma og það þykja býsna góð laun að fá 100 þúsund kr. á mánuði og verkamannalaun eru liðlega 30 þúsund kr. á mánuði. Verðlagningin hefur leitt af sér að ungt fólk á margt hvert erfitt með að festa kaup á húsnæði og mikið er um að heilu íbúðarblokkirnar séu galtómar.

Að öllu samanlögðu má sjá að Kínverjar og Íslendingar hafa ástæðu til að leiða saman hesta sína, við gætum ugglaust lært sitthvað af þeim og sannarlega gætum við kennt þeim og selt eitt og annað á móti.

Sigurjón Þórðarson og Valgeir T. Sigurðsson.?

Hunda- og kattaveisla tilbúin. Kokkurinn í miðju.

Hundurinn.

Kötturinn.

Kínverskur rennibekkur.

Á góðri stund.

Filipeysk söngkona í Kína.

Í umferðinni.

Sama.

Sama.

Sama.

Myndir og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is